29.04.1970
Neðri deild: 90. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. þetta, eins og það hefur borizt hingað í d. frá hv. Ed. N. hefur rætt frv. á nokkrum fundum og kvatt til viðræðna Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóra og Gísla Blöndal hagsýslustjóra, sem skýrt hafa einstakar gr. þess. N. hefur orðið ásátt um að mæla með samþykkt frv. með nokkrum breyt., en um þær flytur hún brtt. á þskj. 744. Einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja fleiri brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kynnu að koma.

Frv. þetta er allstórt mál og viðamikið. Það hefur og hlotið allítarlegan undirbúning og hefur tvisvar verið tekið til endurskoðunar milli þinga frá því er það var fyrst lagt fram á Alþ. vorið 1967. Megintilgangur þessa frv., ef að lögum verður, er að leitast við að tryggja sem hagkvæmasta nýtingu þess fjármagns, sem varið er til opinberra framkvæmda. Til þess að ná því markmiði eru í frv. ákvæði, er miða að því að vanda betur undirbúning framkvæmda en gert hefur verið til þessa, og verk sé ekki hafið fyrr en undirbúningi er lokið og greiðsluáætlun liggur fyrir, er tryggi, að verkinu megi ljúka á tilsettum tíma. Þá eru í frv. ákvæði, er varða framkvæmd verks, eftirlit með því, úttekt og skilamat, er öll miða að þessu sama marki.

Flestir munu vera sammála um, að nauðsynlegt sé að vanda sem bezt meðferð þess fjármagns, sem til opinberra framkvæmda fer, og því æskilegt að ná þeim markmiðum, sem þetta frv. er byggt á. Oft mun það hafa gerzt, að í framkvæmdir hefur verið ráðizt án nægilegrar fyrirhyggju og þær tekið lengri tíma en æskilegt hefði verið og því orðið dýrari og óhagkvæmari í byggingu en ella. Slíka vankanta og ýmsa fleiri er því mjög þýðingarmikið að takist að sníða af með nýrri skipan þessara mála.

Augljóst er þó, að ekki má blína á þetta eitt út af fyrir sig, heldur líta á þessi mál með víðari sjónhring fyrir augum. Ber þar fyrst að nefna, að það undirbúnings- og ákvarðanakerfi, sem ætlað er að setja á fót í þessu skyni, má ekki verða of flókið og hægfara, svo það reynist ekki um of torvelt fulltrúum sveitarfélaga og öðrum þeim aðilum, sem vinna þurfa að framgangi ýmissa hagsmunamála byggðarlaga sinna á sviði opinberra framkvæmda. Í því efni eiga hin fjarlægari byggðarlög mest á hættu. Þau hafa erfiðasta aðstöðu og mestan kostnað af því að fylgja eftir málum sínum, og að öðru leyti að taka þátt í því samstarfi, sem frv. gerir ráð fyrir, t. d. samkvæmt 22. gr. um fulltrúa sveitarfélags á fundi samstarfsnefndar. Ljóst er þó, að nokkru má til kosta við undirbúningsvinnu, ef það vinnst upp með skemmri byggingartíma og hagkvæmari gerð verksins. Þessi atriði voru nokkuð rædd í n., en ekki var að því horfið að gera till. um kerfisbreytingar á frv., hvað þetta snertir. Að þessu leyti sem og öðru veltur kannske mest á framkvæmd málsins og hvernig frv. reynist, ef að lögum verður, og má ætla, að þeir ágallar, sem í ljós kunna að koma á lögunum við framkvæmd þeirra, verði þá fljótlega sniðnir af þeim.

Í annan stað þarf að gæta þess, að með lögum um þetta efni færist ekki ákveðnir þættir af tillögurétti og því síður ákvörðunarvaldi úr höndum hinna pólitísku aðila, Alþ. og ríkisstj., yfir til embættismanna. Í því sambandi gildir sem almenn regla, að hinir pólitísku aðilar þurfa hverju sinni að standa ábyrgir gerða sinna gagnvart umbjóðendum sínum, eða m. ö. o. þurfa, hvenær sem er, að vera við því búnir að vera kallaðir til ábyrgðar, sem embættismenn aftur á móti eiga næsta hægt með að skjóta sér undan. Til viðbótar væri það svo auðvitað fráleitt, að hv. Alþ. samþykkti lög, sem skerða rétt þess til ákvörðunar í einstökum þáttum mála. Í grg. frv. er sagt, að frv. feli ekki í sér neinar eðlisbreytingar á valdi Alþ. varðandi opinberar framkvæmdir frá því, sem nú er. Alþ. eigi eftir sem áður frumkvæði að öllum opinberum framkvæmdum með samþykkt undirbúningsframkvæmda, og geti þar bæði verið um að ræða till., sem eru í upphaflegu fjárlagafrv., og eins það, sem samþ. kunni að verða í meðförum þingsins.

