04.11.1969
Neðri deild: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég mun ekki blanda mér mikið í þær talnadeilur, sem hér hafa farið fram á milli hv. 6. þm. Reykv. og hæstv. raforkumrh., enda sýnist mér, að nú sé svo komið, að það séu í raun og veru ekki lengur þeir, sem deila, heldur sé deilan komin á miklu alvarlegra stig en það, að hún sé á milli þessara hv. tveggja þm. Mér sýnist, að deilan sé komin á það stig nú, að hún sé annars vegar á milli ameríska fyrirtækisins Harza, sem sér um bókhald fyrir Búrfellsvirkjun, og hins vegar framkvæmdastjóra og formanns Landsvirkjunar, Jóhannesar Nordal og Eiríks Briem, því að þær upplýsingar, sem hv. 6. þm. Reykv. flytur hér, byggir hann eingöngu á því, sem kemur fram í opinberum plöggum frá félaginu Harza, sem fer með eftirlit, eins konar fjármálalegt eftirlit með Búrfellsvirkjun, sennilega að einhverju leyti á vegum Alþjóðabankans eða til að láta hann fylgjast með því, hvernig verkið gengur, og það á þess vegna að vera ábyrgur aðili. Hins vegar byggir hæstv. raforkumrh. þær upplýsingar, sem hann gefur hér, á því, sem þessir tveir æðstu valdamenn Búrfellsvirkjunar segja, Jóhannes Nordal og Eiríkur Briem. Það, sem ber raunverulega á milli, er það, sem kemur fram hjá Harza annars vegar og hjá Jóhannesi Nordal og Eiríki Briem hins vegar.

Það er orðið mjög alvarlegt, þegar þeim aðilum, sem gerst eiga um þessi mál að vita og eiga að vera trúnaðarmenn bæði Alþ. og ríkisstj., kemur jafnilla saman og þeim virðist koma saman, Harza annars vegar og Jóhannesi og Eiríki hins vegar, samkv. þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir. Og þó ekki væri nema það eitt, hve mismunandi upplýsingar liggja fyrir frá þessum tveimur aðilum, þá væri það ærin ástæða til þess, að Alþ. kynnti sér málið rækilega, en fleira kemur þar einnig að sjálfsögðu til.

Það, sem deilan stendur hér aðallega um, er það, hver hafi orðið stofnkostnaður 1. áfanga Búrfellsvirkjunar, sem er í reyndinni aðalverkið. Deilan stendur m.a. um það, hvort tekizt hafi að standa við þá áætlun, sem upphaflega var gerð, eða hvort verkið hafi farið mjög verulega fram úr áætlun. Það er mikilsvert að kynna sér þetta atriði til að gera sér grein fyrir því, hvort raunverulega muni fást kostnaðarverð fyrir raforkuna eða ekki.

Þegar samningurinn um raforkuverðið til álbræðslunnar var lagður fyrir Alþ. til samþykktar, fylgdi honum að sjálfsögðu áætlun um stofnkostnað Búrfellsvirkjunar. Þá áætlun er að finna í þingtíðindum frá 1965. Samkv. því, sem þar kemur fram, er kostnaður við fyrri hluta Búrfellsvirkjunar áætlaður í íslenzkum krónum kr. 1354 millj. eða um 31.5 millj. dollara með þágildandi skráningu. Hér hefur verið vitnað í ýmsar aðrar áætlanir, að því er mér virðist, sem hafa verið gerðar um Búrfellsvirkjun, sennilega á síðari stigum, en þetta er sú áætlun um stofnkostnað Búrfellsvirkjunar, sem máli skiptir, vegna þess að á þessari áætlun var sú ákvörðun Alþ. byggð að selja raforkuna á því verði, sem raforkusamningurinn segir til um. Það fer þess vegna mjög mikið eftir því, hvort þessi áætlun stenzt eða ekki, hvort kostnaðarverð fæst fyrir raforkuna eða ekki. Eins og ég áðan sagði, var okkur sagt hér, að stofnkostnaður fyrri hluta Búrfellsvirkjunar yrði tæpar 32 millj. dollara. En samkv. þeirri skýrslu, sem Harza hefur gefið á þessu ári og hv. 6. þm. Reykv. vitnaði til, er þessi kostnaður, þegar allt er til talið, kominn upp í 42 millj. dollara. Ef þessar upplýsingar Harza eru réttar, virðist sem verkið hafi farið fram úr áætlun sem nemur hvorki meira né minna en 10 millj. dollara miðað við þá áætlun, sem Alþ. var gefin um þennan kostnað á sínum tíma. Upplýsingar þeirra Jóhannesar Nordal og Eiríks Briem eru hins vegar á þá leið, að verkið hafi ekki neitt farið fram úr áætlun, áætlun hafi staðizt. Það skakkar hvorki meira né minna en 10 millj. dollara á þessum upplýsingum, sem má lesa út úr skýrslu Harza, og því, sem þeir Jóhannes og Eiríkur halda fram. Það er ekki lítil ástæða til þess að kynna sér það, í hverju þessi munur liggur.

