24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

48. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Svo sem áður er að vikið, er þetta frv. einnig fylgifrv. með frv. til 1. um Siglingamálastofnun ríkisins.

Endurskoðun laga um eftirlit með skipum er orðin mjög brýn vegna örrar þróunar þessara mála, en núgildandi lög eru að meginstofni til frá 1947, þótt gjaldskrárgrein o. fl. væri breytt 1959. Tæknileg þróun öryggismála á sjó hefur verið ör þessi ár, eins og ég áðan sagði, og gerðar eru vaxandi kröfur um nákvæmar reglur um einstök atriði, er varða öryggi sjófarenda. Þess vegna er með þessu frv. gert ráð fyrir að breyta lögunum þannig, að reglur verði settar um ýmis sératriði. Skal þá sérstaklega nefna stöðugleika skipa. Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur undanfarin ár unnið að rannsókn þessara mála og gert till. að ákvæðum um stöðugleikamörk ýmissa gerða skipa.

Frv. gerir ráð fyrir í 22. gr., a-lið, að íslenzkar reglur verði settar um þessi brýnu nauðsynjamál til aukins öryggis á sjó. Sérreglur um eldvarnir í skipum eru settar samkv. 22. gr., c-lið. Sama gildir um 22. gr., d-lið, varðandi björgunartæki. Í 22. gr., f-lið, er gert að skyldu, að öll íslenzk skip með þilfari skuli búin talstöð eða loftskeytastöð, í stað þess að krafan nær nú eingöngu til skipa 15 brúttórúmlesta eða stærri, ef þau sigla meira en 3 sjómílur frá landi. Talstöðvar eru mikið öryggismál, og tilkynningaskyldan kemur ekki að fullum notum, nema skipin séu búin talstöðvum, enda eru nú fáanlegar handhægar talstöðvar fyrir lítil þilfarsskip. Breyting er og gerð á f-lið 22. gr., varðandi öryggisskírteini fyrir talstöðvar, í samræmi við ákvæði alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu frá 1960.

Í núgildandi lögum er ekki gert ráð fyrir, að skip séu smíðuð á Íslandi úr öðru efni en tré. Þetta hefur breytzt mikið á síðari árum og því nauðsyn á lagabreytingum og breyttum reglum í samræmi við það. Var gerð um þetta samþykkt á ráðstefnu íslenzkra skipasmíðastöðva og iðnaðarmanna og þess óskað, að hraðað verði setningu íslenzkra reglna í samræmi við breyttar aðstæður.

Ég vil í sambandi við þetta atriði geta þess, að á fundi sjútvn. mættu fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands. Þeir töldu, að stálskip hér á landi ætti eingöngu að byggja eftir flokkunarreglum erlendra flokkunarfélaga, sem hlotið hafa viðurkenningu víðs vegar um heim. Það kom fram hjá þeim, að þeir töldu, að Íslendingum væri ekki heimilt að smíða eftir þessum skipasmíðareglum nema með samþykki viðkomandi flokkunarfélaga. Að gefnu þessu tilefni kynnti ég mér þetta atriði sérstaklega. Niðurstaðan af þeirri athugun er sú, að við höfum hér á landi fullt leyfi viðkomandi flokkunarfélaga, sem íslenzk yfirvöld hafa viðurkennt, til þess að nota smíðareglur þeirra, eins og íslenzkar væru. A-liður 26. gr. frv. er því um nýsmíði skipa, og ýmis fyrirmæli látin ná jafnt til tréskipa sem stálskipa, enda enginn verulegur munur lengur á notkun skipanna eftir því, úr hvaða efni þau eru smíðuð.

