15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

Atvinnuleysi

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Verkalýðshreyfingin hefur verið mjög uggandi um atvinnuástandið, litið það alvarlegum augum, eins og það hefur verið á undanförnum mánuðum og eins og útlit er fyrir, að það muni verða á komandi mánuðum, nema alveg sérstakt komi til. Af þessum ástæðum hafa verkalýðsfélögin víða um land tekið þessi mál nú til sérstakrar athugunar, hafa gert í vetur hér í Reykjavík nú síðla sumars, og settar hafa verið fram ýmsar kröfur til úrbóta, sem allar voru þó þess eðlis að bæta úr ástandinu eins og það þá var og eins og hugsanlegt var, að það yrði á næstu vikum og mánuðum. Hins vegar voru ekki í þeim till., á því stigi málsins, hugmyndir um varanlegar úrbætur í þessum málum, sem tækju lengra fram í tímann, en það er auðvitað höfuðatriðið. Þessar till. munu sjá dagsins ljós áður en langt um líður. Félögin hafa verið að vinna að þeim málum og munu skila þeim innan tíðar.

Með þessar till. var farið á fund ríkisstj. og þeirra stjórnarherra sveitarfélaga, sem hér eiga hlut að máli á hinu svokallaða höfuðborgarsvæði. Það verður að segjast, að þessir opinberu aðilar, bæði ríkisstj. og stjórnir þessara sveitarfélaga, tóku málaleitan verkalýðshreyfingarinnar vel og málin voru rædd að ýmsu leyti mjög ýtarlega og hreinskilnislega við a. m. k. nokkra af þessum aðilum, og sveitarfélögin töldu, að við hefðum haft sérlega gott af slíkum umr. Kom þar margt fram, sem betur mátti gera, nýjar hugmyndir vöknuðu og ég held einnig ekki sízt möguleiki á nánara samstarfi sveitarfélaga á þessu takmarkaða svæði einmitt að þessum málum.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér það, sem verkalýðshreyfingin setti fram í kröfum sínum, og ekki heldur í einstökum atriðum undirtektir aðila. En það er hvergi nærri allt, sem við bárum á borð, sem hefur fengið þær málalyktir, sem við teljum æskilegar. Það er ýmislegt, sem menn eru ekki sammála um, og þyrfti áreiðanlega að taka betur á, ef á að gerast eitthvað jákvætt í þeim efnum. Ég ætla ekki hér heldur að verða margorður um orsakir atvinnuleysis. Menn eru víst ekki mjög sammála um, hverjar þær séu, og ég ætla ekki að vekja upp þær deilur. En frá mínum bæjardyrum horfir málið nú einfaldlega þannig við, a. m. k. hér í Reykjavík og nágrenni, þar sem ég er kunnugastur, að undirstöðuatvinnuvegirnir hafa dregizt saman og þegar eitthvað bjátar á, er alveg vonlaust, að sú mikla yfirbygging í alls konar þjónustustarfsemi og hverju og einu, sem nöfnum tjáir að nefna og byggt er á þessari undirstöðu, beri sig. Þegar á bjátar, stendur þessi yfirbygging að sjálfsögðu ekki fyrir neinu, ef sjálf undirstaðan hefur látið sig. Það hafa oft verið nefndar hér tölur og ég ætla ekki út af fyrir sig að fara með mikið af þeim. En hér í Reykjavík er ekki neinn efi á því, að það er togaraútgerðin, sem hefur verið undirstaða að uppbyggingu annars atvinnurekstrar hér í borg og staðið undir uppbyggingu Reykjavíkurborgar. Þessi skip, togararnir, þessi afkastamiklu skip, eru nú orðin býsna fá. Þeim hefur fækkað um 10 nú á nokkrum árum, og þau eru komin niður í 13. Þetta er náttúrlega afleit þróun og hlýtur að segja til sín. Hér í nágrannabyggð okkar, Hafnarfirði, er þetta þó enn þá lakara. Þar hefur togurum á nokkrum árum fækkað úr 10 niður í 3 og í bátaflotanum hefur fækkað þar ískyggilega mikið. 1967 voru 38 bátar, sem gerðir voru út frá Hafnarfirði, annaðhvort í eigu Hafnfirðinga eða lögðu þar upp. Á síðustu vertíð voru þeir 12. Að sjálfsögðu segir þetta mikla sögu, og þó að annað hafi komið til og bjargað þessu byggðarlagi, Hafnarfirði, sérstaklega, þá náttúrlega geta allir séð, hvert ástand hefði verið, ef það hefði ekki komið til.