Eigi að síður hefur n. þótt ástæða til að flytja nokkrar brtt. við frv., sem miða að því að tryggja valdsvið hinna pólitísku aðila nokkru betur en frv. gerir ráð fyrir. Þær brtt. eru þó ekki með þeim hætti, að þær raski frv. að neinu leyti sem heild né því kerfi, sem það er byggt á. Rétt er að geta þess, að n. hafði samráð við Gísla Blöndal hagsýslustjóra um samræmingu brtt. þessara við frv. Ég mun þá í fáum orðum víkja að nokkrum efnisatriðum frv. og skýra brtt. n. eftir því, sem ég tel skýringa þörf.

Í I. kafla frv. er fjallað um almenn ákvæði. Þar er einnig rakin sú boðleið, sem meðferð máls varðandi opinberar framkvæmdir er ætlað að fara frá upphafi og þar til henni er lokið.

II. kafli fjallar um frumathugun. Með frumathugun er átt við könnun og samanburð þeirra kosta, sem til greina koma við tiltekna framkvæmd, bæði að því er varðar stofnkostnað og rekstur.

Við 2. málsgr. 4. gr. frv. flytur n. brtt. á þskj. 744 um, að málsgr. orðist eins og þar segir. Brtt. felur það í sér að taka af allan vafa um það, að þar sem um er að ræða flokka opinberra framkvæmda, eins og mannvirki á sviði menntamála, heilbrigðismála, hafnarmannvirki, fyrirhleðslur og þess háttar, og vegagerð, ef sá málaflokkur verður einhvern tíma felldur undir þessi lög, þá séu ekki till. um skiptingu fjármagns til einstakra framkvæmda né um röð þeirra birtar með fjárlagafrv., heldur sé um þetta fjallað af hv. fjvn., eins og verið hefur, og hún fái öll gögn frumathugana í sínar hendur. Er brtt. þessi í samræmi við það, sem ég sagði áðan, að tryggja betur afskipti hinna pólitísku aðila en frv. gerir ráð fyrir.

Við 5. gr. flytur n. einnig brtt. um að síðari málsgr. falli niður. Fyrri málsgr. fjallar um það, að ef fjárveiting hefur verið tekin í fjárl. án frumathugunar, þá skuli frumathugun eigi að síður fara fram. Seinni málsgr., sem n. leggur til, að falli niður, gerir ráð fyrir því, að leiði frumathugun í ljós að áliti rn., að ekki sé æskilegt að ráðast í áætlunargerð, þá sé einungis heimilt að greiða kostnaðarhlutdeild ríkisins við frumathugun. Það er skoðun n., að í frv. séu nægilega ströng skilyrði sett, sem þarf að uppfylla til þess að fjárveiting fáist greidd, þótt þessi málsgr. falli burt.

Í III. kafla er fjallað um áætlunargerð, en til áætlunargerðar teljast teikningar, verklýsing, skrá um efnisþörf, kostnað og tímaáætlun, greiðslu- og fjáröflunaráætlun svo og rekstraráætlun til fimm ára, eftir að verki er lokið. Nokkrar umr. urðu í n. um rekstraráætlun og hvort þar væri ekki óframkvæmanlegt mál við að eiga. Rekstraráætlun er eitt af þeim skilyrðum, sem þarna er sett inn til þess annars vegar, að þegar um er að ræða val á milli kosta, þá sé ekki einungis farið eftir stofnkostnaði, heldur einnig rekstrarkostnaði eftir beztu gögnum, sem fyrir liggja, og eftir því, sem hægt er að gera sér grein fyrir í rekstri stofnunar, eftir að hún er byggð. Í annan stað er rekstraráætlun sett þarna inn vegna þess, að þá er aðilum framkvæmdar, ríki og í mörgum tilfellum sveitarfélögunum, gert ljóst, hvaða kvaðir muni fylgja framkvæmdinni, eftir að verkinu er lokið.

N. flytur brtt. við 10. gr., þ. e. 3. brtt. á þskj. 744, og er hún í samræmi við brtt. n. við 4. gr., og nægir að vísa til þeirra skýringa, sem ég flutti við þá brtt.

IV. kafli frv. fjallar um verklega framkvæmd, sem þar táknar gerð verksamninga, verkið sjálft, eftirlit með því og úttekt. N. flytur tvær brtt. við þennan kafla, fyrst við 14. gr., sem tók nokkrum breytingum í hv. Ed. 14. gr. fjallar um hlutverk Innkaupastofnunar ríkisins og framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins samkv. frv. þessu. Brtt. n. er við 2. málsgr. og er 4. brtt. n. á þskj. 744 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og sveitarfélags, annast sveitarfélag útboð, undirbúning samningsgerðar við verktaka og reikningshald og greiðslur vegna verksins, nema öðruvísi um semjist eða fjmrh. ákveði annað.“

Breytingin, sem í þessu felst, er sú, að ef ekki er samkomulag um, hvort sveitarfélög annist útboð, undirbúning samningsgerðar við verktaka, reikningshald og greiðslur vegna verks, sem er sameiginleg framkvæmd ríkis og sveitarfélags, sker fjmrh. úr, en ekki samstarfsnefndin, eins og um getur í frvgr., og er þar með úrskurðarvaldið fært í hendur pólitísks aðila.

