02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2284)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að blanda mér í þær miklu deilur, sem hér hafa farið fram um eitt megin efnisatriði þessa frv., sem hér liggur fyrir, en það er um það, hvort heimila skuli Kvennaskólanum í Reykjavík að starfrækja með nokkuð sérstökum hætti menntaskóladeild — þ. e. a. s. að gera þá almennu breytingu frá þeirri reglu, sem í gildi hefur verið, að þar verði komið upp sérskólaformi fyrir menntaskólanám í stað þess, að hingað til hefur menntaskólanámið verið í formi samskóla. Eins og ég hef sagt, þá ætla ég mér ekki að taka hér ýkja mikinn þátt í deilu um þetta atriði, en vil þó hins vegar lýsa því yfir, að það er mín skoðun, að það sé rétt að halda við þá stefnu, sem upp hefur verið tekin í þessum efnum — að menntaskólastigið verði samskólastig og það verði ekki farið að hverfa að því gamla fyrirkomulagi að skipta þessu eftir kynjum og hafa sérstaka kvennamenntaskóla og þá sennilega afleiðingu af því síðar meir, að það verði sérstakir karlamenntaskólar. Ég er algerlega á móti þeirri stefnu. En ekki meira um það.

Það er annað atriði varðandi þetta mál, sem er þess valdandi, að ég hef kvatt mér hér hljóðs. Fyrir rétt u. þ. b. ári síðan, hygg ég, að það hafi verið, sem hæstv. menntmrh. gaf mjög ótvíræða yfirlýsingu um það, að það væri ákveðin stefna að standa þannig að menntaskólamálum í landinu, að fyrst yrði reynt að ljúka við mikilsverðar framkvæmdir í menntaskólamálum á Akureyri, Laugarvatni og hér í Reykjavík, en síðan væri ákveðið, að næstu menntaskólarnir í röðinni yrðu menntaskólar á Austfjörðum og á Vesturlandi. Það kom einnig fram í sambandi við þessa yfirlýsingu, að leitað hafði verið eftir því m. a. hér frá fjölbýlissvæðum á Suð-Vesturlandi, einkum á Reykjanesi, að þeir vildu gjarnan koma upp menntaskóla hjá sér, en ráðh. kveðst hafa sagt alveg skýrt og greinilega, að um það yrði ekki að ræða, fyrr en þessum áföngum yrði lokið, þ. e. a. s. byggingaframkvæmdum á þeim stöðum, þar sem framkvæmdir höfðu þegar verið ákveðnar, og síðan næstu áföngum, sem væri að byggja menntaskóla á Vestfjörðum og Austurlandi.

Ég tel, að frá þessari yfirlýsingu og þeim loforðum, sem gefin voru í þessum efnum, m. a. Austfirðingum, hafi verið vikið. Í fyrsta lagi, þegar ákveðið var að bæta við einum menntaskólanum enn hér í Reykjavík, Menntaskólanum við Tjörnina, en þá var svo komið, að raunverulega voru orðnir 5 menntaskólar í Reykjavík. Þá var það sérstaklega undirstrikað, m. a. af hæstv. menntmrh., að nú væri orðið þannig ástatt í þessum málum, að telja mætti alveg víst, að hægt væri að taka við í þá menntaskóla, sem þegar væru komnir á fót, fleiri nemendum en mundu sækja um pláss í þessum skólum. En nú er sem sagt komin fram till. um það að bæta við einum menntaskólanum enn hér í Reykjavík og hafa hann þann 6. í röðinni hér. Ég efast ekkert um það, að verði þetta frv. samþ., þá hlýtur að leiða af því, að það þarf að ráðast í auknar byggingar, auknar framkvæmdir, til þess að hér geti verið um viðunandi húsnæði að ræða fyrir nýja mennta-skóladeild.

Við vitum, að það er enn ekki búið að ljúka fyllilega þeim áföngum, sem unnið hefur verið að í menntaskólamálum við hina eldri menntaskóla. En eitt veit ég mæta vel, og það er það,að það er enn ekki búið að taka neina ákvörðun um það, hvernig skuli háttað framkvæmd í menntaskólamálum á Austurlandi. Fjárveitingin til framkvæmdar í þeim efnum er enn ónóg, og það þykir enn ekki fært að standa við það loforð, sem þar hefur verið gefið, um framkvæmdir í menntaskólamálum þar. Ég tel, að það geti enginn vafi verið á því, að það sé vandræðalaust orðið, eins og nú er komið, fyrir ungmenni hér í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu að fá setu í menntaskóla í þeim 5 menntaskólum, sem hér eru komnir, vegna rúms í skólunum. Og ég get því ekki séð annað en að þær stúlkur, sem hugsanlega mundu fá setu í þessari nýju menntaskóladeild, ættu allan kost á því að ganga í menntaskóla hér í sínu heimabyggðarlagi og hafa góða aðstöðu til þess að stunda hér menntaskólanám, án þess að bætt sé hér við einum menntaskólanum enn. Hinu verður hins vegar ekki neitað, að aðstaða ungmenna á Austurlandi t. d. er ekki jafn góð til þess að stunda menntaskólanám.