Í byggingarmálunum er ástandið hvað lakast, atvinnuleysið mest. Það er talið, að á árunum 1963–1967 hafi að meðaltali verið byrjað á rösklega 800 íbúðum, 830 íbúðum árlega að meðaltali. Í fyrra og á árinu 1968 og þessu ári fer þetta niður í 350, og á sama tíma hefur dregizt mjög saman byggingarstarfsemi við ýmiss konar aðrar byggingar en íbúðir, m. a. margs konar verzlunar- og skrifstofuhúsnæði, þannig að atvinna í byggingariðnaðinum stendur núna ákaflega völtum fótum, ef svo mætti segja. Sú ráðstöfun, sem ríkisstj. hefur nú gert í lánamálum til húsnæðisbygginga, hefur áreiðanlega sín áhrif til að bæta úr þessu. En það vil ég undirstrika, að ef markaðsmöguleikar, þ. e. a. s. sala á íbúðum eða íbúðir, sem einstaklingar byrja á, á svo að segja einvörðungu að ráða í þessum efnum, ráða því, hvað byggt verður, þá er ekki nokkur efi á því, að eins og nú horfir verður byggingarstarfsemin miklu minni, enda þótt mönnum standi til boða þau lán, sem húsnæðismálakerfið hefur látið af hendi til íbúðabygginga, einvörðungu vegna þess, að kaupmátturinn, kaupgeta almennings er nú í því lágmarki, að það er engin von til, að almennir launþegar geti sinnt þessum málum eins og nú standa sakir. Og ég vil undirstrika það, að einmitt hve lágur kaupmátturinn er orðinn, hve kaupið er orðið lágt, á áreiðanlega mjög ríkan þátt í því atvinnuleysi, sem nú er, og það held ég, að mönnum bæri að íhuga alvarlega, einvörðungu vegna þess, að einmitt í margs konar þjónustugreinum og öðru slíku, sem byggist á kaupmætti almennings, þar hlýtur samdrátturinn að verða, þegar kaupið fer jafnískyggilega niður og það hefur gert.

Þarna er áreiðanlega iðnaðurinn stórt atriði. Ég ætla ekki að fara að orðlengja um hann núna og ekki heldur að deila við hæstv. iðnmrh. um það, hvernig ástand iðnaðarins sé. En ákaflega finnst mér það sanna lítið, þó að fjármunamyndun í iðnaði hafi verið helmingi meiri, eins og fullyrt var hér áðan, á árunum 1961–1967, held ég að það hafi verið, en næsta 6 ára tímabil á undan. Og mér er nær að halda, að það hefði verið þjóðhagslega betra, ef fjármunamyndunin í iðnaðinum hefði ekki orðið jafnmikil á þessu tímabili með þeirri efnahagspólitík að öðru leyti í innflutningsmálum o. s. frv., sem rekin var, vegna þess að ýmislegt af þessu, þeim fjármunum, sem þarna hafa verið bundnir, liggur í vélum, sem aldrei voru notaðar, aldrei var neitt framleitt með, liggja í húsnæði, sem aldrei var notað sem iðnaðarhúsnæði. Ég er ekki að segja, að þessu sé að öllu leyti á glæ kastað. Það er út af fyrir sig gott að fá skautahöll hér í Reykjavík. En sennilega er það fært á reikning þessarar fjármunamyndunar, sem hér var áðan talað um.

