17.11.1969
Efri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (2852)

83. mál, smíði fiskiskipa innanlands

Flm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Á þskj. 92 hef ég ásamt 1. þm. Norðurl. v. leyft mér að flytja frv. um nýsmíði fiskiskipa. Á undanförnum tveimur þingum höfum við staðið að flutningi á frv., efnislega næstum samhljóða því frv., sem hér er flutt. Á þinginu 1967 dagaði það uppi, en á síðasta þingi var því vísað til hæstv. ríkisstj. Frv. er, eins og ég sagði, að mestu efnislega shlj. þeim frv., sem áður hafa verið flutt, en nú hljóðar þetta frv. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

1. gr.: „Ríkisstj. hafi forgöngu um að láta smíða innanlands fiskiskip með það fyrir augum, að þau verði seld einstaklingum, félögum eða opinberum aðilum í hendur til útgerðar.“

2. gr.: „Áætlun verði gerð um smíði fiskiskipa, samtals allt að 12 þús. rúmlestir, og verði smiðinni dreift á árin 1970–1973.“

3. gr.: „Fiskveiðasjóður Íslands láti fara fram athugun á gerð og útbúnaði skipanna með tilliti til hagnýtingar nýjustu tækni. Sérstaklega verði athugað um útbúnað til móttöku og geymslu aflans um borð í skipunum. Gerð og útbúnaður skipanna verði háð samþykki Fiskveiðasjóðs Íslands.“

4. gr.: „Til framkvæmda samkv. l. þessum er ríkisstj. heimilt að taka lán, sem svo verði endurlánað Fiskveiðasjóði Íslands. Fiskveiðasjóður annist lánastarfsemi samkv. l. þessum, og skal upphæð lána til kaupenda skipanna nema 85% af kostnaðarverði.“

5. gr.: „Sett verði reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga.“

6. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Nýmæli þessa frv. felst fyrst og fremst í því, að ríkisstj. er ætlað að hafa forgöngu um skipasmíðar hjá innlendum skipasmíðastöðvum og skapa aukin verkefni fyrir þær stöðvar, sem smíðað geta stálfiskiskip. Á undanförnum árum hefur átt sér stað allmikil fjárfesting í nýjum skipasmiðastöðvum og dráttarbrautum. Jafnframt hafa ýmsar eldri stöðvar verið stækkaðar og endurbættar. Nú er svo komið, að innlendar stöðvar hafa tæknilegt bolmagn til þess að annast allt viðhald, endurnýjun og aukningu alls fiskiskipaflotans. Með aukinni menntun iðnaðarmanna og vaxandi þekkingu og reynslu geta Íslendingar smíðað sjálfir þau fiskiskip, sem þeir þarfnast. Hins vegar er þess að geta, að þó að hér á landi sé í rauninni mikill markaður fyrir fiskiskip af öllum stærðum, hefur eftirspurn eftir skipum verið háð miklum sveiflum. Veldur þar margt, og skal ég ekki rekja það nánar hér, en misjöfn eftirspurn hefur leitt til þess, að afkastageta og möguleikar skipasmíðastöðvanna hafa ekki nýtzt og verkefnaskorturinn valdið erfiðleikum hjá fyrirtækjunum og atvinnuleysi þeirra, sem að skipasmíðaiðnaðinum vinna. Það er því augljóst, að ef öll fiskiskip Íslendinga væru smíðuð innanlands og áætlun gerð um þetta til nokkurra ára, væri hér um að ræða stóriðju, sem veitti fjölda manns örugga atvinnu.

Um það er enginn ágreiningur, að efling skipasmíðastöðva innanlands er ein þýðingarmesta ráðstöfunin til að vinna bug á atvinnuleysi og tryggja atvinnu til frambúðar. Fyrir rekstur skipasmíðastöðvanna skiptir það meginmáli að hafa samfelld verkefni, og væri afkastageta stöðvanna fullnýtt, eins og hún er í dag, mætti tvöfalda þann mannafla, sem nú vinnur við skipasmíðar.