Þá flytur n. brtt. við 18. gr. frv., sem einungis er til samræmis við breyt., sem hv. Ed. gerði á 17. gr. þess, þar sem rætt er um umsjónarmann. Ed. breytti því í 17. gr. og kallaði hann eftirlitsmann, og n. hefur fallizt á þá nafnbreytingu og telur hana eðlilega, en að sjálfsögðu þarf sú breyting einnig að koma fram í 18. gr.

V. kafli frv. fjallar um skilamat. Þar segir, að að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skuli fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því, hvernig framkvæmd hefur tekizt miðað við áætlun, og enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir, sem þegar hafa verið metnar. Þetta skilamat er talsvert þýðingarmikið, vegna þess að það gefur glöggar upplýsingar um það, hvernig til hefur tekizt um verkið og er mjög til hliðsjónar um það, hvaða kosti á að taka í framtíðinni, þegar reynsla hefur komizt á það.

VI. kafli frv. fjallar um yfirstjórn opinberra framkvæmda. Í 22. gr. frv., sem er í þessum kafla og fjallar um samstarfsnefnd, sem ætlað er að koma á fót, en samstarfsnefnd skal skipa formaður eða sérstakur fulltrúi fjvn. Alþ., forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins og hagsýslustjóri ríkisins, sem er formaður n. N. hefur það hlutverk að leiða saman sjónarmið eignaraðila opinberrar framkvæmdar á undirbúningsstigi og framkvæmdastigi og rannsaka frumathugun og áætlunargerð.

N. flytur brtt. við 22. gr., þ. e. 6. brtt. á þskj. 744, sem einungis er til samræmingar við aðrar breyt., sem n. leggur til, og einnig, hvað eitt orð snertir, varðandi þær breyt., sem gerðar voru á frv. í hv. Ed. Ég sé ekki ástæðu til að skýra það frekar.

Í 23. gr. er greint frá því, að þegar eftir gildistöku þessara laga skuli koma á fót framkvæmdadeild við Innkaupastofnun ríkisins undir stjórn sérstaks forstöðumanns. Framkvæmdadeildin fer með yfirstjórn verklegra framkvæmda, nema til komi önnur ákvæði, sem um er fjallað í 2. og 3. málsgr. 21. gr., en þar er um að ræða, að ríkisendurskoðunin fer með yfirstjórn skilamats. Í 23. gr. er vikið að því, að þessi nýja framkvæmdadeild við Innkaupastofnun ríkisins eigi að hafa frumkvæði um stöðlun mannvirkja, og ég vildi vekja athygli á þessu ákvæði frvgr., vegna þess að þar hygg ég að sé um mjög mikilsvert mál að ræða. Það er svo með ýmsar opinberar byggingar, sem teiknaðar hafa verið af hinum ýmsu arkitektum, að þar er oft mjög lítið samræmi á milli um gerð þeirra, og virðist stundum eins og hver einstakur arkitekt ætli sér með ákveðinni byggingu að reisa sjálfum sér minnismerki. En ég hygg, að það ætti að gera miklu meira að því að samræma þessar byggingar og staðla þær, eins og að er vikið í þessari gr.

N. flýtur eina brtt. enn þá, en það er við ákvæði til bráðabirgða. Það er við 1. málsgr. þeirra ákvæða, að hún hljóði svo með leyfi forseta:

„Um framkvæmdir, sem fé hefur verið veitt til á fjárl., en ekki eru hafnar við gildistöku laga þessara, skal farið að þessum lögum, enda sé að jafnaði ekki raskað þeim undirbúningi, sem unninn hefur verið.“

Síðasti málsl. þarna er nýr, og það er vegna þess að n. þykir rétt, að það sé tekið fram í þessu ákvæði, að undirbúningi, sem unninn hefur verið, sé yfirleitt ekki raskað, þegar lögin taka gildi.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég endurtek það, sem ég sagði hér í upphafi, að málið er allyfirgripsmikið, og ég hefði talið æskilegt, að n. hefði fengið frv. fyrr til athugunar og haft meiri tíma til þess að fara yfir það, því að það eru enn ýmis atriði í því, sem geta orkað tvímælis. Hér er um lagasmíði að ræða, sem er nýsmiði. Lög um þetta efni hafa ekki verið til hér, og lítið mun um hliðstæður slíkra laga í nálægum löndum. Verði frv. afgr., þá verður reynslan að skera úr um, hvernig framkvæmd laganna tekst, og munu hv. alþm. fljótt verða þess varir, ef þar verður einhver misbrestur á, og ætti það þá að verða þeim ljúft og skylt að gera á þær breytingar, sem henta þykir.

Ég legg svo til, herra forseti, fyrir hönd n., sem náð hefur, eins og ég gat um í upphafi, samstöðu í þessu máli, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem birtar eru á þskj. 744 og ég hef hér nokkra grein gert fyrir.