29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í D-deild Alþingistíðinda. (3223)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég hef ástæðu til að þakka fyrir, hve góðar efnislegar undirtektir þessi till. mín um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Vesturland hefur fengið hjá hv. þm.

Á það hefur verið bent, að Atvinnujöfnunarsjóður hafi fengið það verkefni að gera slíkar áætlanir, og er það að sjálfsögðu rétt. Ég hugleiddi nokkuð, hvort þessu máli ætti að beina beint til sjóðsins, en mér fannst, að það væru eðlileg vinnubrögð, eins og algengast er, að Alþ. beindi áskorunum sínum beint til ríkisstj. sem æðsta aðila framkvæmdavalds, en ekki til einstakra undirnefnda. Það er þess vegna, sem ég stílaði till. eins og hún er. Það var ekki hugmynd mín að leggja til neins konar breytingar á þeirri skipan áætlunargerða, sem þegar er til.

Út af áminningum ýmsum, sem hæstv. fjmrh. flutti, vil ég minna á, að ég hef látið koma fram í grg. og framsögu, að ég tel, að slík áætlunargerð fyrir Vesturland eigi að sjálfsögðu að gerast í beinu framhaldi af því, sem þegar hefur verið gert og hagnýta eigi þann lærdóm, sem hægt er að fá af gerð Vestfjarða- og Norðurlandsáætlunar.

Tilgangurinn með tillöguflutningi sem þessum er að sjálfsögðu að vekja athygli á því, hvernig staðan er í mínu kjördæmi. Mér hefur fundizt, að ástæða væri til þess, ekki sízt af því, að það eimir hjá ýmsum enn dálítið eftir af þeim hugsunarhætti, sem hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni, að héruðin, sem eru nærri mesta þéttbýlinu, hljóti að vera svo vel á vegi stödd, að þau þurfi engrar aðstoðar við. Ég þykist hafa bent á það með flutningi þessarar till., að hin síðustu kreppuár hafa leitt í ljós, t.d. í stórum hlutum Vesturlandskjördæmis, að þar er atvinnuöryggi svo lítið og þörfin fyrir margvíslegar framkvæmdir til að styrkja atvinnulíf og afkomu svo brýn, að það er full ástæða til þess að beina athygli að þeim vandamálum. Ályktunargerð á Alþ. er að verulegu leyti til þess að vekja athygli á málum, koma þeim á framfæri, fá þau rædd og hafa þannig áhrif á þau. Og sá tilgangur var mér efst í huga, því að ég gerði mér vel ljóst, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að svona till. yrði ekki framkvæmd á einni nóttu. Það mun þurfa að renna allmikið vatn til sjávar, áður en hún verður að veruleika og þurfa fleiri að koma þar við sögu. Þess vegna er það von mín, að till. hafi beint athygli að því vandamáli, sem fyrir mér vakir, og ég hef ekkert nema gott um það að segja, að Sunnlendingar bætist í hópinn og geri mína grg. að einhverju leyti að sinni. En ég vil vænta þess, að fjvn., sem væntanlega fær þessa till. til meðferðar, taki mál þessi til ítarlegrar athugunar og að þær umr., sem hér hafa farið fram um till. og vissulega sýna mikinn áhuga á þessum málum, verði til þess að ýta frekar á eftir því, að við reynum að nota skynsamlega nútíma áætlunargerð bæði fyrir einstök landsvæði og fyrir einstaka liði atvinnulífs, samgangna og annarra þátta á þessum svæðum og vinnum þannig frekar en hingað til skipulega að því að auka framfarir til að bæta afkomu einstaklinga og atvinnuvega og styrkja byggð í okkar landi.