Íslenzk fiskiskip eru að ýmsu leyti frábrugðin fiskiskipum annarra þjóða, og þau, sem erlendis hafa verið byggð, hafa ekki verið miðuð við íslenzkar aðstæður. Þetta leiðir hugann að því, að mikið vantar á, að athugun á gerð og búnaði öllum með tilliti til hagnýtingar nýjustu tækni eigi sér stað í skipasmíðum. Að vísu er til tæknideild á vegum Fiskifélags Íslands, en sú stofnun er þess engan veginn megnug, eins og nú er, að leysa þetta veigamikla og þýðingarmikla hlutverk af hendi.

Í 3. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að Fiskveiðasjóður Íslands láti fara fram athugun á gerð og búnaði skipanna. Út af fyrir sig er það ekki aðalatriðið, hvaða stofnun framkvæmir þessa athugun eða vinnur að þessum málum. Aðalatriðið er, að þetta sé framkvæmt og einhver aðili hafi til þess bolmagn að vinna við þessi rannsóknarstörf. En vanbúin stofnun, hvað sem hún heitir, er ekki til þess fallin að skila árangursríku starfi. Tæknileg rannsóknarstofnun, sem kerfisbundið leitar að hagkvæmum lausnum vandamála, sem alltaf koma í ljós við smíði og síðar rekstur skipa, getur orðið bæði skipasmíðaiðnaðinum og sjávarútveginum í heild ómetanlegur stuðningur. Það, sem vakir fyrir okkur flm. þessa frv. með þessu ákvæði í 3. gr., er að undirstrika þá nauðsyn að jafnhliða því, sem fylgzt er með þróun mála í þessum efnum erlendis, sé ekki síður hagnýtt sú reynsla, sem íslenzkir fiskimenn öðlast, og sú verkkunnátta, sem þeir hafa til að bera. Á þetta teljum við að hafi mikið skort og hér verði að ráða bót á hið allra fyrsta.

Það er skoðun okkar, sem að þessu frv. stöndum, að svo bezt komi sú fjárfesting í dráttarbrautum og skipasmíðastöðvum að gagni, að nægileg verkefni verði fyrir hendi og að lánskjör í þessu sambandi verði með aðgengilegum kjörum. Uppbygging skipasmíðastöðvanna hefur verið dýr og krefst þess vegna mikilla verkefna. Þess vegna er mikil þörf á að skipuleggja þau verkefni, sem þessi fyrirtæki geta leyst af höndum.

Hinn 27. marz s.l. var af hálfu hæstv. ríkisstj. gefin sú yfirlýsing, að fyrirætlun atvinnumálanefndar ríkisins væri sú, að láta gera sérstakar áætlanir um skipasmíðar hið fyrsta. Ekki er mér kunnugt um, að sú áætlun hafi séð dagsins ljós. Það verður þá leiðrétt, ef það er rangt, a.m.k. hef ég ekki séð hana, en það er full þörf á sérstökum ráðstöfunum í þessu efni, og við teljum, að ríkið eigi að hafa forgöngu í þessu efni, eins og raunar hefur verið viðurkennt í þeirri yfirlýsingu, sem ég minntist á áðan. Það er heldur engin nýlunda, að ríkið hafi forgöngu í því að láta smíða skip. Fyrir tveimur áratugum hafði ríkið l. samkv. forgöngu um byggingu skipa erlendis. Hvers vegna skyldi ekki einnig ríkið geta haft forgöngu um innlendar smíðar nú? Við þetta má svo bæta, að ýmsar þjóðir hafa á undanförnum árum, hæði beint og óbeint, veitt skipasmíðaiðnaði sínum mikla fyrirgreiðslu m.a. með útvegun lána með mjög hagstæðum vaxtakjörum. Það bendir allt til þess, að það sé þjóðhagslega mjög hagkvæmt og þýðingarmikið að tryggja skipasmíðaiðnaðinum nægileg verkefni, svo að afkastageta stöðvanna verði nýtt til fulls, og í því efni ber ríkinu að hafa forystu. Við verðum að nýta sem bezt fjárfestinguna í atvinnuleysinu og um leið verkkunnáttu iðnaðar- og fiskimanna.