Hvað síðari hluti virkjunarinnar muni kosta, er náttúrlega ákaflega erfitt að fullyrða um á þessu stigi. Þó að þar sé að miklu leyti um vélakaup að ræða, er augljóst mál að áliti sérfræðinga, að eigi sú orka að nást, sem stefnt er að, þurfi að fara fram mikil mannvirkjagerð í sambandi við vatnsmiðlun, og því er erfitt að gera sér grein fyrir því, hvað verkið muni kosta í heild, Búrfellsvirkjun fullgerð. En það, sem liggur alveg óumdeilanlega fyrir, er það, hvað fyrri hluti verksins muni kosta eða það, sem var kallað fyrri helmingur á sínum tíma og var að vísu aðalhluti verksins. En samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja hjá Harza, virðist sú framkvæmd hafa farið 10 millj. dollara fram úr áætlun, og er þá lögð til grundvallar sú áætlun, sem Alþ. var kunngerð á sínum tíma, þegar raforkusamningurinn var til meðferðar.

Ég ætla svo ekki að ræða frekar um þetta atriði. En ég vil benda á eitt, sem er eiginlega grundvallaratriðið í skýrslu þeirra Jóhannesar og Eiríks, þegar þeir eru að reikna út, hvert kostnaðarverð raforkunnar sé. Þeir byggja þá jafnan á þeim grundvelli, að raforkuverðið verði 19 aurar eða það, sem þeir tala um, ef vextirnir séu 7% og kostnaðurinn afskrifaður á 40 árum. Það er náttúrlega mjög þægilegt að fá út sæmilega útkomu hjá hvaða fyrirtæki sem er, þegar hægt er að dreifa afskriftunum eða endurgreiðslunum á 40 ár. Og ef því væri að heilsa hjá Búrfellsvirkjun, að hún hefði lán, sem væru með þessum kjörum, þá væri kannske talsvert til í þessu. En nú er því miður því ekki til að dreifa, að Búrfellsvirkjun hafi lán, sem séu með 7% vöxtum og séu til 40 ára. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þau lán, sem Búrfellsvirkjun hefur tekið, hefur Alþjóðabankinn lánað 18 millj. dollara. Á því láni eru hagstæðir vextir, eða 6%, en það lán er hins vegar ekki nema til 25 ára. Þá hefur verið samið um amerískt lán, 6 millj. dollara. Á því eru 7% vextir og það á að greiðast á 18 árum. Þá hefur verið samið um þýzkt lán, sem mun vera 4–5 millj. dollarar. Á því eru 7% vextir og það á að greiðast á 12 árum. Önnur lán, sem Búrfellsvirkjun hefur tekið fram að þessu, munu vera bráðabirgðalán, sem á að breyta í hagstæð lán, þegar tækifæri gefst. En mér sýnist samkv. þessu, að þau lán, sem hvíla á virkjuninni, eigi að greiðast á 10–25 árum. Þegar verið er að finna út, hver rekstrarkostnaður fyrirtækisins verður og hvað virkjunin þarf raunverulega að fá fyrir orkuna, til þess að hún beri sig, þá verður að sjálfsögðu að miða við hinar raunverulegu afborganir, sem virkjunin verður að standa skil á, og þá lítur dæmið ekki þannig út, að það sé hægt að borga virkjunina upp á 40 árum, heldur verður að greiða hana á 12–25 árum, og það leiðir af sjálfu sér, að rekstrarkostnaður hlýtur að hækka í samræmi við það. Þess vegna virðist mér það vera algerlega rangt, þegar í skýrslu þeirra Jóhannesar og Eiríks er verið að miða við afskriftir eða afborganir á 40 árum, þegar þetta horfir allt öðruvísi um þau lán, sem raunverulega hvíla á virkjuninni.

