04.11.1969
Neðri deild: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (3163)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig fallizt á þá skoðun hv. 6. þm. Reykv., að það sé ekki mikið unnið við langar umr. um þetta mál í þessari hv. d. En ég tel samt rétt að gera nokkrar aths. við það, sem fram hefur komið, þó að ég skuli reyna að draga ekki þessar umr. mikið á langinn.

Ég lít þannig á, að hafi einhver verið í vafa um það, áður en þessar umr. hófust, hvort rétt væri að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, þá geti enginn vafi leikið á því lengur. Málflutningur hæstv. ráðh. hefur verið mjög sannfærandi, mjög sannfærandi um nauðsyn þess, að þetta mál sé athugað frekar. Það er ekki nóg í þessu máli, eins og hæstv. ráðh. reyndi í gær að láta liggja að, að þetta fyrirtæki, Harza, væri einhver óviðkomandi aðili, sem væri með slettirekuskap, og ráðh. byggði sínar upplýsingar á bókhaldi Landsvirkjunar. Svo auðveldlega er ekki hægt að komast frá þessu máli. Það nægir ekki einu sinni að láta Morgunblaðið skrifa Harza með tveimur essum, eins og þetta sé einhver algerlega ókunnugur aðili. Sannleikurinn er sá, að fyrirtækið Harza, sem hefur gefið út þá skýrslu, sem hér var vitnað til í gær, er aðalráðunautur og eftirlitsverkfræðifirma, sem Landsvirkjun hefur fengið sér sem æðsta trúnaðarmann sinn eftir ábendingu Alþjóðabankans, sem á sínum tíma gerði kröfu til þess, að fyrirtæki, sem nyti alþjóðlegrar viðurkenningar, væri fengið til þess hlutverks. Þetta fyrirtæki, Harza, gerir þær skýrslur, sem hv. 6. þm. Reykv. ræddi um í gær, að gerðar væru á þriggja mánaða fresti og auðvitað gefa miklu fyllri lýsingu á stöðu verksins og þeim kostnaði, sem á það er fallinn, heldur en bókhaldið, sem þarf einmitt skýrslur frá Harza sem færslugögn til þess að geta gengið frá bókhaldinu. Það skorti hins vegar algerlega á það hjá hæstv. ráðh. í gær, að hann reyndi að gera nokkra tilraun til þess að skýra þann mismun, sem kom fram hjá verkfræðifirmanu annars vegar og hjá forustumönnum Landsvirkjunar hins vegar. En báðir þessir aðilar eru trúnaðarmenn hæstv. ráðh. á þann hátt, að ég get ekki séð, hvernig hann getur látið það afskiptalaust og látið eins og ekkert sé, þegar þeim ber á milli svo mörgum millj. dollara skiptir um atriði, sem auðvitað er hægt að ganga úr skugga um á tiltölulega einfaldan hátt, hvað er satt og hvað er rétt.