Atvinnuleysið hér í Reykjavík hefur verið ískyggilega mikið og alla sumarmánuðina hafa verið hér hundruð manna skráðir atvinnulausir. Það er rétt, sem hér hefur verið fram tekið, að það virðast vera tvö landssvæði, sem verst eru úti hvað snertir atvinnuleysið, þ. e. Reykjavíkursvæðið og Akureyrarsvæðið, eða Akureyri og Siglufjörður nánar tiltekið. Það hefur nokkuð dregið úr atvinnuleysi hér í Reykjavík og það eru nú í dag eða skv. tölum frá í gær skráðir 348 hér í Reykjavík. Þetta er lægsta skráða tala, sem orðið hefur á þessu ári, og út af fyrir sig er það fagnaðarefni. Ég held, að það séu frómt frá sagt þrjár höfuðástæður fyrir því, að þetta hefur nú farið minnkandi. Það er í fyrsta lagi, að skólafólkið er horfið af vinnumarkaðinum, og munar það ákaflega miklu. Í öðru lagi er það að segja, að októbermánuður — það er okkar reynsla hér um slóðir — er venjulega, nema eitthvað alveg sérstakt gerist, illviðri eða slíkt, einn allra bezti atvinnumánuður ársins hér í Reykjavík. Það á sennilega orsakir sínar ekki minnst í því, að menn eru þá gjarnan að leggja áherzlu á að ljúka verkum fyrir veturinn. Í þriðja lagi er enginn efi á því, að sú barátta, sem verkalýðshreyfingin í Reykjavík háði í septembermánuði, og þær undirtektir, sem kröfur hennar fengu hjá opinberum aðilum, hafa hér haft æðimikil áhrif, ekki fyrst og fremst vegna þess, að það sé þegar komin í gang svo og svo mikil vinna sem bein afleiðing af beinum ráðstöfunum, heldur hitt, að mönnum óx kjarkur hreinlega, mönnum óx kjarkur og bjartsýni, og það er ekki hvað minnsta atriðið í þessum efnum. En það getur náttúrlega ekki orðið neitt varanlegt nema á eftir fylgi beinar ráðstafanir, sem komi til móts við bjartsýni manna.

Þó að nú hafi dregið hér úr atvinnuleysi í Reykjavík, — það eru í gær skráðir hér 348, — þá vil ég minna á, að það er röskum 300 mönnum fleira en skráðir voru á sama degi í fyrra. Þá voru hér aðeins 45 manns skráðir. Þá fór atvinnuástandið ákaflega ört versnandi, þannig að sú tala var komin á annað hundrað 1. nóv. og hún var komin yfir 300 1. des. Nú er ég engan veginn að spá því, að þróunin verði hin sama og við gætum margfaldað töluna, skráða tölu núna, 350, með sama hætti og þetta margfaldaðist í fyrra. Það held ég, að sem betur fer verði ekki. En engu að síður er það sannfæring mín, að þessi tala hækkar verulega, þegar fram í nóvembermánuð kemur, og síðan enn meira um áramótin, svo framarlega sem ekki verður beinlínis séð til þess, að þau verk, sem nú eru í gangi og geta gengið áfram í vetur, verði látin ganga og ný sett í gang. Þetta eru að sjálfsögðu einvörðungu bráðabirgðaráðstafanir til þess að draga úr því neyðarástandi, sem atvinnuleysi skapar mönnum, en höfuðatriðið er að sjálfsögðu, að undirstöðuatvinnuvegirnir verði styrktir, svo að þeir standi undir fullri atvinnu hér í landi. Og ég held, að það geti ekki farið á milli mála, að þegar atvinnuástand er eins og nú er hljóti það að verða eitt af höfuðverkefnum Alþ. að sjá til þess, að mörkuð verði sú stefna í efnahagsmálum, sem tryggi vöxt undirstöðuatvinnuveganna og fullar framkvæmdir og auknar framkvæmdir hins opinbera, meðan atvinnuástandið er eins slæmt eins og það nú er.