29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

149. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hér er um smámál að ræða og nánar aðeins formlegs eðlis, sem nauðsynlegt er að samþykkja í sambandi við EFTA–aðildina. Þar eru gerðar ákveðnar kröfur um útbúnað tollskjala og jafnframt þarf að ganga frá sérstökum reglum varðandi refsiákvæði, sem eru til samræmingar því, sem gildir í öðrum EFTA—löndum varðandi ófullkomnar og rangar upplýsingar í sambandi við uppruna vara og í þriðja lagi þarf að útbúa skjöl með sérstökum hætti með hliðsjón af EFTA–uppruna.

Þetta frv. er, eins og ég segi, eingöngu formlegs eðlis. Það var samþykkt einróma í hv. Nd. og ég vildi leyfa mér að vænta þess, að það gæti einnig gengið hér með sama hætti gegnum þessa hv. d. og vildi því beina því til hv. fjhn., að hún leitaðist við að afgreiða þetta mál sem skjótast. Það þarf að fá afgreiðslu áður en til EFTA–aðildar kemur.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að orðlengja frekar um málið, því eins og ég sagði, er aðeins um formsatriði að ræða, en engin meiri háttar efnisatriði og vil ég því leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.