Annars voru það ekki þessi atriði fyrst og fremst, sem réðu því, að ég kvaddi mér hljóðs, heldur fyrst og fremst það, sem hæstv. ráðh. sagði um skattamál verksmiðjunnar. Hann vildi halda því fram og nota það til réttlætingar á lágu rafmagnsverði, að framleiðslugjaldið, sem álbræðslan greiðir, sé eins konar uppbót á raforkuverðið og hafi verið hugsað þannig. Þetta er mikill misskilningur hjá ráðh., að framleiðslugjaldið hafi verið hugsað sem uppbót á raforkuverðið. Framleiðslugjaldið hefur frá upphafi verið hugsað sem endurgreiðsla fyrir það, að álbræðslan er laus við svo að segja allar aðrar skattgreiðslur. Hún þarf ekki að greiða tekjuskatt, hún þarf ekki að greiða útsvar, hún þarf ekki að greiða eignarskatt, hún þarf ekki að greiða fasteignagjöld o.s.frv. og ekki aðstöðugjald. Það er til endurgjalds fyrir þessi gjöld, sem framleiðslugjaldið er fyrst og fremst, en ekki til þess að bæta upp raforkuverðið. Og ef hæstv. ráðh. lítur í þau plögg, sem fylgdu þessu máli á sínum tíma, þegar um það var fjallað á. Alþ., getur hann fengið glöggar upplýsingar um þetta. Ég vil t.d. rifja það upp, ef ráðh. man ekki eftir því, að um þetta atriði var fjallað allítarlega í skýrslu frá stóriðjunefnd, sem var dags. 14. nóv. 1964 og var þá lögð fram á Alþ. og er að finna í þingtíðindum frá 1964 að ég bygg. En þar segir svo m.a. um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Swiss Aluminium taldi sig í upphafi viðræðnanna þurfa á að halda ívilnunum í sköttum, a.m.k. fyrstu árin, ef þeir ættu að treysta sér til að reisa verksmiðju hér á landi. Þeim var þegar bent á, að þetta myndi sérstaklega erfitt atriði. Jafnframt var þeim bent á, að samanburður á skattlagningu fyrirtækja hér og erlendis sýndi, að skattlagning hér væri mjög sambærileg við það, sem gengur og gerist í öðrum löndum sem hér skipta máli.

Á hinn bóginn er ljóst, að það muni valda erfiðleikum í samningum, að reglur um skattlagningu fyrirtækja hér á landi eru mjög margbrotnar og því erfitt að gera sér grein fyrir skattabyrði langt fram í tímann. Swiss Aluminium hefur því lagt til, að samið yrði um einn fastan skatt, sem miðaðist við útreiknaða skattabyrði samkv. gildandi lögum, en greiddist sem ákveðin fjárhæð á hvert tonn af útfluttum málmi. ...

Í upplýsingum, sem Swiss Aluminium hefur gefið um arðsemi aluminiumverksmiðju hér á landi, hafa þeir reiknað með, að skattgreiðsla verksmiðju, sem staðsett væri í Straumsvík, yrði að meðaltali um 570 þús. dollarar eða 25 millj. ísl. kr. á ári næstu 15 árin, en á því tímabili yrði stofnkostnaður verksmiðjunnar afskrifaður. Eftir þetta mundi skattgreiðslan hækka í um 1.2 millj. dollara á ári.“

