15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

Atvinnuleysi

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það, sem hér hefur komið fram, og leggja áherzlu á, að nú þegar séu gerðar sérstakar og skynsamlegar ráðstafanir til þess að bæta atvinnuástandið í landinu. Öllum hugsandi mönnum hlýtur að vera atvinnuástandið mikið áhyggjuefni um þessar mundir. Það er eins og þegar hefur verið rakið, að það varð mjög tilfinnanlegt atvinnuleysi s. l. vetur, og nú í sumar hefur einnig alltaf verið talsvert atvinnuleysi. Og þó að nú í þessum mánuði kunni atvinnuleysingjum eitthvað að hafa fækkað, þá liggja til þess skiljanlegar ástæður, vegna þess að einmitt á þessum tímamótum hafa margir horfið til skólanna og setzt á skólabekk. Ég held, að við verðum því miður að horfast í augu við þá staðreynd, að það sé mikil hætta á atvinnuleysi í vetur, ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð. Og ég hygg, að það séu flestir sammála um það, að atvinnuleysi verði umfram allt að afstýra. Þess vegna er spurningin hér sú, hvaða úrræði séu líklegust til þess að afstýra því atvinnuleysi, sem nú er og virðist því miður vera framundan, og hvaða úrræði séu líklegust til þess að tryggja fulla atvinnu í framtíðinni, því að vitaskuld er það ískyggilegt og ískyggilegra en flest annað, ef við ættum nú að þurfa að horfast í augu við það, að atvinnuleysi hér á landi yrði eitthvert varanlegt ástand.

Ég tel, að hinu opinbera beri að hafa forustu í þessum efnum, forustu í atvinnumálum, og því ber það alveg sérstaklega nú vegna þess, hvernig atvinnuástandið er. Og með hinu opinbera á ég þá við ríkið og sveitarstjórnir, en þessir aðilar þurfa einmitt að vinna saman í þessum efnum.

Ég held, að það sé mjög þýðingarmikið, að ríkisstj. og ríkisvaldið gangi að því heils hugar að hafa forustu í þessum efnum, en geri það ekki af hálfum huga eða eftir einhverja eftirgangsmuni. Ég fagna þess vegna út af fyrir sig þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan, að ríkisstj. væri nú sérlega fús til þess að hafa samstarf við stjórnmálaflokkana, þingflokkana, um lausn þessara mála. En yfirlýsingar eru náttúrlega aldrei meginatriðið, heldur hitt, hvernig til tekst um framkvæmdina. Það sjáum við einnig í atvinnumálunum, því að yfirlýsingar hafa verið gefnar að undanförnu, en nægilegar framkvæmdir hafa ekki alltaf fylgt þeim yfirlýsingum.

Nú er sannleikurinn sá, að talsvert er svo sem gert af opinberri hálfu í þessum atvinnumálum. Við höfum ýmsar stofnanir, sem eiga að greiða götuna í þessum efnum. Við höfum okkar atvinnujöfnunarsjóð og við höfum okkar framkvæmdasjóð og við höfum okkar atvinnumálanefndir með sínar 340 millj. eða hvað það er, sem þær hafa úthlutað. Og ýmsar fleiri stofnanir höfum við, sem eiga að vinna að verkefnum þessum skyldum. En þessi aðstoð og þessi fyrirgreiðsla hefur ekki dugað til. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna, a. m. k. í mínum huga, hvort það sé ekki eitthvað að kerfinu og skipulaginu í þessum efnum, hvort það sé öruggt, að sú fyrirgreiðsla, sem ríkið stendur þó þrátt fyrir allt að, komi að fullum notum, komi að þeim notum, sem hún gæti komið, ef rétt væri á haldið að öllu leyti. Ég leyfi mér að efast um það. Ég tel, að það þurfi að taka til sérstakrar athugunar skipulag og form þessara mála, og ég teldi það æskilegt út af fyrir sig, ef hæstv. forsrh. vildi byrja samstarf við þingflokkana með þeim hætti að taka þessi mál öll til algerrar og gagngerrar endurskoðunar.

