02.04.1970
Efri deild: 64. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í þetta mál. Því voru gerð skil við 1. umr. málsins og eru það reyndar ekki svo flókin efnisatriði, sem hér er um að ræða, að þess gerist þörf að hafa um það mörg orð. En í þessu frv. voru upphaflega þrjú efnisatriði:

Í fyrsta lagi, að sett yrði inn í lög um atvinnuleysistryggingar það ákvæði, að allir meðlimir sama verkalýðsfélags njóti óskoraðs réttar til atvinnuleysisbóta án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir á viðkomandi félagssvæði. En gildandi lög tryggja þetta ekki, þegar um er að ræða, að eitt verkalýðsfélag nær bæði yfir staði, sem telja yfir 300 íbúa í þéttbýli, og fámennari byggðarlög.

Í öðru lagi var svo um það að ræða, að tryggður yrði réttur smáútvegsmanna, sem eru að öðrum þræði verkamenn, en róa á eigin fari að nokkru leyti. En samkv. núgildandi ákvæðum laganna njóta þeir einskis bótaréttar, nema þeir vinni verkamannavinnu að meiri hluta. Þetta atriði hefur skapað mikil vandkvæði í sambandi við framkvæmd laganna, en hér er gert ráð fyrir, að þetta verði leyst með þeim hætti, að þessir menn verði gjaldskyldir, þegar þeir eru með eigin atvinnurekstur, en njóti hins vegar bóta, þegar þeir stunda verkamannavinnu.

Loks var svo í frv. upphaflega gert ráð fyrir þeirri breytingu, að ekki þyrfti að koma til samþykki atvinnurekenda, ef ráðh. notaði heimild, sem hann hefur til þess að láta lögin taka til svæða, sem hafa innan við 300 íbúa. Við nánari athugun og í samræmi við umsögn stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs varð niðurstaða n., að ekki væri ástæða til þess að gera þessa breytingu, og flytur n. á þskj. 468 till. um það, að þetta efnisatriði frv. verði tekið út, en frv. samþ. að öðru leyti.

N. leitaði umsagnar nokkurra aðila um þetta frv., og bárust umsagnir frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands og stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs. Vinnuveitendasamband Íslands lagðist ekki gegn málinu, en taldi hins vegar ekki óeðlilegt, að það yrði látið bíða allsherjar endurskoðunar, sem því miður virðist ekki ætla að ganga fram á þessu þingi, eða a. m. k. er ekki neitt, sem bendir til þess. Alþýðusamband Íslands mælti með frv. og stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs mælti eindregið með því með þeirri breytingu, sem n. nú flytur. Niðurstaðan varð sem sagt sú í n., að allir nm. voru sammála um að leggja til, að frv. yrði samþykkt.