29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þar sem ég er mjög eindregið fylgjandi samþykkt þeirrar till., sem hér liggur fyrir, og einnig þeirrar brtt., sem er á þskj. 53, þá vona ég, að það verði ekki misskilið, þó að ég bendi hv. þm. á, að þetta mál ber að með einkennilegum hætti hér á hv. Alþ.

Það hafa verið gerðar framkvæmdaáætlanir fyrir Vestfirði og Norðurland og að því er manni er sagt stendur til að gera eina fyrir Austurland, og nú flytur einn hv. þm. Vesturl. till. um að gera framkvæmdaáætlun fyrir Vesturland í þeim tilgangi að bæta afkomu einstaklinga og atvinnugreina og auka byggð á svæðinu á næstu árum. Fjórir hv. þm. Sunnl. flytja við þetta brtt. um það, að þessi till. nái einnig til Suðurlands, og það eru að mínum dómi eðlileg og sjálfsögð viðbrögð af þeirra hálfu og ég mundi hafa óskað að vera meðflm. þeirrar till., ef frá henni hefði ekki verið gengið, áður en ég tók sæti á hv. Alþ. Einn af þm. Reykv. benti svo á það í umr., að það þurfi ekki síður að gera framkvæmdaáætlun fyrir Reykjavík. Þannig kemur hver af öðrum og leggur til, að gerðar séu framkvæmdaáætlanir fyrir sín kjördæmi. Nú kemur fram í þessu sambandi hvað eftir annað, að auðvitað eru þau svæði, sem menn um þessar mundir hafa talið hentugt að kalla kjördæmi og verða sjálfsagt ekki lengi í því formi, næsta ólíkleg til að vera endilega hentugar einingar fyrir þessar framkvæmdaáætlanir. Auk þess hlýtur það að vekja nokkra furðu, að menn skuli þurfa að flytja á hv. Alþ. till. af þessu tagi, þar sem hér ætti að vera um sjálfsagða hluti að ræða, að áætlanagerð í þjóðfélaginu væri slík, að slíkar till. þyrfti ekki að vera að flytja fyrir einstök svæði ár eftir ár, og mér virðist þess vegna, að gangur þessa máls, sem ég hef verið að rekja, varpi ákaflega skýru ljósi á vöntun, alvarlega vöntun í okkar þjóðfélagi, sem við ættum að snúa okkur að að ráða bót á, í stað þess að setja bætur á flíkina með þeim hætti, sem gert hefur verið á undanförnum árum. Ég verð þó að taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að það er vissulega hægt að hafa þessar áætlanir fyrir stærri svæði en gert hefur verið, t.d. landið allt, og einnig fyrir smærri, að taka fyrir minni byggðarlög og þá væntanlega af sérstökum tilefnum. Mér virðist, að það væri æskilegt, að hv. Alþ. gæti tekizt á við þessi vandamál á breiðari grundvelli en gert hefur verið um hríð, og til þess að vekja athygli á því hef ég rakið málið með þessum hætti, sem ég hef gert.

Mig langar svo að bæta við nokkrum orðum að gefnu tilefni í þeim umr., sem hér hafa farið fram. Ég verð að segja, að þó að ég sé þakklátur hv. 3. þm. Sunnl. fyrir flutning þeirrar brtt., sem hann hefur flutt ásamt öðrum þm. kjördæmisins, þá fór því talsvert fjarri, að mér líkaði tónninn í þeirri framsöguræðu, sem hann flutti. Í þeim orðaskiptum, sem hann átti við hv. 6. þm. Reykv. um áætlunarbúskap og áætlanagerð og um stjórnarkerfið í Rússlandi og stjórnarkerfið hér, komst hann að þeirri niðurstöðu, sem mér þótti rétt og góð, að okkar kerfi væri miklu betra, en þá bætti hann við þessum orðum, sem ég skrifaði eftir honum, að það væri betra, „þó að við þurfum að vissu marki að gera áætlanir.“ Það var auðvitað galli á gjöf Njarðar, að við skyldum þurfa að gera það að vissu marki. Ég verð að segja, að þeir menn, sem nálgast áætlanavandamálið með því hugarfari, sem þessi setning bar vott um, eru ekki líklegir til þess að leysa þau mál á farsælan hátt. Þessi tónn minnir mig á viðræður, sem ég átti í þessum ræðustól fyrir allmörgum árum við nokkra flokksbræður hv. 3. þm. Sunnl., þar sem ég minnist þess, að einn hv. þm. þess flokks, sem jafnframt er hagfræðiprófessor, líkti áætlunargerð við veðurspá. Ég er hins vegar alveg sammála hv. 6. þm. Reykv. um það, að áætlanir eiga að vera annað og meira en veðurspár. Það á að gera eitthvað við þær, og þær eiga að fela í sér stefnumörkun, þær eiga að fela í sér markmið, sem unnið er að. Ég held, að það sé ákaflega óheppilegt, ef farið er með áætlanir, sem gerðar eru á þann hátt, að það getur verið deilumál meðal alþm. í mörg ár, hvort þær séu yfirleitt til eða ekki. Hæstv. fjmrh. minnti á það í ræðu sinni áðan, að það hefðu verið menn, sem hefðu vefengt, að Vestfjarðaáætlunin hefði verið til. Maður skyldi ætla, að það væri ekki mikill vandi að koma í veg fyrir, að slíkt væri vefengt. Það er ákaflega einfalt ráð til þess og það er bara að birta áætlanirnar, og ég álít, að áætlanir af þessu tagi komi ekki að hálfu gagni, nema þær séu birtar. Þær eiga ekki bara að vera leikföng ráðh., embættismanna og sérfræðinga. Þær eiga að vera stefnumörkun fyrir þjóðina alla.

Ég skal ekki lengja þessar umr. meira, herra forseti, en mig langaði til þess við þetta tækifæri að undirstrika þessi atriði, sem ég hef oft áður gert að umtalsefni í sambandi við umr. af þessu tagi, að áætlunargerðin sjálf á að vera tæki til þess að draga fram þarfir og finna úrlausnir, marka stefnu. Það á að birta þær öllum til upplýsinga og leiðbeininga, og það á að fylgja þeim eftir í framkvæmd, þannig að þær verði annað og meira en pappírinn einn, sem þær eru festar á.