11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

58. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh. vil ég segja það, að við erum vanir því í stjórnarandstöðunni, að undir okkar mál sé tekið með þeim hætti, að alls konar fyrirvarar séu hafðir gagnvart þeim, svo að út af fyrir sig kippi ég mér ekkert upp við það, þó að þannig sé einnig tekið á þessu máli. Mér kemur heldur ekki til hugar að halda það, að frv. okkar og þau mál, sem við berum hér fram á hv. Alþ., hvort sem það er þetta þing eða annað, séu þannig úr garði gerð að hugsun eða efni til, að það hafi ekki til síns ágætis nokkuð og gæti þess vegna fengið samþykki þingsins, ef valdaaðstaðan kæmi ekki í veg fyrir það.

Út af þessu frv. vil ég segja það, að það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það er hugsun mín og okkar flm. þessa frv., að þetta sé almenn regla, henni sé ekki sérstaklega beitt í sambandi við skattarannsóknir. Ég lít á það sem annað stig, sem gæti verið afleiðing af þessari reglu. Ég er hins vegar sannfærður um það og hef þar fyrir mér nokkurn kunnugleika í skattamálum, að það er nauðsynlegt að breyta til um vinnuaðferðir hjá skattstofunum. Það kerfi, sem tekið var upp upp úr 1960, hefur ekki reynzt slíkt, hvorki að kostnaði né sem varnarveggur gegn skattsvikum, sem boðað var. Það er mjög fjarri því. Og þessi vinnuaðferð, sem nú er viðhöfð, að þurfa að fara gegnum allt þetta kerfi raunverulega tvisvar, er mjög fráleit. Ég held því, að það beri brýna nauðsyn til að finna heppilegri vinnuaðferðir en nú eru. Ég hef áður sagt það hér á hv. Alþ. og get endurtekið það, að þau vinnubrögð að vera að skrifa framteljanda kannske þrjú bréf, framteljanda, sem hvorki greiðir útsvar né tekjuskatt, það eru ekki neinar vinnuaðferðir, þó að lagafyrirmæli segi þar um. En fyrir þessu hef ég margar sannanir og hef lent í því að svara mörgum slíkum bréfum fyrir þá, sem þau hafa fengið. Þessi vinnubrögð þurfa að leggjast niður.

Ég er líka sannfærður um það, að með því að draga út ákveðinn hóp manna og grandskoða þá, reynir fljótlega á það, að það væri lítil vinna að vinna úr framtölum hinna, því að það er nú svo með útdráttarregluna, að hún skilar sér nokkuð fljótlega, og þó að það gæti komið fyrir í eitt, tvö eða þrjú ár, að sami aðili sé ekki dreginn út, þegar þetta fer að verða gildandi regla áfram, þá skilar hún öllum upp. Og ég er sannfærður um það, að það yrði fljótt til þess að hafa veruleg áhrif. Ég tel líka, að samstarf á milli framtalsnefnda og skattstofanna gæti verið miklu meira og gæti sparað verulega vinnu í sambandi við skattframtölin. Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu máli.

Ég fagna því, ef þeir menn, sem um fjalla, segja álit sitt í þeirri n., sem þetta fer til, og treysti því, að hv. fjhn. athugi málið. Það verði ekki látið fara eins og á s. l. þingi, að það verði ekki afgreitt fyrr en svo seint á þinginu, að það verði nokkurn veginn sama, hvort það kemur úr n. eða ekki. Ég vil gjarnan heyra rök þeirra skattframkvæmdamanna gegn þessari reglu. En sjálfur er ég sannfærður um það, að þó að þetta frv. nái ekki fram að ganga nú, þá verður fyrr en seinna tekin upp þessi regla, og það skal sannast, að hún mun verða virk til þess að draga úr skattsvikum, og það mun líka sýna sig, að hún sé hagkvæm í framkvæmd.