30.04.1970
Neðri deild: 92. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

10. mál, flutningur síldar af fjarlægum miðum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem komið er til hv. d. frá Ed., hefur verið lagt fyrir þingið til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin á s. l. ári. Frv. fjallar um ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum sumarið 1969.

Sjútvn. d. hefur fjallað um frv. og mælir einróma með því, að það verði samþ.

Eftir að n. hélt fund um málið, barst mér vitneskja um það, að upp hefðu komið raddir um það frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og í sjútvmrn. að láta frv. ná einnig til þessa árs. Mér fyrir mitt leyti finnst það skynsamlegt, úr því að málið liggur fyrir hæstv. Alþ., að nota þá tækifærið til þess að framlengja lögin, þannig að þau gildi einnig á þessu ári og ekki þurfi á ný að gefa út brbl. varðandi þetta efni á þessu sumri, ef til kemur, að gera þurfi ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar síldar.

Ég leyfi mér þess vegna, herra forseti, að bera fram till., sem hnígur að þessu. Ég hef ekki haft tækifæri til að ráðfæra mig við alla nm. sjútvn. um þessa breyt., en þeir, sem ég hef náð til, hafa tjáð sig samþykka henni. Brtt. er um það, að alls staðar, þar sem við á í frv., komi: árin 1969 og 1970, og í stað 1970 komi: 1971, þar sem við á.

Ég sé ekki ástæðu til að lesa brtt. En ég leyfi mér að fara fram á við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir henni.