11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3174)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Landbrh. ( Ingólfur Jónsson ):

Herra forseti. Það verður ekki mikið, sem ég hef að segja. En það vildi svo til, að ég var með fyrir framan mig sams konar þskj. og hv. 2. þm. Sunnl. og gæti lesið upp úr því líka, og ef ég geri það, stangast það á við það, sem þessi hv. þm. fullyrti áðan. Það er nefnilega þannig, að í þessu þskj., sem er langt og ítarlegt, og í þeim töflum, sem fylgja því, kemur greinilega fram, að ef virkjað er án álverksmiðju, verður hvert virkjað kw. svo miklu dýrara. Á bls. 1366 er t.d. tafla um virkjunarkostnaðinn með áli og án áls. Og þetta þekkir hv. 2. þm. Sunnl. áreiðanlega og allir hv. þm. og þarf þess vegna ekki að vera að lesa það upp. Við þurfum ekki út af fyrir sig að deila um þetta, vegna þess að það er skjalfest og liggur í augum uppi og reikningsleg niðurstaða af því fengin, sem ekki er hægt að vefengja. Við hljótum að vera sammála um, að hvert kw. frá smávirkjun er miklu dýrara en frá stórvirkjun. Og það hefur einnig verið reiknað út og liggur alveg í augum uppi og hv. 2. þm. Sunnl. ætti ekki að vera að deila um það, að ef við hefðum ekki virkjað svona stórt og haft álverksmiðjuna, væri orkan til innanlandsnotkunar miklu dýrari en hún er, af því að við höfum álverksmiðjuna og virkjuðum stórt. Þessar tölur eru allar fyrir hendi, og við skulum ekki vera að eyða tíma í að deila um þetta. Hélt ég, satt að segja, að það væri alveg úr sögunni að deila um staðreyndir, sem liggja skjalfastar fyrir framan okkur. Ég geri ráð fyrir, að flestir séu orðnir ánægðir með þessar umr. í bili og því ekki ástæða til þess að fara að fitja upp á því, sem gæfi verulegt tilefni til framhalds á þeim.

Hv. 4. þm. Reykv. er búinn með sinn ræðutíma, en hann vildi halda því fram, að ég væri nú í lokin alveg sammála honum um allar þær tölur, sem hann hefði talað um og félagi hans, flm. þessarar till. Mér þykir vænt um að heyra það, að hv. 4. þm. Reykv. telur, að það beri í rauninni ekkert á milli, eftir að hann hefur fengið allar upplýsingar frá mér. Þá er það ekki ég, sem hef nálgazt þeirra tölur, þeirra félaga, heldur eru það þeir, sem eru komnir að þeirri niðurstöðu, að það sé rétt, sem ég hef haldið fram, og þeir hafa hopað úr einu víginu í annað, vegna þess að þeir hafa ekki treyst sér til þess að halda við það, sem þeir byrjuðu með í fyrstu og var tilefni þessa tillöguflutnings. Hv. þm. talaði um það, að ég hefði farið rangt með í gær, þegar ég talaði um það, að aðrar virkjanir hefðu fengið eftirgjöf á tollum. Ég bið afsökunar á því, ef það er ekki rétt hjá mér, að síðasta virkjun Sogsins hafi fengið eftirgjöf á tollum. En ég stóð í þeirri meiningu, og víst er það, að Laxárvirkjun, — það er beinlínis ákveðið í lögum, — er undanþegin slíku og ég ætla fleiri vatnsvirkjanir. En ég minnist þess, þegar farið er að rifja þetta upp, að sá fjmrh., sem sat að völdum, þegar verið var að virkja a.m.k. 1. og 2. stig Sogsins, var erfiður í þessum tollamálum og urðu umræður og skrif um þau.

Í sambandi við þennan tillöguflutning er ekkert meira að segja. Till. fer til þn., og ef ekki er talið nægilegt það, sem komið hefur fram af minni hálfu og hæstv. iðnmrh. í þessu máli, er enginn vafi á því, að þn. getur spurt ýmsa fleiri og leitað þeirra upplýsinga, sem hún telur ástæðu til. En eftir að hv. flm. virðast vera orðnir sammála mér, getur varla verið svo mikið, sem ber á milli.