21.04.1970
Neðri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (2743)

189. mál, íþróttasamskipti Íslendinga við erlendar þjóðir

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 458 frv. til l. um sjóð til stuðnings íþróttasamskiptum Íslendinga við erlendar þjóðir. Um þetta mál er það almennt að segja, að það ber til þess brýna nauðsyn að taka fjármál íþróttahreyfingarinnar til sérstakrar endurskoðunar og athugunar í heild, og að því miðar þáltill. þriggja framsóknarmanna, sem nú liggur fyrir Alþ. og er til skoðunar í fjvn. En þetta frv. mitt fjallar um mjög mikilvægan þátt þessa máls, kannske mikilsverðasta þáttinn hvað snertir fjármál íþróttahreyfingarinnar, en það eru samskipti íslenzkra íþróttamanna við erlenda keppinauta og um þátttöku íslenzkra íþróttamanna á erlendum kappmótum í íþróttum.

Það hefur stundum verið reynt að gera lítið úr frammistöðu íslenzkra íþróttamanna á erlendum vettvangi, en ég held, að það sé engin ástæða til þess fyrir okkur að gera lítið úr henni. Það fer a. m. k. eftir því, hvernig á allar aðstæður er litið. Sannleikurinn er sá, að íslenzkir íþróttamenn hafa oft staðið sig með ágætum, bæði hópar og einstakir menn. Þess er t. d. að minnast, að eftir styrjöldina síðustu áttu Íslendingar marga mjög góða frjálsíþróttamenn, sem stóðu framarlega í hópi íþróttamanna í Evrópu. Frjálsíþróttamenn okkar margir þá voru, má segja, stór nöfn í Evrópu, ef við minnumst manna eins og Clausensbræðranna, Torfa Bryngeirssonar, Gunnars Husebys og fleiri slíkra manna, sem voru mjög kunnir í Evrópu fyrir u. þ. b. 15–20 árum. Og nú í vetur tóku Íslendingar þátt í heimsmeistarakeppni í handknattleik í Frakklandi og voru þar á meðal 12 beztu liða heims í keppni og stóðu sig eftir atvikum. Og nú nýverið hefur íslenzkt handknattleikslið, handknattleikslið unglinga, orðið Norðurlandameistarar, þannig að það er alveg augljóst mál, að við eigum marga ágæta íþróttamenn, sem eru hlutgengir á erlendum vettvangi, jafnvel á heimsmælikvarða. Það er a. m. k. samdóma álit manna, sem til mega þekkja, að við eigum sérstaklega góð íþróttamannsefni. Við eigum efnivið í mjög góða íþróttamenn, eins og kom t. d. fram í sambandi við Norðurlandakeppnina í handknattleik unglinga. Og við megum ekki láta eins og þetta mál sé einskis virði, því að þetta hefur ákaflega mikið gildi fyrir land og þjóð. Þetta er til sæmdar fyrir land og þjóð og í þessu fólgin mikil landkynning og óhætt að segja, að það hafi margs konar gildi, bæði siðferðilegt gildi og hagnýtt gildi raunar líka. En hitt er svo annað mál, að það er eins og ekki verði alltaf nógu mikið úr íþróttamannsefnum okkar, og þá er ástæða til þess að spyrja, hvers vegna það sé. Og svarið við því verður það, að það er vegna þess, að þeir búa við miklu þrengri kost en íþróttamenn hinna stóru og fjölmennu landa. Og þar held ég, að fjárskorturinn sé efst á blaði. M. a. í því formi, að íþróttahreyfingin hefur ekki efni á því að halda uppi eðlilegum íþróttasamskiptum við erlendar þjóðir, eða kosta nógu miklu til undirbúnings og þjálfunar einstakra manna og kappliða, þannig að íþróttahreyfingin hefur ekki yfir nægilegu fé að ráða og hefur ekki á nógu öruggum og nógu ríflegum tekjustofnum að byggja. Úr þessu verður að bæta með einhverjum hætti. Það er nauðsynjamál fyrir íþróttastarfsemina í landinu, ef ekki á svo að fara, að íþróttasamskipti við aðrar þjóðir falli að verulegu leyti niður eða a. m. k. minnki stórlega frá því sem nú er. En íþróttasamskipti á milli þjóða eru mjög stór og mikilvægur þáttur í allri íþróttastarfsemi í heiminum og raunar í almennum vináttu- og menningarsamskiptum þjóða. Ég held, að það sé hin mesta nauðsyn, ef við eigum að halda uppi eðlilegum samskiptum og landkynningu fyrir okkar þjóð og okkar land, að hafa aðstöðu til þess að senda íþróttamenn okkar á mót erlendis og gefa þeim tækifæri til þess að keppa þar á jafnréttisgrundvelli við íþróttamenn annarra þjóða.

