22.01.1970
Neðri deild: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er af fréttum, hefur það gerzt, að upp hefur risið deila um verðlagningu á loðnu til bræðslu, og sú deila hefur þegar leitt til þess, að veiðar í þessum efnum hafa stöðvazt eða ekki eru enn þá hafnar veiðar, þó að öll skilyrði séu orðin til þess að byrja á þessum veiðum. Ég hafði hugsað mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár í gærdag út af þessu máli, en þá lá fyrir, að hæstv. forsrh. væri fjarverandi vegna veikinda og hæstv. sjútvmrh. einnig fjarverandi, og þá var mér gefin sú skýring, að hann mundi einmitt vera að huga að þessum málum.

En eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja í dag, hefur enn engin breyting orðið á í þessari deilu, stöðvunin stendur enn, og enn stendur svo, að hæstv. sjútvmrh. er hér ekki mættur og nú er mér sagt, að hann sé orðinn veikur og mæti ekki vegna veikinda. Ég vildi því beina orðum mínum til ríkisstj. og vænti þess, að aðrir hæstv. ráðh., sem hér eru mættir, taki málið til athugunar, eftir því sem efni standa til, þó að þetta mál falli ekki beinlínis undir þá sem slíka. Ég tel, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að það megi ekki dragast í marga daga, að stöðvaðar verði þessar veiðar út af þeirri deilu, sem hér hefur upp risið. En eins og kunnugt er, þá er hér deilt um það, hvort það sé eðlilegt og sanngjarnt að taka 22 aura af hverju kg af loðnu, sem landað er úr loðnuveiðibátum, og setja andvirði þeirra í svonefndan verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Það hefur einnig komið hér fram í fréttum, að þeir sjómenn, sem einkum eru óánægðir með þetta fyrirkomulag, geti sætt sig við það og mundu ekki standa í deilu lengur, ef gengið yrði til móts við kröfur þeirra að hálfu leyti, þannig að hið auglýsta loðnuverð yrði hækkað úr 90 aurum á kg upp í 1 kr., ef framlagið í verðjöfnunarsjóð yrði lækkað um helming frá því, sem áætlað hefur verið.

Ég tel, að það sé svo sjálfsagt að verða við þessum kröfum sjómanna, að það stappi nærri því, að það sé skylda að gera það, eins og málið er allt saman vaxið. Ég veit, að hv. þm. er það kunnugt, að lög um verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins voru sett á síðasta þingi. Þá hafði ríkisstj. lagt fyrir Alþ. frv. um þetta efni og gerði ráð fyrir í því frv., að settur yrði á stofn þessi verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins og hann starfaði í allmörgum deildum: í fyrsta lagi í almennri deild og einnig í sérdeildum hinna einstöku framleiðslugreina. Það kom greinilega fram á Alþ., að allmikil andstaða var gegn frv. í því formi, sem það var, og því fór það svo, að frv. var gerbreytt hér á þinginu. Og m. a. var ákveðið að breyta því efni frv., sem alveg sérstaklega fjallaði um bræðslusíldarafurðir. Í frv., sem lagt var fram, var beinlínis tekið fram, að við gildistöku laganna skyldi sett á stofn sérstök verðjöfnunardeild fyrir frystar fiskafurðir, svo og deild fyrir afurðir síldarverksmiðjuiðnaðarins. En í meðförum Alþ. var þessu breytt og ákvæðið um að setja á sérstaka deild fyrir afurðir síldarverksmiðjuiðnaðarins var fellt niður, m. a. af því, að fulltrúar þess iðnaðar höfðu lagzt mjög gegn samþykkt frv., þ. á m. stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, sem hafði eindregið mótmælt frv. og sagði í umsögn sinni, að hún teldi, að stofnun verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sé svo vandasamt verk, að það verði ekki gert svo að í lagi sé nema með meiri undirbúningi en hafi átt sér stað í málinu. Og enn fremur sagði stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, að hún legði til, að skipuð yrði mþn. til að gera till. um málið. Þó að þetta ákvæði væri fellt niður í frv. ríkisstj. við lagasetninguna, þá þótti þó rétt að hafa almenna heimild í löggjöfinni um, að það mætti bæta við fleiri deildum en þeirri einu deild, sem átti að koma á fót samkv. lögunum, en það er fyrir frystar fiskafurðir. Það mætti bæta við fleiri deildum, og gæti þá ráðh. gert það með sérstakri reglugerð. Nú hef ég gjarnan viljað fá það upplýst, — en býst ekki við, að það sé hægt fyrst svona stendur á, að hæstv. sjútvmrh. getur ekki mætt hér, — hvort þessi reglugerð hefur verið gefin út. Mér er ekki kunnugt um það. En ég tel það að vísu líklegt, að það hafi verið, þó að ég hafi ekki fundið hana, vegna þess að lögin eru beinlínis þannig orðuð, að því aðeins sé hægt að setja upp þessa deild, að það hafi verið gefin út sérstök reglugerð um það af ráðh. Það er tvímælalaust í lögunum sjálfum. Mér sýnist því af lögunum, sem samþ. voru hér á Alþ. um þetta efni 16. maí 1969, að það hafi síður en svo verið ástæða til þess að upphefja deilur um þetta mál, þegar menn hafa í huga þá tvímælalausu afstöðu, sem fram kom hér á Alþ. varðandi málið. Ég tel í raun og veru, að hér sé farið aftan að Alþ. með því að setja reglugerð um þetta atriði, sem síðan leiði til þessarar stöðvunar, sem allir vita nú um.