Þetta sýnir, að þessi skattur eða framleiðslugjaldið var á sínum tíma fundið þannig út, að það var lögð til grundvallar rekstraráætlun, sem álverksmiðjan hafði gert fram í tímann og sýndi þetta mikinn hagnað, og samkv. þeim hagnaði var reiknað út, hve mikið hún þyrfti að greiða, ef hún ætti að greiða skatta og skyldur af þessu samkv. íslenzkum lögum. Og þá komu þessar upphæðir út, sem ég nefndi og var mjög tilsvarandi því, sem verksmiðjan á að greiða nú og í framtíðinni, því að þótt þessar tölur séu aðeins lægri en framleiðslugjaldið verður, stafar það af því, að í áætluninni nú er reiknað með álbræðslu, sem á að framleiða 77 þús. smálestir, en í framangreindri áætlun var aðeins reiknað með álbræðslu, sem framleiðir 60 þús. smálestir. Auk þess hefur orðið stórkostleg hækkun á álverði síðan, sem hefði að sjálfsögðu hækkað mjög tekjur verksmiðjunnar. Þegar svo álbræðslusamningurinn var lagður fyrir Alþ., kemur fram í grg. mjög ljóslega, að eingöngu var miðað við framleiðslugjaldið sem endurgjald fyrir skatta, sem félagið þyrfti ekki að borga að öðru leyti. Segir m.a. á þessa leið í grg. fyrir álbræðslufrv. eða samningnum, með leyfi hæstv. forseta:

„Mikilvægur þáttur í tekjum Íslendinga af rekstri álbræðslunnar eru skattar þeir, sem hún mun greiða. Um skattafyrirkomulagið hefur verið samið sérstaklega í aðalsamningnum, en meginatriðið í því er, að í stað venjulegra skatta, sem íslenzk fyrirtæki greiða, verði skattlagning álbræðslunnar í formi sérstaks framleiðslugjalds, er lagt verði á hvert tonn, er bræðslan framleiðir.

Framleiðslugjaldið hefur verið við það miðað, að skattlagning álbræðslunnar verði ekki lægri en hún mundi vera samkv. hæstu skattaálagningarreglum, er í gildi eru hér á landi. Samkv. þeim mundi skattlagning slíks fyrirtækis nema nálægt 1/3 af ágóða, áður en frá er dreginn útgreiddur arður eða varasjóðstillög.“

Sem sagt, framleiðslugjaldið var eingöngu miðað við það, að það kæmi sem endurgjald í staðinn fyrir þá skatta, sem íslenzk fyrirtæki greiða, en álbræðslan er undanþegin. Það var lagt á til þess að reyna að tryggja, að svo miklu leyti sem samningsmennirnir treystu sér til, að álbræðslan greiddi nokkuð hliðstæða skatta og íslenzk fyrirtæki og hliðstætt því, sem hún mundi greiða, ef hún væri undir íslenzkum skattalögum. Það var ekki hugsað sem neitt endurgjald eða uppbót á lágt rafmagnsverð.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að skattar á svona fyrirtækjum mundu vera miklu lægri í Noregi. Ég held, satt að segja, að hæstv. ráðh. viti ákaflega lítið um það og hann hafi alls ekki við höndina þau skattalög, sem gilda um slík fyrirtæki í Noregi. En þau skattalög, sem gilda um svona fyrirtæki í Noregi, eru þau sömu og gilda um öll önnur fyrirtæki þar. En það mun rétt vera, að norsk skattalög eru þannig, að fyrirtæki geta haft miklu meiri afskriftir fyrstu árin en hér, og þar af leiðandi verða skattar á stórfyrirtækjum, hvort heldur það er álbræðsla eða einhver önnur fyrirtæki, lægri fyrstu árin í Noregi en þeir mundu verða hér, en aftur á móti hærri, þegar afskriftunum er lokið að mestu eða öllu leyti, svo að það mundi jafna sig upp á lengri tíma.