Í 29. gr. frv. er tekið fram, að um hleðslumerki íslenzkra skipa skuli farið eftir alþjóðamerkjasamþykkt, er undirrituð var í London 5. apríl 1966. Felst í því heimild fyrir ríkisstj. að staðfesta hana, ef þetta ákvæði verður lögtekið. Þessi hleðslumerkjasamþykkt tók alþjóðlegt gildi 21. júlí 1968, og eldri alþjóðasamþykktin frá 1930, sem Ísland hefur ekki enn sagt upp, hættir að hafa alþjóðlegt gildi 21. júlí 1970. Vegna siglinga íslenzkra skipa til erlendra hafna er því brýn nauðsyn, að Ísland staðfesti samþykktina frá 1966. Tími er þegar orðinn mjög naumur til stefnu, eins og oft hefur verið bent á áður, því að eftir staðfestingu Íslands þarf að ganga frá íslenzkum reglum, semja og prenta ný íslenzk hleðslumerkjaskírteini og síðast en ekki sízt að reikna út ný hleðslumerki fyrir öll íslenzk skip, framkvæma hleðslumerkjaskoðun og breyta hleðslumerkjum á hliðum skipanna, þar sem þess kann að gerast þörf. M. a. af þessari ástæðu er mjög nauðsynlegt, að þetta frv. verði afgr. af Alþ. því, er nú situr.

Felld eru niður ákvæði 4. málsgr. 38. gr. gildandi laga varðandi síldveiðiskip, og ráðh. er þar með veitt heimild til að setja reglur um hleðslu allra fiskiskipa. Alþjóðahleðslumerkjasamþykktin nær ekki til fiskiskipa, en Alþjóðasiglingamálastofnunin vinnur nú að athugun varðandi lágmarksfríborð fyrir fiskiskip í sambandi við lágmarkskröfur um stöðugleika fiskiskipa. Hygg ég, að mér sé óhætt að segja, að framlag Íslands til þeirra mála sé hið merkilegasta.

Í 33. gr. er ákveðið, að alþjóðaákvæði skuli gilda um flutning á hættulegum varningi á íslenzkum skipum, svo og lausu korni, og gert er ráð fyrir, að settar verði sérreglur um fermingu og affermingu skipa og um flutning á dýrum.

Í VIII. kafla frv. eru gerðar breyt. á hlutverki siglingadóms. Þessar breyt. eru í samræmi við till. sjóslysanefndar frá 30. marz 1965, en formaður siglingadóms, Hákon Guðmundsson, hefur í bréfi, dags. 13. sept. 1969, stutt þessar breytingar. Auk þess styður hann álit sjóslysanefndar, að því er varðar nauðsyn á ítarlegri frumprófun hjá sjódómum, og að nærtækt væri og hagkvæmt, að embætti skipaskoðunarstjóra hefði á að skipa manni, er gæti verið viðstaddur sjópróf, hvar sem væri á landinu, og hefði að lögum aðstöðu til að bera fram spurningar og beina rannsóknum inn á þær brautir, er tryggi, að ítarlegar og alhliða skýrslur séu gefnar um þau atriði, sem sjódómurinn og skipaskoðunarstjóri telja máli skipta. Í þetta bréf hef ég áður vitnað í sambandi við frv. um Siglingamálastofnun ríkisins.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að undanfarin ár hefur skipaskoðunarstjóri farið fram á það í fjárlagatillögum sínum að fá heimild til að ráða sérstakan mann til þessara starfa, en því hefur jafnan verið synjað af sparnaðarástæðum. Þótt þau frv., sem hv. d. hefur þegar afgr., og þetta frv., sem hér er til umr., geri ekki ráð fyrir annarri fjölgun starfsliðs hjá Siglingamálastofnuninni, þá tel ég, að hér sé um svo verulegt öryggisatriði að ræða, að rétt sé að verða við till. siglingamálastjóra hvað þetta snertir. Till. er auk þess studd af ýmsum öðrum aðilum, og í samræmi við þessar till. eru þær brtt., sem sjútvn. hv. d. flytur á þskj. 630.

