23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þó að þessar umr. séu að vissu leyti óþinglegar, þær, sem fjalla um örlög frv., sem orðið hafa í Ed. í dag, þá kemst ég ekki hjá því að segja aðeins örfá orð og fyrst og fremst af því tilefni, að hv. 6. þm. Reykv. komst svo að orði, að sér væri kunnugt um, að forráðamenn Sjálfstfl. hefðu gefið kaupsýslumönnum loforð um, að þetta verðgæzlufrv., sem nú er um rætt, skyldi ná fram að ganga. Þetta er rangt. Forráðamenn Sjálfstfl. og við ráðh. Sjálfstfl. höfum atveg hreinan skjöld gagnvart fyrirsvarsmönnum kaupsýslustéttarinnar í sambandi við þetta mál. Það er rétt, að við lögðum mikla áherzlu á, að frv. yrði lagt fyrir á þessu þingi, lögðum á það mikla áherzlu. Hitt er svo rétt, sem hæstv. viðskmnh. hefur skýrt frá, að samstarfsflokkurinn í ríkisstj. skýrði okkur frá því, að málið hefði ekki fullan stuðning Alþfl. Þetta sögðum við kaupsýslumönnum. Við sögðum, að það styddu allir þm. Sjálfstfl. málið, en ekki allir þm. stjórnarflokkanna, það væri þess vegna ekki hægt að fullyrða um afdrif málsins í þinginu. Varðandi svo það, hvort hér sé um einstæðan atburð að ræða, þá er það misskilningur, að það hljóti endilega að leiða af því, að stjfrv. nær ekki fram að ganga eða er fellt, að ríkisstj. segi af sér. Það er mjög algengt í þingræðislöndum, að gefnar eru yfirlýsingar annaðhvort um að ríkisstj. muni segja af sér eða að hún geri ekki tiltekið stjfrv. að fráfararatriði. Fyrir þessu þingi, sem nú situr, liggur eitt stjfrv. um skipan prestakalla og prófastsdæma. Ég hef við flutning þess máls skýrt frá því, að hvorki ég né ríkisstj. gerðum það að fráfararatriði, þó að það frv. verði fellt, en ég hef lagt á það áherzlu við hv. þn., bæði í Ed. og Nd., að frv. hlyti afgreiðslu.