Því hefur margsinnis verið haldið fram, t.d. af hæstv. núv. fjmrh., þegar hann hefur verið að verja álögur sínar, að skattar, meira að segja af fyrirtækjum, væru sízt hærri hér en í Noregi eða í nágrannalöndum, heldur jafnvel hærri þar. Og ég get vel trúað því, að þegar allt kemur til alls og þetta dæmi er jafnað út, séu skattar af fyrirtækjum sennilega hærri í Noregi en hér, og þegar álbræðslurnar þar hafa lokið sínum afskriftum, muni hvíla á þeim miklu hærri skattar en sem svarar til þess framleiðslugjalds, sem álbræðslan á að greiða hér. Hverjum dettur líka í hug, að forstöðumenn svissnesku álbræðslunnar hefðu annars óskað sérstaklega eftir því að fá að greiða skattana í formi framleiðslugjalds? En eins og ég las upp og kom fram í skýrslu stóriðjunefndar frá 1964, þá eru það Svisslendingarnir, sem áttu frumkvæði að því, að framleiðslugjaldið var tekið upp, en ekki Íslendingar. Og halda menn, að Svisslendingar hafi óskað eftir framleiðslugjaldinu, til þess að þeir borguðu hærri skatta en t.d. í Noregi? Þó að þetta séu vafalaust mestu ágætismenn, hef ég þá grunaða um það, að þeir hafi frekar gert það til þess að borga lægri skatta hér en hærri. Hæstv. raforkumrh. á því ekki að vera að blanda sköttunum eða framleiðslugjaldinu neitt inn í þetta mál eða ræða um það í sambandi við raforkuverðið, vegna þess að það er algert sérmál og á ekkert skylt við uppbót á lágu raforkuverði. Það er til að reyna að tryggja, að álbræðslan borgi þó einhverja skatta til samræmis við það, sem íslenzk fyrirtæki greiða, þótt þeir verði vafalaust miklu lægri í reynd. Eða hvaða íslenzkur skattgreiðandi mundi t.d. ekki kjósa það, ef hann ætti kost á, að semja um það við ríkisvaldið að borga ákveðið framleiðslugjald af vöru sinni og sleppa svo í staðinn við alla aðra skatta og fá þannig alveg öryggi fyrir því um langan tíma, hverjir skattar hans mundu verða?

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, og satt að segja held ég, að þetta mál sé komið hér á það stig, að það græðist ekki mikið á löngum umr., úr því sem komið er. Það, sem skiptir mestu máli nú, er að fá hið rétta í ljós í þessu máli, svo að ekki þurfi frekar að vera að deila um það, hvert raunverulegt kostnaðarverð Búrfellsorkunnar er og það komi í ljós, hvort það er tap, eins og ég og fleiri álíta, á þessum samningi við álbræðsluna eða hagnaður, eins og hæstv. raforkumrh. heldur fram. Og sérstaklega er mikilsvert að fá það ljóst, hverjir það eru af þessum þýðingarmiklu trúnaðarmönnum okkar, fyrirtækið Harza eða framkvæmdastjóri og formaður Landsvirkjunar, sem hafa rétt fyrir sér í þeim upplýsingum, sem hér hafa verið lagðar fram. Það eitt út af fyrir sig, þó að maður sleppi raforkuverðinu sjálfu,. er ákaflega alvarlegt mál, ef svo reynist, að þær upplýsingar, sem eru byggðar á skýrslum Harza, séu rangar. Þá sýnir það, að ekki er gott fyrir okkur að njóta þjónustu þessa fyrirtækis. En ef Harza reynist hafa rétt fyrir sér, kemur það líka í ljós, að formaður stjórnar Landsvirkjunar og framkvæmdastjóri hafa ekki gefið réttar upplýsingar og látið hæstv. raforkumrh. segja rangt frá á Alþ., og það er líka alvarlegt, ef slíkt kemur í ljós. En þegar því sleppir, þá er að sjálfsögðu höfuðatriði þessa máls, að það upplýsist, hvert raforkuverðið er, m.a. vegna þess, að að því getur komið, að við þurfum að gera fleiri slíka samninga við erlend fyrirtæki. Ég tel ekkert óeðlilegt, að til þess geti komið, en þá þurfum við að hafa sem bezta vitneskju um það, hvernig þeir samningar eru, sem við erum búnir að gera, hvað við getum af þeim lært og hvað það er, sem við þurfum þá að varast í nýrri samningagerð um þessi mál, svo að þau slys, sem kunna að hafa átt sér stað hér, endurtaki sig ekki.