En það er ekki aðeins það, sem mælir gegn því að halda uppi deilu um þetta efni nú, heldur einnig hitt, að ég tel mjög ósanngjarnt og óeðlilegt að byrja á því að setja upp þennan verðjöfnunarsjóð í sambandi við loðnuafurðir, þegar á það er litið, hvernig ástatt hefur einmitt verið með þennan iðnað. Þeir, sem hér eiga hlut að máli, eru annars vegar síldarverksmiðjuiðnaðurinn í landinu, en hann hefur orðið fyrir meira áfalli en nokkur önnur atvinnugrein í landinu á undanförnum árum, eins og menn vita, sem hefur m. a. leitt til þess, að svo til engar síldarverksmiðjur í landinu gátu staðið við umsamdar skuldbindingar sínar af afborgunum og vöxtum fyrir árið 1968, nema aðeins að þeim hluta til, sem kom til beinn opinber stuðningur frá hálfu ríkisins við þennan iðnað. Og einnig er það vitað, að nálega allar síldarverksmiðjur í landinu eiga enn eftir að standa við skuldbindingar sínar um vexti og afborganir á árinu 1969. Þetta liggur fyrir.

Einnig er það, að aðrir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, en það eru stærri síldveiðiskipin, sem einkum stunda loðnuveiðar, hafa einnig orðið fyrir gífurlega miklu áfalli, þar sem meginatriðið í starfsgrundvelli þeirra hefur einnig brugðizt, sem eru síldveiðarnar, eins og kunnugt er. Einnig þarf að líta á það, að verð á loðnu hefur fram til þessa, bæði í fyrra og árið þar áður, verið svo lágt, að það hefur ekki á nokkurn hátt getað staðið undir eðlilegum rekstri, sé tekið tillit til allra rekstursútgjalda bátanna, og er meira í ósamræmi við afurðaverð hjá okkur en nokkurt annað verð, sem hér þekkist, þegar við berum það saman við verð erlendis. Það er oft talað um það, að verð á þorski og öðrum bolfiski sé miklu lægra hér á landi en í nágrannalöndum okkar. En ég fullyrði það, að verðmismunurinn á þorski og öðrum slíkum fiski hér og t. d. í Noregi eða í Færeyjum eða öðrum nágrannalöndum okkar er miklu minni en hann er á loðnu. Þar er verðmunurinn svo stórkostlegur, að ekki er saman líkjandi.

Það eru því allar ástæður, sem mæla gegn því að fara að leggja á þennan sérstaka skatt nú, sem deilur spinnast hérna út af, með þeim afleiðingum, að þjóðarbúið geti tapað mjög fljótlega ekki aðeins tugum millj., heldur hundruðum millj., ef um stöðvun verður að ræða, og þetta bitnar auðvitað mjög þungt á bæði framleiðsluatvinnuvegunum og eins auðvitað á þeim sjómönnum, sem sogast inn í þessa deilu. Ég fer því fram á það við ríkisstj., að hún beiti öllum áhrifum sínum til þess, og það sem skjótast, að leysa þessa deilu. Það er alveg augljóst mál, að það er í hendi sjútvmrh. og ríkisstj. að leysa þessa deilu, m. a. á þeim grundvelli, sem annar deiluaðilinn hefur boðið, en það er, að hið auglýsta verð yrði hækkað úr 90 aurum upp í 1 kr. og framlagið í þennan sjóð, sem hér er að byrja starfsemi, yrði helmingi minna en ráð hafði verið fyrir gert.

Ég vænti þess, að þeir hæstv. ráðh., sem hér eru staddir nú, taki þetta mál upp innan ríkisstj. og hlaupi þá í skarðið fyrir hæstv. sjútvmrh., sem nú mun vera veikur, og gangi í það, að þetta mál leysist - og leysist fljótt. Hér er um mikið að tefla, en ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það, að hér verður stöðvun — og stöðvun í langan tíma, sem kostar flesta aðila í landinu mikið, ef ekki verður hér orðið við réttmætum kröfum.

Ég skal svo ekki fara út í að ræða þetta mál að öðru leyti. Afstaða mín til þessa máls kom fram, þegar lögin voru sett. Það kemur mér því ekkert á óvart og er í fullu samræmi við það, sem ég sagði áður um þessa löggjöf, að hún mundi valda miklum ágreiningi. Og ég spái því, að ágreiningur um hana eigi eftir að verða enn þá meiri en hér kemur upp.