Ég skal ekki á þessu stigi eða að þessu sinni fara út í langar umr. almennt um málið. Til þess gefst sjálfsagt tækifæri síðar. Ég hef við annað tækifæri bent á nokkur úrræði, sem ég tel að ætti að taka til athugunar til þess að bæta atvinnuástandið í landinu, — fyrst og fremst í bráðina, en líka með lengri framtíð fyrir augum. Það er alveg ljóst, að það má gera vissar ráðstafanir til þess að hleypa meira lífi í atvinnulífið.

Hæstv. ríkisstj. hefur gefið yfirlýsingar um vissar ráðstafanir nú, fé til vegagerða og lán til húsnæðismála, sem veitt yrðu fyrr en ella, og sérstakar fyrirgreiðslur við skipasmíðastöðvar. Allar þessar ráðstafanir eru út af fyrir sig góðra gjalda verðar, en þær ná þó skammt, að ég hygg, til að leysa þann vanda, sem við er að etja nú. Það er t. d. augljóst mál, að húsbyggjendur eru ekki sérstaklega ákafir í að byrja á íbúðarhúsabyggingum, þegar vetur fer í garð. Ég held, að það hefði verið óneitanlega æskilegra, að hið opinbera hefði beitt sér fyrir einhverjum opinberum framkvæmdum, t. d. opinberum byggingarframkvæmdum, til þess að leysa aðkallandi vanda í þessum efnum. Ég minni t. d. á tvö stórhýsi, sem eiga að rísa og þörf er á að rísi sem fyrst. Það er stjórnarráðshús og alþingishús. Hvers vegna á ekki að nota þá tíma, sem nú eru, þegar atvinnu skortir, til þess að ráðast í slíkar framkvæmdir? Og ef einhver skyldi svara því, að það væri ekki hægt að byrja á þessum byggingum nú, vegna þess að það taki sinn tíma að teikna þær, þá vil ég svara því, að þá hafa þeir aðilar, sem um undirbúning þessara mála hafa átt að sjá, legið á liði sínu, vegna þess að langt er síðan umr. hafa hafizt um þessi mál og jafnvel fjárframlög hafa verið veitt á fjárlögum, t. d. til byggingar stjórnarráðshúss, og langt er síðan kjörin var n. til þess að fjalla um byggingu alþingishúss, þannig að ef teikningar liggja nú ekki enn eftir allan þennan tíma fyrir, þá er eitthvað bogið við störf þessara aðila. En þetta eru aðeins dæmi, vegna þess að opinberar framkvæmdir eru margar aðrar aðkallandi en þessi tvö stóru hús, sem þurfa að koma á næstunni. Það eru skólabyggingar, og það eru sjúkrahúsbyggingar og fleira af því tagi. Það hefði ég talið alveg sérstaklega æskilegt einmitt á þessum tíma, að það hefði verið ráðizt í slíkar framkvæmdir til þess að leysa aðkallandi vanda í atvinnumálum. Auk þess álít ég, að það eigi að grípa til alveg sérstakra ráðstafana í byggingariðnaðinum til þess að hleypa nýju lífi í hann. Það er auðvitað mjög gott, að menn eigi kost á lánum til þess að byggja íbúðarhús og það er nauðsynlegt. En það er galli á, ef við hvert ár sem líður hækkar byggingarkostnaðurinn svo, að það er étin upp sú hækkun, sem verður á lánum, eða meira. Ég held, að það verði að fara að vinna að þessum málum nokkuð á aðra lund og leggja áherzlu á að gera skynsamlegar ráðstafanir til þess að reyna að lækka byggingarkostnaðinn, og þar er leiðin, sem fær væri, m. a. sú að lækka mjög verulega eða fella niður tolla af byggingarefni til íbúðarhúsabygginga.Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef slík ráðstöfun yrði gerð þá gæti hún greitt fyrir framkvæmdum í þessu efni. Ég hef bent á ýmislegt fleira, sem þyrfti að taka til athugunar, en eins og ég sagði áðan, þá ætla ég ekki að fara að ræða það hér nú. Ég vil þó aðeins minnast á eitt atriði. Það er vitað mál, að að talsverðu leyti á þetta atvinnuleysi, sem nú er, rætur sínar að rekja til þess, að það hefur orðið samdráttur í iðnaði hér á landi. Sá samdráttur í iðnaði stafar af því, að mörg hin ungu og óþroskuðu iðnfyrirtæki, sem voru komin hér af stað, hafa ekki þolað samkeppnina við óheftan innflutning iðnaðarvara.

