24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þó að ég eigi sæti í þeirri hv. n., sem mun fá þetta mál til meðferðar, þá finnst mér rétt að ræða þetta frv. lítillega nú, þegar það kemur hér til 1. umr.

Eins og þeir vita, sem þekkja þessi mál, hefur það orðið þannig, að þeir fjármunir, sem hafa verið látnir renna til þessara hluta, hafa alltaf minnkað, en þeir voru ákveðnir með lögunum 1964 það sem þeir eru í dag, en nú er verið að fara fram á að fá heimild til að lækka þetta frá því, sem þá var ákveðið í lögunum. Ef við förum að athuga, hvernig þróun þessara mála hefur verið á undanförnum árum, þá kemur í ljós, að árið 1957 var ákveðið með lögum að leggja fram 25 þús. kr. styrk til íbúðarhúsabygginga í sveitum. Þá var byggingavísitalan 117 stig og þá var talið, að rúmmetrinn í íbúðarhúsnæði kostaði 1085 kr. Næst þegar hækkun var gerð, árið 1960, var byggingavísitalan komin upp í 150 stig og kostnaðurinn við að byggja hvern rúmmetra í 1396 kr. Þá var þessi styrkur færður upp í 40 þús. kr. 1962, þegar byggingavísitalan var komin upp í 180 stig og kostnaðurinn við að byggja hvern rúmmetra kominn í 1674 kr., var þessi styrkur færður upp í 50 þús. kr. 1964, þegar byggingavísitalan var í 220 stigum eða það kostaði 2044 kr. að byggja hvern rúmmetra í íbúðarhúsnæði, þá var hann færður upp í 60 þús. kr. Síðan hefur þessi styrkur ekkert verið hækkaður, en í dag er byggingavísitalan komin í 439 stig og kostnaður á hvern rúmmetra kominn upp í 4080 kr. Á þessu árabili hefur því framkvæmdamáttur þessa styrks minnkað um helming, og svo kemur hæstv. landbrh. hér á hv. Alþ. með frv. um að taka fjármuni úr þessu, en ekki að hækka þennan styrk. Þetta er kannske eitt af mörgum dæmum um þá landbúnaðarstefnu, sem ríkir nú í landinu.

Og hvernig er svo með veðdeildina? Hún er í rauninni algerlega lömuð. Nú skuldar hún t. d. hálfa 15. millj. kr. Hún fær úr Framkvæmdasjóði á þessu ári 8 millj. kr., en rekstrarhallinn á henni er 1.4 millj. kr., svo það, sem væri til útlána, þó að skuldin stæði, eru aðeins 6.6 millj. Lánin hafa nú staðið í stað í 4 ár, og þegar þau voru hækkuð úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr., var ekkert fjármagn ætlað til viðbótar í veðdeildina. Það sjá allir, að þó hámarkslán væri nú fyrir hendi, 200 þús. kr., þá er það náttúrlega ekkert lán. Ef það hefði verið hægt að taka einhverja fjármuni frá Landnáminu, sem ekki er, þá hefði verið nær að setja þá í veðdeildina til þess að styrkja hana eitthvað, því að ekki veitir af. Ég vil koma með fyrirspurn til hæstv. landbrh.: Er ekki hugmyndin að hækka þennan byggingastyrk, sem hefur staðið í stað, þó að dýrtíðin hafi vaxið um helming á sama tíma, og ætlar hæstv. ríkisstj. virkilega ekkert að gera í málum veðdeildarinnar?

Miðað við það, sem ég hef hér sagt, þá leggst ég algerlega á móti þessu frv., sem hér liggur fyrir, en mun koma með þá brtt. í n., að styrkurinn verði hækkaður.

Það má geta þess, að á árinu 1970 hafa 70 menn beðið um lán úr Stofnlánadeildinni til að byggja íbúðarhús. Með þessum styrk, sem nú er 60 þús. kr., þá væru það samtals 4.2 millj. kr. Það munu vera að meðaltali um 40 menn, sem eru í endurbyggingum og viðbyggingum, og eins og hv. þdm. vita, hefur Landnámið greitt sem styrk 10% af þeim kostnaði. Það má búast við því, að það verði alls ekki minna en 500 þús. kr., sem slíkar endurbætur og viðbyggingar kosta á þessu ári, miðað við reynslu undanfarinna ára, og þá væru það 50 þús. kr. á hvert býli. Þá eru komnar þarna á 7. millj. kr., og miðað við að tvöfalda styrkinn, eins og þyrfti að gera, til þess að hann hefði sama framkvæmdamátt og hann hafði 1964, þá veitir áreiðanlega ekki af þessum fjármunum, sem Landnámið hefur yfir að ráða. Og ef maður fer að athuga þessa sögu enn þá betur, þá var styrkurinn þó hér á árunum hækkaður meira en byggingarvísitalan hækkaði á sama tíma.