Hv. 6. þm. Reykv. reyndi að koma með nokkrar skýringar og að því er virtist ærið fullnægjandi skýringar á þessum mismun, hann benti á gengistap á innlendum kostnaði, gastúrbínustöðina o.fl., en hæstv. ráðh. lét það algerlega fram hjá sér fara að gera það nokkuð að umræðuefni. Því miður virðist mjög erfitt að verjast þeirri hugsun, að talsvert skorti á, að hæstv. ráðh. skilji fyllilega þau gögn, sem hann hefur fyrir framan sig í þessu máli. Hann hélt því á hinn bóginn fram, að það væri þegar fullreynt, að afköst þeirra véla, sem komið hafði verið fyrir við Búrfell, væru 15% meiri en fram að þessu hefur verið reiknað með. Í yfirlýsingu sinni taka þó framkvæmdastjóri Landsvirkjunar og formaður Landsvirkjunarstjórnar skýrt fram, að vélarnar séu enn ekki fullreyndar. En með aðferðum af þessu tagi tekst ráðh. að komast að þeirri niðurstöðu, að framleiðslukostnaður rafmagnsins í Búrfellsvirkjun sé 16 aurar á kwst., og þá er ekki amalegt að hafa raforkuverð, sem er 26.4 aurar, eins og hæstv. ráðh. hélt fram af miklum krafti, að raforkuverðið raunverulega væri. Þarna er hvorki meira né minna en á annan auratug, sem meira fæst fyrir raforkuna en það kostar að framleiða hana eftir staðhæfingu hæstv. ráðh. En var hann kannske ekki sannfærður um það sjálfur, að þetta væri rétt? Svo mikið er víst, að skömmu síðar í ræðu sinni lét ráðh. sér um munn fara þá setningu, að alltaf hafi verið vitað, að raforkuverðið væri ekki langt fyrir ofan framleiðsluverðið. Hvað langt fyrir ofan framleiðsluverðið þarf að hafa það, ef 26.4 aurar duga ekki fyrir raforku, sem kostar 16 aura að framleiða? Þó að raforkuverðið væri nú ekki nema 22 aurar, eins og sannleikur málsins auðvitað er, sýnist manni, að það þurfi ekki að vera með nein afsökunarorð um það að selja orku, sem kostar 16 aura að framleiða, á 22 aura. Sannleikurinn er auðvitað sá, að það kostar miklu meira en 16 aura að framleiða þessa orku, og rök fyrir því hafa verið lögð fram bæði núna og raunar fyrir löngu. Um það hafa legið fyrir gögn í allmörg ár, að það kostar miklu meira en 16 aura að framleiða þessa raforku. Hins vegar gat hæstv. ráðh. ekki setið á sér að fara með blekkingar í sambandi við það verð, sem fæst fyrir raforkuna frá hinum erlenda kaupanda, því að hæstv. ráðh. var í gær með algerlega nýjar skýringar á því, af hverju raforkuverðið hafði að nafninu til hækkað úr 21/2 mill upp í þrjú mill. Hann sagði, hæstv. ráðh., að fyrir því hefðu legið gagnkvæm rök og það hefði verið algerlega óháð því, að ISAL hefði samið um lægri skatta, sem það hefði farið fram á, meðan það ætti í byrjunarörðugleikum, en hins vegar hefði Landsvirkjun komið vel að fá hærra raforkuverð, á meðan virkjunin var ekki fullnýtt. Sannleikurinn er auðvitað sá, sem allir hv. alþm. vita, að það var hálft mill, 4.4 aurar, sem var flutt á milli raforkuverðsins og skattanna eftir ósk eða kröfu Alþjóðabankans, sem taldi nauðsynlegt, að ríkið léti Landsvirkjun eftir þessa fjármuni. Þetta atriði var ekkert verið að spinna neinar sögur um eða draga neina dul á, meðan hreinskilnari ráðh. fjallaði um þetta mál. Í skýrslu, sem hæstv. iðnmrh. lagði fyrir Alþ. skömmu eftir að lög um Landsvirkjun voru til meðferðar og birt er í A-deild Alþingistíðinda á þskj. 635 frá 1964, segir um þetta:

„Af hálfu Alþjóðabankans hefur verið lögð áherzla á nauðsyn þess, að raforkuverðið verði hærra en 2.5 mill á kwst. á fyrstu starfsárum virkjunarinnar, meðan vinnslugeta hennar er ekki fullnýtt. Eru fulltrúar Swiss Aluminium reiðubúnir til þess að fallast á það fyrir sitt leyti, að slík tilhögun verði viðhöfð, enda verði þá í sköttum verksmiðjunnar fullt tillit tekið til þeirrar hækkunar á rekstrarkostnaði, sem þessi hækkun á raforkuverðinu hefði í för með sér.“

Þetta er auðvitað sannleikurinn í málinu, hvaða sögur sem hæstv. ráðh. vill spinna um það núna fjórum árum síðar.

En það er á fleiri sviðum en þessu, sem núna þykir hæfa að vera að búa til nýjar forsendur fyrir þessu máli, þegar hinar fyrri upprunalegu forsendur þykja ekki lengur duga. Nú er lagður til grundvallar 40 ára afskriftatími, sem ráðh. stendur hér og segir okkur, að varla geti neinum þótt mikið, en núna þykir það hæfilegt til þess að reyna að ná saman endum, þótt áður hafi alltaf verið talað um 25 ár. Það er nærri því skoplegt að verða var við það, hvað langt hæstv. raforkumrh. á eftir til þess að átta sig á þessum nýju forsendum sjálfur, vegna þess að síðar í ræðu sinni, eftir að hann var búinn að tala um eðlilega fyrningu á 40 árum, sagði hann frá því, að við ættum algerlega þessa rafstöð eftir 25 ár, þá væri álfyrirtækið búið að borga hana að fullu, hvernig sem hann ætlar nú að fara að því að láta það borga hana að fullu á 25 árum, þegar hann þarf 40 ára fyrningartíma til þess að láta dæmi sitt ganga upp.