Eins og ég segi, fjallar þetta frv., sem ég flyt hérna, um vissan þátt íþróttamálanna. Það er nauðsynlegt að sjálfsögðu að taka öll fjármál íþróttahreyfingarinnar til skoðunar. Um það hafa nokkrir hv. þm. flutt sérstaka þáltill., en þetta frv. mitt fjallar sem sagt um þennan sérstaka þátt, það, sem varðar íþróttasamskipti Íslendinga við erlendar þjóðir.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að stofnaður verði sérstakur sjóður, sem veiti sérsamböndunum innan ÍSÍ styrki vegna undirbúnings og þátttöku landsliða, — eins og segir í greininni, — í heimsmeistarakeppni, Evrópukeppni og Norðurlandakeppni, þannig að hér er ekki beinlínis farið fram á það að styðja öll íþróttasamskipti, heldur þau íþróttasamskipti, sem teljast mega mikilvægust, en það eru þessi, sem upp eru talin í gr., heimsmeistarakeppni, Evrópukeppni og Norðurlandakeppni. Jafnframt eru ákvæði í 2. mgr. 1. gr. um það, að ef fjárhagur þessa fyrirhugaða sjóðs leyfi að styrkja önnur íþróttasamskipti, þá sé stjórn sjóðsins heimilt að gera það.

Í 2. gr. frv. er ákvæði um, hvert stofnframlag til sjóðsins skuli vera, og er þar lagt til, að það verði 2 millj. kr. af ríkisfé á árinu 1971, það verði stofnframlag ríkisins til þessa sjóðs. Og þar eru einnig ákvæði um það, að ríkisstj. sé heimilt að leggja þetta stofnfé fram nú þegar, annaðhvort að öllu eða nokkru leyti. Og einnig er sjóðsstjórninni heimilt að ákveða það, að stofnframlagið skuli ætíð standa inni sem óskertur höfuðstóll, en vöxtum af þessum höfuðstól yrði varið til þeirra þarfa, sem þarna er gert ráð fyrir.

Að öðru leyti eru um tekjur sjóðsins ákvæði í 3. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir því, að tekjurnar verði fyrst og fremst árlegt framlag ríkissjóðs, sem sé eigi minna en 1 millj. kr. á ári, í fyrsta sinn á árinu 1972, og í öðru lagi, að það verði frjáls framlög annarra aðila, einstaklinga, félaga eða fyrirtækja, og í þriðja lagi, að tekjur sjóðsins kunni að verða vaxtatekjur af stofnframlaginu, ef sjóðsstjórnin ákvæði að láta stofnframlagið standa inni sem óskertan höfuðstól.

Í 4. gr. frv. er ákvæði, sem vert er að leggja áherzlu á, en þar segir, að ef einstaklingur eða félag eða fyrirtæki leggi fram fé í þennan íþróttasamskiptasjóð, þá skuli framlagið vera frádráttarbært við álagningu tekjuskatts og útsvars, enda fari framlagið ekki yfir 60 þús. kr. Hér er að mínum dómi um nokkuð mikilvægt atriði að ræða í þessu frv. Þarna er opnuð leið fyrir einstaklinga eða fyrirtæki og félög, til þess að leggja fram fé til íþróttahreyfingarinnar, og fá það dregið frá, þegar lagður er á tekjuskattur og útsvar. Þetta er mjög mikilvægt atriði í þessu frv. og vert að leggja á það áherzlu, að þarna er opnuð leið að þessu leyti. Og ég er ekki frá því, að þetta geti einmitt haft mjög praktíska þýðingu. Það er engan veginn dæmalaust í skattalögum, að svona ákvæði séu fyrir hendi, að heimilt sé að draga frá, áður en útsvar og skattur er lagt á, framlög til menningarmála og líknarmála, og ég held, að þetta sé mjög mikilvægt atriði og vil leggja sérstaka áherzlu á það.

Í 5. gr. eru ákvæði um skipun sjóðsstjórnarinnar og ákvæði um það, að menntmrh. fari með málefni sjóðsins og að stjórn sjóðsins skuli skipuð þremur mönnum, sem eru ráðuneytisstjórinn í menntmrn., formaður, forseti Íþróttasambands Íslands og formaður fjvn. Alþ. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa yfir þessum sjóði mjög fjölmenna stjórn. En ég hygg, að eins og þarna er gert ráð fyrir í 5. gr., sé það eðlileg skipan, þ. e. ráðuneytisstjórinn í menntmrn., enda fer menntmrn. með málefni sjóðsins yfirleitt og íþróttamálanna, og forseti Íþróttasamband Íslands, því að þetta frv. snertir Íþróttasamband Íslands og sérsambönd þess fyrst og fremst, og einnig tel ég eðlilegt, að Alþ. sé með einhverjum hætti tengt sjóðsstjórninni, og ég sé ekki, að það fari illa á því, að formaður fjvn. skipi sæti stjórnarmanns í sjóðsstjórninni.

Ég skal nú ekki, herra forseti, hafa um þetta frv. fleiri orð, en ég legg til, að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og menntmn.