11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

58. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér neinar kappræður við hæstv. fjmrh. Ég vil hins vegar algerlega mótmæla því að ég hafi verið með neinn dólgshátt hér í ræðustól áðan. Ég sagði frá staðreyndum um vinnubrögð hér í hv. Alþ. Ef það eru dólgshættir að segja frá því, þá er frásögnin ekki dólgsháttur, heldur vinnubrögðin. Þess vegna held ég við það, sem ég áður sagði, og lýsi yfir því, að það er enginn dólgsháttur af minni hendi. Ég ætlast heldur ekki til þess og hef aldrei farið fram á eða hugsað um neina speki eða vizku, eins og hæstv. fjmrh. sagði. Hitt held ég, að í málefnum okkar í stjórnarandstöðunni sé að finna líka málefni, sem mættu ná fram að ganga, eins og ég sagði frá áðan, ef pólitísk valdaaðstaða í þinginu hefði ekki þar ráð þar um. Ég vil líka segja það um vinnubrögð skattstofunnar, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það þyrfti endurbóta við, að mjög hefur það verið seinvirkt það kerfi endurbótanna, sem oft hefur verið boðað. Og ég get endurtekið það, að þetta mundi leiða til þess, að athugun á skattframtölum almennt yrðu það lítil, að það mundi draga úr þeirri vinnu, sem þar er.