Nú er um það rætt, að á næstunni standi til að taka ákvörðun um það, hvort Ísland gerist aðili að fríverzlunarbandalagi, og ef sú yrði raunin á, þá mundu sjálfsagt þessi iðnfyrirtæki, sem hér hafa starfað og starfa, eiga von á mikilli samkeppni. Ég held, að á málum iðnaðarins þurfi að taka með sérstökum hætti. Ég held, að það sé fyrst og fremst nauðsynlegt, hvernig sem menn annars hugsa í þessum efnum, að marka ákveðna stefnu í málefnum iðnaðarins. Það þýðir ekki að vera að tala um að ganga í EFTA og segja bara, að þessi og hinn iðnaður hljóti að spjara sig. Það verður að gera sér rökstudda grein fyrir því í tæka tíð, hvaða iðnaður það er, sem á að geta orðið útflutningsiðnaður hér í framtíðinni. Og á það var bent, ef ég man rétt, alveg sérstaklega í EFTA-skýrslunni hér í fyrravetur, að slík athugun á þeim málefnum iðnaðarins þyrfti að fara fram. Hún hafði ekki farið fram þá, og spurningin er: Hefur hún nokkuð farið fram enn? Við þurfum að efla iðnaðinn í þessu landi, vegna þess að iðnaðurinn hlýtur að veita viðtöku miklu af þeim mannafla, sem kemur á markaðinn, og þess vegna er það einmitt höfuðatriðið að marka þannig ákveðna stefnu í iðnaðanmálum og gera sér grein fyrir því t. d., eins og ég sagði, hvaða iðnaðarvörur það væru, sem ættu sérstaklega að geta orðið þýðingarmiklar í útflutningi, og þá álít ég, að það eigi að taka upp sérstaka stuðningsstefnu við þær greinar, t. d. í formi sérstakra útflutningslána eða aðstoðarlána við þær. Ég álít enn fremur, að með tilliti til þess, hverja þýðingu iðnaðurinn hefur atvinnulega séð, þá væri mjög nauðsynlegt að fylgja fram gagnvart honum annarri stefnu í tollamálum en gert hefur verið. Ég held, að það væri æskilegt að lækka eða fella niður tolla af hráefni til iðnaðarins og eins vélum til hans. En ég held líka, að á meðan atvinnuástandið er eins og það er og meðan iðnaðurinn er ekki orðinn þróaðri heldur en hann er hér á landi, þá eigi að beita alveg sérstökum ráðstöfunum til verndar innlendri iðnaðarframleiðslu, svo að við séum ekki að flytja inn vörur, sem við getum framleitt hér í þessu landi með jafngóðu móti. Ég held við höfum ekki ráð á því, þegar ástandið er eins og það er nú.

En ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég fagna yfirlýsingu forsrh. um það, að hann sé fús til samstarfs við þingflokkana um þessi mál. Ég álit, að það þurfi að taka þessi mál öll til gagngerrar skoðunar, og ég álít, að þingið sé fyrst og fremst sá eðlilegi aðili í þessu sambandi og það eigi að leggjast af sá háttur, sem upp er tekinn, að það sé í raun og veru farið fram hjá þinginu með milljónir svo hundruðum skiptir og þeim úthlutað án þess að atbeini þingsins komi þar á nokkurn hátt til.