16.03.1970
Efri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2863)

91. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frsm. minni hl. allshn. flutti mál sitt hér áðan af mikilli festu, og var alveg brotalaust að sjá, að hann myndi fylgja því fram til hins ýtrasta. Ég vil aðeins taka það fram í sambandi við ræðu hans og þá sérstaklega, hvað hann virðist vera hissa á því, hv. frsm. minni hl., að þessi tímatakmörkun skuli vera í tillögum meiri hl. allshn. Þannig stendur á þessari tímatakmörkun, að hæfni ökumanns og enn fremur traustleiki farartækis getur breytzt á vissum tímabilum og þess vegna ekki nema eðlilegt, að þessi tími, sem undanþágan á að gilda, sé takmarkaður. Auk þess er svo gert ráð fyrir því, að á næsta skólaári eða í upphafi þess megi finna viðbótarprófsmann, sem fullnægir öllum grundvallarreglum l. um akstur á farþegum gegn gjaldi. Og þá mundi slíkur maður, ef hann sækti um í upphafi næsta skólaárs, að sjálfsögðu verða ráðinn, nema eitthvað sérstakt væri þarna á ferðinni.

Hv. 5. landsk þm. tók alveg réttilega fram um það, í hverju kennsla er fólgin til undirbúnings viðbótarprófi. Hún er fólgin í kennslu á jeppa, að því er varðar vél aðallega, gangi hennar o.s.frv., o.s.frv. En ég hef aldrei heyrt getið um það, að þessir nemendur, sem eru að læra undir viðbótarpróf, séu teknir í akstur bifreiðar, ekki nema í upphafi. Ef þeir geta ekki skammlaust ekið bíl í upphafi og eru prófaðir í því að aka bíl, þá fá þeir ekki að ganga til viðbótarprófs. En aðra æfingu hafa þeir ekki í akstri á þessum námstíma, svo að mér sé kunnugt.

Mér finnst nú þetta meira spurning um form en efni, eins og hv. frsm. minni hl. lagði málið fyrir, og jafnvel fremur orðaleikur en hitt. En sleppum því. Hv. frsm. hefur gert hér skilmerkilega grein fyrir máli minni hl., og það ræði ég ekki frekar. En í sambandi við ræðu hv. 5. landsk. þm. vildi ég segja það, að við í meiri hl. allshn. teljum höfuðnauðsyn, að þessu máli verði flýtt í gegnum Alþ., eins og auðið er. Og ég tel a.m.k. vafasamt, að rétt sé þess vegna að draga fleiri atriði inn í málið á þessu stigi. Ég skil ákaflega vel mál hv. þm. að þessu leyti, að það getur víða verið skortur á viðbótarprófsmönnum en í sveitum úti. En mér finnst þó gegna öðru máli í miklu þéttbýli þar sem gera má ráð fyrir því, að hægara sé að ná til viðbótarprófsmanna, þó að alténd þurfi það ekki að vera.

Þessi orð vildi ég láta fylgja og tel mig ekki þurfa að segja meira að svo stöddu.