Ég verð að segja það, að í þessum efnum undrast ég það mjög, að þm. af Austurlandi, sem setu eiga hér í þessari hv. d., skuli þegar hafa greitt hér atkv. með því að bæta þessum menntaskóla við hér í Reykjavík, miðað við það, hvernig ástatt er um framkvæmd á þeim loforðum, sem Austfirðingar hafa fengið í þessum efnum. Ég undrast það mjög. Ég sætti mig hins vegar ekki við það, að þannig sé staðið að loforðum í þessum málum, og það er ein af ástæðunum til þess, að ég get ekki greitt þessu frv. atkv. Hér er flutt till. til breyt. á þessu frv. af hv. 6. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, um það að heimila piltum einnig aðgang að þessari nýju menntaskóladeild við Kvennaskólann. Út af fyrir sig þá get ég samþ. þessa till., því að ég tel, að hún sé þó til lagfæringar á þessu máli. En ég lýsi því alveg hiklaust yfir, að þó að sú till. yrði samþ., þá mundi ég verða á móti þessu frv. eftir sem áður af þeim ástæðum, sem ég hef hér m. a. greint.

Í þessum efnum þykir mér einnig ástæða til þess að minnast á það, að mér finnst einkennilegur áhugi kominn upp, m. a. hér á Alþ., um menntaskólamál. Menn tala hér um menntaskóla, rétt eins og að menntaskólar séu einu skólarnir, sem umtalsverðir séu í landinu. Það þarf ekki minna en 6 tegundir — eða 6 skóla á þessu námsstigi í Reykjavík eftir því, sem helzt er að álykta af því, sem fram hefur komið í ræðum manna. Ég fyrir mitt leyti vil gjarnan stuðla að því, að sem flestir unglingar í landinu geti þreytt stúdentspróf. Ég hef ekki á móti því. En ég álít, að við verðum að reyna að gera okkur grein fyrir því, að það eru til fleiri námsbrautir en aðeins menntaskólabrautin ein, sem við eigum að hugsa um að skapa þannig skilyrði, að þar geti þróazt eðlileg kennsla og farið fram eðlilegt nám. Ég vil t. d. benda á það, að ekki erum við lengra á veg komnir en svo, að hér er um einn tækniskóla að ræða, sem á þó í mjög miklum erfiðleikum. Iðnfræðslunámið er allt í upplausn hjá okkur, og því miður hefur svo farið, að eftir síðustu breytingar á iðnfræðslulögunum hefur í rauninni sótt í hið lakara horf með fræðslu í þeim málaflokki. Alþingi hefur gert ályktun um það hvað eftir annað, að það þurfi að koma upp fiskiðnskóla í landinu. Það hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum, auðvitað því alltaf borið við, að það skorti fjármagn. En það skortir aldrei fjármagn, ef um það er að ræða að bæta við einum viðbótarmenntaskóla í Reykjavík.

Eins og ég sagði, búa heil landssvæði eins og t. d. Austurland og Vestfirðir, við mjög erfið skilyrði til þess að koma unglingum þar um slóðir til menntaskólanáms. Það er ósköp eðlilegt, að fólk í þeim landshlutum berjist fyrir því að koma þar upp menntaskóla, einum í hverjum fjórðungi. En ég skil ekki í rauninni þann hugsunargang, sem á bak við það stendur, að berjast fyrir því að hlaða hér svo að segja menntaskóla ofan á menntaskóla í Reykjavík.

Ég vildi, að þetta sjónarmið kæmi hér fram, vegna þess að þó að ég sé á móti því meginprinsippi, sem hér er deilt um í sambandi við þetta frv., þá vil ég þó ekki gera það að neinu aðalatriði. Hitt er fyrir mér aðalatriði málsins, að ég tel það óeðlilegt og ég tel það svik við gefin loforð um niðurröðun á framkvæmdum í landinu í sambandi við byggingu menntaskóla að standa þannig að málinu, sem hér er gert ráð fyrir. Og af því verð ég m. a. á móti þessu frv.