Undir lok ræðu sinnar brá ráðh. sér upp á ljóðræna planið, þar sem hann kann svo vel við sig, og lét hv. þingheim heyra það, að hann hefði lítinn hug á því að láta jökulfljótin renna óbeizluð til sjávar enn um langa hríð og höfðaði til annarra þm., að þeir hjálpuðu honum til þess að koma í veg fyrir slíka óhæfu. En til þess að það væri hægt, þá yrðum við, sagði hæstv. ráðh., að selja útlendingum orku, og hann spurði þingheim: Eigum við ekki að selja útlendingum orku? Ja, hví skyldum við ekki selja útlendingum orku? En það er bara ein spurning í sambandi við það. Fyrir hvað eigum við að selja þeim hana? Hvað á hún að kosta? Og það er einmitt mergurinn málsins, og það er það, sem er til umr. Það þarf að ganga úr skugga um það, áður en lengra er haldið á þessari braut, hvað raforkan á að kosta, og sú till., sem hér er til umr., miðar einmitt að því að ganga úr skugga um það. Hæstv. ráðh. hefur að vísu svolítið önnur viðhorf í þessu máli og raunar mikið önnur viðhorf í þessu máli, sem birtust gleggst, þegar hann ræddi um það, hversu litlar líkur væru til þess og raunar engar, eftir því sem hann sagði, að við gætum skaffað öllum þeim fjölda, sem bætist í hóp Íslendinga á næstu árum, vinnu, nema við virkjuðum og virkjuðum stórt.

Þarna er komið að þeim kjarna málsins, sem var í ræðu hæstv. ráðh. Hann andmælti í sjálfu sér ekki í neinni alvöru því, sem fram kom hjá Harza, og því, sem hv. 6. þm. Reykv. vísaði til skýrslu þeirra um. Hann andmælti því raunar ekki, en hann sagði sem svo: Álfélagið og raforkusalan skaffar atvinnu í landinu, þeir greiða skatta, og við græðum svo og svo mikið á þeim á öðrum sviðum. M.ö.o., málflutningur hæstv. ráðh. gekk út á það að réttlæta, að við fengjum ekki nægilegt verð fyrir raforkuna, og það er út af fyrir sig sjónarmið, sem hægt er að ræða, en það er ekki kjarni þess máls, sem hér liggur fyrir, því að hér er um það að ræða að finna út, hvað sé rétt og sanngjarnt raforkuverð.

Ég tók líka þannig eftir málflutningi hæstv. ráðh., að hann legði ekki til, að þessi till. yrði felld eða vísað frá. Ég tók ekki eftir því, að hæstv. ráðh. andmælti því í sjálfu sér, að slík nefnd yrði skipuð, og það var skynsamleg afstaða hjá hæstv. ráðh. Það var skynsamleg afstaða hjá hæstv. ráðh., vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir okkur að ganga úr skugga um þessa hluti, áður en lengra er haldið, og eins vegna ráðh. sjálfs. Ráðh. sjálfur á vissulega kröfu á því, að gengið sé úr skugga um, hvernig þessum hlutum öllum er varið. Almannarómur segir, að þegar nýju stjórnarráðslögin ganga í gildi um næstu áramót, eigi að nota tækifærið til þess að skipta um mann í embætti raforkumrh., eða færa það starfssvið yfir í hendur annars manns. Ég held, að það væri skynsamlegt fyrir hæstv. ráðh. að skilja ekki þannig við þetta mál, að það sé full ástæða til tortryggni í hans garð og þeirra sérfræðinga, sem hann hefur stuðzt við í þessu máli, heldur verði gert fyllilega hreint í málinu og það verði bezt gert með því að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, og láta þessa rannsókn, sem þar er farið fram á, fara fram.