10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

Utanríkismál

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú varla hægt að elta ólar við þessa ræðu hv. þm., sem hefur verið flutt hér, ekki einu sinni, heldur mörgum sinnum um það, hversu Bandaríkin eru vont land og vilji kúska heiminn. Hann sagði í upphafi síns máls, að ég væri enn þá eða lifði enn þá á tímum kalda stríðsins, þar sem ég væri að bera honum á brýn, að hann vildi hafa landið opið og óvarið og það væru bara leifar af kalda stríðinu og því, sem því fylgdi. En hvað vill hv. þm.? Hann vill, að varnarliðið fari burtu og við segjum okkur úr Atlantshafsbandalaginu. Er þá ekki landið opið og óvarið? Ég spyr hann: Hver á þá að verja sjálfstæði okkar og öryggi?