11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3326)

71. mál, sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Við hugsum sjálfsagt eitthvað svolítið á mismunandi vegu, við hv. 1. þm. Vestf. og ég. Ég á nefnilega auðvelt með að samrýma það í minni vitund, að mál geti verið mikilvægt, þó að það geti verið betur komið í höndum annars aðila en ríkisins. Hér er alls ekki um nýtt mál að ræða. Eins og fram kemur bæði í okkar nál. og í aðaltillögunni, og eins og allir vita, er þetta eitt af þeim málum, sem eru og hafa lengi verið í framkvæmd hjá mörgum sveitarfélögum, stærri sveitarfélögum í landinu, kaupstöðunum fyrst og fremst og einnig mun það hafa verið í nokkrum þorpum, að hlutast til um að koma börnum úr þéttbýlinu til sumardvalar í sveitum. Fyrst var það kannske beint á venjuleg sveitaheimili, en í seinni tíð hafa í vaxandi mæli verið sett á stofn sérstök heimili, þar sem börnin geta dvalið. Og ég vil bara árétta það, að það dregur engan veginn úr mikilvægi þessa máls, þó að við teljum, að framkvæmd þess verði hér eftir sem hingað til bezt komin í höndum sveitarfélaganna. Það sýnir aðeins það, að við, sem skipum þennan meiri hl. n., berum í þessu efni a.m.k. eins mikið eða meira traust til sveitarfélaganna og sveitarstjórnanna til þess að sjá um framkvæmd þessa máls.

Það er oft haft á orði og ekki alveg að ástæðulausu, að nefndarskipanir í ýmsum málum hafi sízt orðið til þess að greiða fyrir lausnum. Þær hafa oft orðið til þess meira að segja að tefja fyrir framkvæmdum. Og mér er ekki alveg grunlaust um, að það kynni a.m.k. að geta haft þær afleiðingar — eða samþykkt þessarar till., — að í sumum tilfellum mundu sveitarstjórnir telja, að ríkisvaldið væri að taka þetta mál að sér, og mundu þar af leiðandi e.t.v. eitthvað draga úr því starfi, sem þær ella mundu beina að þessu efni.

Ég vil þess vegna mótmæla því alveg eindregið, að við gerum okkur ekki fulla grein fyrir mikilvægi þessa máls, og það er af fullum heilindum, fullri ábyrgð, sem því er haldið fram, sem dagskráin byggist á, að þetta mál sé bezt komið í höndum sveitarstjórnanna og sveitarfélaganna hér eftir sem hingað til.