Með frv. þessu, sem hér liggur fyrir, er lögð á það áherzla, að nú verði gert stærra og meira átak í þessum málum og skipulegra en áður hefur verið gert. Til þess að það sé mögulegt, verður að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda. Það er talið, að Fiskveiðasjóð Íslands skorti fé á árinu 1970 til að standa við skuldbindingar þær, sem sjóðurinn hefur þegar tekizt á hendur. Þess vegna er í frv. þessu gert ráð fyrir lántöku, svo að framkvæmdir geti hafizt með eðlilegum hætti. Ekki er, svo að vitað sé, búið að útvega Fiskveiðasjóði það fé, sem sjóðurinn þarfnast á árinu 1970, og þess vegna væri ekki óeðlilegt að sameina þá fjáröflun þeirri, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Samkv. 4. gr. frv. er einnig gert ráð fyrir, að lán úr Fiskveiðasjóði verði 85% af kostnaðarverði skipanna. Hámark lána úr Fiskveiðasjóði er nú 75% af kostnaðar- eða matsverði. Oft hefur verið rætt um að hækka lánshámark út á skip byggð innanlands, þ.e. að Fiskveiðasjóður lánaði beint 85%, en ekki hefur slíkt fengið lagagildi enn. Nýlega hefur opinberlega verið tilkynnt um, að Fiskveiðasjóður muni lána skipasmíðastöðvum út á skip í byggingum, þótt sala skipsins sé ekki tryggð fyrirfram. Þetta er nýmæli og spor í rétta átt, og ber að virða þann vilja, sem þar kemur fram. Hins vegar eru á þessu vissir annmarkar, eins og reglurnar um lánveitingar þessar bera með sér. Fiskveiðasjóður mun t.d. ekki lána með þessum hætti út á skip stærri en 75 smálestir, nema erlend lán verði tekin af skipasmiðastöðvunum fyrir efni, vélum og tæknibúnaði.

Enda þótt endurnýjun og aukning skipastóls á undanförnum árum hafi verið framkvæmd með erlendu fjármagni, sem kaupendur hafa tekið að láni, er það ekki æskileg leið. Hitt hefði verið í alla staði eðlilegra og hagkvæmara að Fiskveiðasjóður eða ríkissjóður tæki erlend lán, er varið skyldi til kaupa á vélum, efni og öðrum tækjum. Ég hef áður í sambandi við umr. um þetta mál, bent á, að slíkar lántökur erlendis, bæði einstaklinga og félaga, hljóti að leiða til hærra verðs á efni og tækjum og gera skipin þannig mun dýrari en þörf er á. Þau skilyrði, sem Fiskveiðasjóður setur fyrir lánveitingum samkv. hinum nýju reglum, eru ekki aðgengileg, en þetta er þó spor í rétta átt. Þrátt fyrir það, sem áunnizt hefur í því efni, að innlendar skipasmiðastöðvar annist að verulegu leyti smíði okkar eigin fiskiskipa, þá er full þörf á enn frekari aðgerðum til stuðnings þessari atvinnugrein, sem mjög er til þess fallin að bæta úr atvinnuleysi og til að tryggja atvinnu til frambúðar. Þess vegna er þetta frv. borið fram.

Við þetta má svo bæta því, að ýmislegt bendir til þess, að fái þessi atvinnugrein nægilegan stuðning í upphafi, geti þróunin orðið sú, að íslenzk fiskiskip verði samkeppnisfær og eftirsótt söluvara á erlendum markaði. Hér á landi eru einhverjir beztu og afkastamestu fiskimenn í víðri veröld. Við höfum möguleika á að notfæra okkur reynslu þeirra og þekkingu í meðferð ýmiss konar tækja um borð í skipunum. Sú staðreynd getur tvímælalaust orðið mikill ávinningur, ef íslenzk skip gætu orðið útflutningsvara.

Hvernig sem á þessi mál er litið, er hér um stórmál að ræða, sem taka verður föstum tökum. Íslenzkar skipasmíðastöðvar eru þess megnugar að sinna því verkefni, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Verkkunnátta og vandvirkni íslenzkra iðnaðarmanna í þessum greinum er slík, að þeir standa stéttarbræðrum sínum fyllilega jafnfætis. Ef lánamálum skipasmíðastöðvanna verður komið í hagkvæmt horf, geta þær keppt við aðrar þjóðir um smíði fiskiskipa. Það er þjóðhagslega mikilvægt, að skipasmíðastöðvarnar hafi nægileg verkefni og framleiðslugeta þeirra verði nýtt til fulls. Við höfum ekki efni á að láta þá möguleika, sem felast í þessum iðnaði, ónýtta.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hæstv. iðnn.