27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

126. mál, söluskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði hér. Hann sagði, að ég hefði tekið þátt í því, að lækka tolla hér jafnvel um 800 millj. kr., sem enginn hefur heyrt talað um að hafi yfirleitt verið gert. En það er með þetta eins og annað í hans nákvæmni hér. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki talið, að sú tollalækkun, sem hér er verið að samþ. þessa dagana, sé nema í kringum 400–500 millj. á ársgrundvelli, en þessi hv. þm. telur nú, að lækkunin nemi 800 millj. Hann hafði auðvitað ekki kært sig um að veita því athygli, að ég hafði sagt í umr. um málið, að ég hefði ekki tekið þátt í því að standa að þessum tollalækkunum. Ég fylgdi þar að vísu einstaka till., en var á móti meginstefnunni, sem þarna kom fram og sat hjá við afgreiðslu málsins. Mér fannst það hæfa, að þeir bæru þar ábyrgð á því, sem þar var að gerast, sem höfðu staðið að samþykkt EFTA–aðildar.

Þessi hv. þm. stillir því máli, sem hér er um að ræða, þannig upp, að hér liggi það fyrir að lækka söluskatt. Hér liggur fyrir till. um að hækka söluskatt úr 7 1/2%, og hann vill hækka hann í 91/2%. Það er það, sem um er að ræða. Söluskatturinn er 71/2%. Það er það, sem söluskatturinn er. Það er hér till. um að hækka hann um 31/2%, og svo er hér líka till. um að hækka hann um 2%. Ég er algerlega á móti söluskattshækkuninni og ég vil því ekki taka undir neina þá till., sem gefur það í skyn, að ég sé með eða styðji einhverja hækkun á söluskatti. Þar skilur á milli minnar afstöðu og hans. Hann er í rauninni skyldugur til að standa hér með söluskattshækkun, eins og greinilega kom fram í hans máli, sem nemur auknum tekjum fyrir ríkissjóð til jafns við þá tollalækkun, sem hann hefur staðið að með því að samþ. aðildina að EFTA. Og af því flytur hann till. um þetta. Hann sagði hér orðrétt um þetta, „að hér væri ekki farið lengra í að hækka söluskattinn en sem næmi tollalækkuninni“. Ég veit það, þetta er meginhugsunin í hans tillöguflutningi. Það er ekki farið lengra, en sem þessu nemur. En ég er á móti því að fara svo langt, af því að ég hef verið á móti þessari aðgerð í heild.

Þessi hv. þm. fullyrti það, að ég væri aldrei með neinum till., sem miði að tekjuöflun, því það gæfist ekki nógu vel til atkvæðasöfnunar. Hann ætlar nú allt í einu að verða svo ábyrgur maður að vera með tekjuöflun og fá út á það atkv. Hann um það. Hann velur sér þá leið, sem hér kemur fram í þessari söluskatts till.

Hér er raunverulega um það að ræða, hvort menn vilja hækka söluskattinn eða ekki. Ég er á móti hækkuninni og af því greiði ég jöfnum höndum atkv. á móti hvaða hækkun sem er. Hins vegar er það, að þegar slík till. er flutt á þessu stigi málsins, þá mun ég sitja hjá við þá atkvgr. og tel, að það sé réttast að þeir einir greiði þeirri till. atkv., sem raunverulega taka undir það, að réttmætt sé að hækka söluskattinn sem tollalækkuninni nemur. Ég tel það við hæfi, að það séu þeir einir, sem samþ. þá till.