27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

74. mál, skattfrelsi heiðursverðlauna

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 585, mælir fjhn. þessarar hv. d. öll með því, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. Frv. þetta fjallar um það, að heiðursverðlaun, sem menn fá án umsóknar, eins og þar stendur, frá stofnunum, innlendum eða erlendum, fyrir afrek á sviði lista og mennta, tækni og vísinda, skuli undanþegin tekjuskatti og útsvari frá árinu 1969. Nm. hafa fjallað um frv., og það er skoðun þeirra, að þetta mál sé töluvert viðameira en svo, að hægt sé að óathuguðu að setja slíka undanþágu í skattal. Þeir eru hins vegar þeirrar skoðunar með tilliti til þeirra nýlegra dæma, sem hv. alþm. allir þekkja, um eftirgjöf á skatti vegna heiðursverðlauna erlendis frá, og sú er skoðun þeirra, að það sé rétt, að þetta mál sé sérstaklega athugað og reynt að setja um það þá reglu, sem talin væri eðlileg, svo það þyrfti ekki í hvert skipti að leggja slíkt mál hér fyrir Alþ. — Það er eitt nýtt dæmi enn, sem við heyrum um nú, þar sem dr. Sigurður Þórarinsson hefur hlotið verðlaun í Svíþjóð.

Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að fjölyrða meira um málið, en n. leggur til, að málinu verði vísað til ríkisstj. og fjmrn. athugi, með hvaða hætti rétt sé að lögbinda undanþágu í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, og leggi síðan niðurstöður sínar fyrir næsta Alþ. Endurskoðun skattal. fer nú fram, svoleiðis að ég held, að einmitt þessi athugun ætti að geta farið fram nú á sumri komanda og niðurstaða af því gæti legið fyrir Alþ., þegar það kemur saman á ný n. k. haust.

N. leggur til, að frv. með þeim rökstuðningi, sem fram kemur í nál. á þskj. 585, verði vísað til ríkisstj.