29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

138. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á l. nr. 79 31. des. 1968, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu, er aðeins tvær örstuttar gr. 1. gr. hljóðar á þessa leið: „Í stað orðanna „17%“ í 1. málsgr. 3. gr. laganna komi: „11%“. Og 2. gr. hljóðar á þessa leið: „Lög þessi öðlast þegar gildi og taka til greiðslu kostnaðarhlutdeildar samkvæmt 3. gr. laganna frá og með 1. janúar 1970.“

Í meðförum hv. Ed. var svo bætt við ákvæði til bráðabirgða, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þessu tilefni skal Verðlagsráð sjávarútvegsins endurskoða lágmarksverð, sem gilti á árinu 1969 með gildistíma fram á árið 1970. Hið endurskoðaða lágmarksverð skal taka gildi frá og með 1. janúar 1970.“

Þannig stendur á þessu bráðabirgðaákvæði, að um einstakar sjávarafurðir mun hafa verið ákveðið verð á s.1. ári, sem átti að gilda fram á þetta ár. Þarna mun vera um að ræða síld veidda við Norðurland og Austurland, en verð á henni átti að gilda, að því er mig minnir, til loka þessa mánaðar og í öðru lagi er þarna um að ræða verð á rækju, en verð á henni átti að gilda til 31. ágúst þessa árs. Hvað fyrra atriðið, síldina við Norður– og Austurland snertir, hefur þetta enga praktíska þýðingu, en varðandi rækjuna verkar þetta þannig, að skiptaverðið breytist til hækkunar úr 10 kr. pr. kg í 10.50 kr. En það, sem útgerðin fær þá fyrir rækjuna, mun verða 12.70 kr. Í sjútvn. þessarar hv. d. var í sjálfu sér enginn efnislegur ágreiningur um þetta frv., en einn hv. nm., hv. 4. þm. Austf., skilar þó séráliti. Í því kemur þó fram, að hann er fylgjandi frv. út af fyrir sig. Ég vil vekja athygli á því, að með þeim samningum, sem frv. þetta byggist á milli útgerðarnmanna annars vegar og sjómannasamtakanna hins vegar, verður sú breyting ein á l. um ráðstafanir í sjávarútvegi, að sú kostnaðarhlutdeild, sem útgerðin fékk af óskiptu, lækkar úr 17% í 11%, þ.e.a.s. þetta frv. hefur aðeins áhrif á 3. gr. laganna, en ekki á 4. gr. Í 3. gr. eru eingöngu ákvæði, er lúta að því, þegar fiskiskip selur afla í innlendri höfn. Ákvæði varðandi sölu afla erlendis eru aftur á móti í 4. gr. l. og þetta frv. hefur engin áhrif á þá gr. Sú breyt. á 3. gr., sem hér er fjallað um, leiðir til þess, að fiskverðshækkun til skipta verður um 15%, og mér skilst, að þrátt fyrir það, að útgerðin slaki til á þeim kostnaðarhluta, sem hún hefur fengið ein, sé hækkunin, sem til hennar rennur, um 6%. Vegna þess að þetta hefur eingöngu áhrif, ef landað er hérlendis, en ekki, þegar afli er seldur í erlendri höfn, ætti þessi breyting út af fyrir sig að stuðla að því, að íslenzk fiskiskip legðu meiri áherzlu en áður á að skila aflanum til vinnslu hér á landi. Það stendur þannig á, að ekki hefur, þrátt fyrir samkomulagið um fiskverðið, verið hægt að birta auglýsingu um fiskverðið, meðan hæstv. Alþ. hefur ekki afgr. þessa breyt. og er beðið með birtingu fiskverðsins eftir því, að þetta frv. verði að lögum.

Ég vil þess vegna leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að 3. umr. um þetta mál fari fram þegar að lokinni þessari umr., þannig, að ekki þurfi að verða frekari dráttur á því, að auglýsing um fiskverðið verði birt. Ég hygg, að ég þurfi svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en fyrir hönd meiri hl. sjútvn. og raunar fyrir hönd allrar n., mæli ég með því, að frv. verði samþ.