Þess misskilnings virðist oft hafa gætt, að það væri Siglingamálastofnunin, sem hefði á höndum rannsókn sjóslysa, en vitanlega eru það sjódómar og aðrir reglulegir dómar, sem hafa slíka rannsókn með höndum. Það, sem á hefur skort, er það, að niðurstöður af rannsóknum sjóslysa væru birtar og úr þeim væri unnið, þannig að draga mætti af þeim lærdóm og styðjast við þær í framkvæmd öryggismálanna. Úr þessu er ætlunin að bæta á þann hátt, sem sjútvn. leggur til. Við í sjútvn. þessarar hv. d. teljum, að till. okkar, eins og þær liggja fyrir, tryggi betur sambandið, annars vegar milli dómstólanna og Siglingamálastofnunarinnar, og hins vegar milli þeirra aðila, sem þurfa að kynna sér niðurstöður rannsóknanna, heldur en þær till., sem gerðar voru varðandi þetta efni í hv. Ed. Í þeim till. virtist n. skorta á, að samhengið í þessu væri nægilega skýrt. Þess vegna hefur n. gert þessar brtt. við frv., en ég tek fram, að þær stefna í raun og veru að því sama, sem vakti fyrir hv. Ed., þegar hún setti þessi ákvæði inn í frv.

Ég vona, að það fyrirkomulag um samræmt samstarf þeirra aðila, sem við leggjum til, að um þetta fjalli, geti leyst þann vanda í sambandi við rannsóknir sjóslysa, sem oft hefur borið á góma í sambandi við flutning till. til þál. um endurskoðun laga um rannsókn sjóslysa.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema sérstakt tilefni gefist, að fara um þetta frv. miklu fleiri orðum. Brtt., sem n. leggur til á þskj. 630, eru eingöngu breyt., sem leiðir af þeirri breytingu á nafni stofnunarinnar, sem hv. þd. hefur þegar samþ., nema sú till. um sérstakan starfsmann við Siglingamálastofnunina, sem skuli fylgjast með rannsóknum sjóslysa. Hún er 5. till. á þskj. og er við 44. gr. og hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við Siglingamálastofnunina skal starfa siglingafróður maður, er hafi það meginverkefni að kanna orsakir sjóslysa. Skal hann mæta við sjópróf, ef um er að ræða manntjón, veruleg meiðsli manna eða meiri háttar eignatjón, og hefur hann þá fyrir dómnum að öllu leyti sama rétt og eftirlitsmaður samkv. ákvæðum 39. gr.

Hér vil ég skjóta því inn í, að samkv. ákvæðum þessarar tilvitnuðu gr. hefur eftirlitsmaður rétt til þess að bera fram spurningar og leggja fram gögn fyrir sjódómi og enn fremur að krefjast framhaldsrannsóknar, ef honum þykir með þurfa.

Ég les þá áfram gr.:

„Með honum skulu vinna að þessum málum fjórir menn skipaðir af ráðh. til sex ára í senn samkv. tilnefningu þessara aðila: Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands og Slysavarnafélags Íslands.

Samstarfsnefnd þessi skal fylgjast eftir föngum með starfi sjódóma og siglingadóms, safna saman upplýsingum, sem skýrt geta eða upplýst orsakir sjóslysa, koma á framfæri leiðbeiningum um slysavarnir og varúðarráðstafanir, miðla slíkum upplýsingum til sjómannaskóla, sjómanna og útgerðarmanna og gera till. um ráðstafanir til að draga úr slysahættu á sjó.

Framangreindur starfsmaður Siglingamálastofnunarinnar skal í samráði við samstarfsmenn sína í n., þegar þess er óskað af skólastjórum sjómannaskóla, skýra fyrir nemendum helztu orsakir sjóslysa hér við land og hvernig unnt sé að forðast þau.

N. semur grg. um rannsóknir sjóslysa og ályktanir sínar í því efni. Siglingamálastofnunin birtir niðurstöður n. árlega eða oftar, þegar sérstök ástæða þykir til. Ferðakostnaður og önnur nauðsynleg útgjöld n. greiðist eftir reikningi, er ráðh. úrskurðar.“

Ég leyfi mér svo, herra forseti, fyrir hönd sjútvn. að mæla með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fram koma á þskj. 630.