17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3481)

195. mál, símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæði

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Á þskj. 473 flytur hv. 6. landsk. þm. till. til þál. um símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæðinu, þar sem skorað er á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að gjöld vegna símtala milli Brúarlands- og Reykjavíkursvæðisins svo og innbyrðis á Suðurnesjasvæðinu reiknist sem innanbæjarsímtöl. Vissulega er hér um að tefla hagsmunaatriði fyrir það fólk, sem hér um ræðir, þ.e. símanotendur á þessum svæðum, sem við báðir, hv. 6. landsk. þm. og ég, erum fulltrúar fyrir hér á hv. Alþ. Mál þetta hefur verið til athugunar hjá hæstv. landbrh. og okkur, þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi, en lausn á því hefur ekki enn þá fundizt. Það er ekki úr vegi að benda á, að fyrir nokkrum árum gengumst við, þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi, fyrir samkomulagi um breytt skref á gjaldflokki milli Sandgerðis og Gerðastöðvanna, sem var til hagsbóta fyrir símanotendur þar, enda var þar um alveg sérstakt mál að ræða, þar sem segja má, að þessir staðir séu nær því að vera eitt atvinnusvæði en aðrir staðir á Suðurnesjum. Ef við athugum þáltill. hv. 6. landsk. nokkru nánar, vil ég taka fram, að mér hefur lengi verið ljóst, að breytinga er þörf á símatöxtum hinna sjálfvirku símstöðva og þar eð ávallt fjölgar þeim landshlutum, sem þessarar þjónustu verða aðnjótandi, þá er brýn nauðsyn að mynda heildarreglur, er nái til allra byggðasvæða, er sjálfvirka símaþjónustan nær til. Ég hef því verið með hugleiðingar í þá átt, að settar yrðu reglur, sem ekki aðeins næðu til vissra svæða, heldur giltu fyrir allt landið. Að sjálfsögðu verður að hafa í huga, að fyrir símaþjónustuna verður að greiða, og einnig skulum við hafa í huga, að það munu vera um 15–20 ár síðan hætt var við að greiða beint úr ríkissjóði til fjárfestingarframkvæmda Landssímans, svo að rekstur hans verður að standa undir fjárfestingu og útbreiðslu símans með þeirri sjálfvirkni, sem óðum er að breiðast út um allt landið. Hv. 6. landsk. þm. virðist álíta, að þetta mál sé mjög einfalt og auðleyst, en því fer fjarri. Ég hef reynt að kynna mér þetta mál, bæði frá sjónarmiði símnotendanna og frá sjónarmiði þeirra, sem með símastofnunina hafa að gera. Ef málið er athugað til hlítar frá öllum hliðum, liggur í augum uppi, að slík breyting, sem hv. flm. till. gerir ráð fyrir, mundi leiða til stórfelldrar byltingar á gjaldskrármálum Landssímans og skynsamlegri fjármálastjórn, að því er snertir rekstur og fjárfestingar í framtíðinni. Þetta verður ljósara, þegar haft er í huga, að uppbygging símakerfisins greinist í fjóra höfuðþætti, sem nú skal bent á: 1. Stöðvarbúnaður fyrir innanbæjarval milli þeirra notenda, sem tengdir eru beint við viðkomandi stöð. 2. Innanbæjarlínukerfi, sem tengir sérhvern símnotanda við viðkomandi stöð. 3. Stöðvarbúnaður fyrir miðlun símtala milli símstöðva. 4. Landssímalínur fyrir símasambönd milli símstöðva.

Hefur hér á landi verið fylgt sömu meginreglu og í mörgum löndum, þess efnis, að símakerfið í heild sé hagkvæmt og nýting hvers þáttar eftir atvikum sem bezt miðuð við eðlilegar símtalavenjur. Í sjálfvirkum símstöðvum er þess vegna einungis gert ráð fyrir, að ákveðinn fjöldi notenda geti talað saman samtímis, og mæta menn því stöku sinnum upptekinni stöð, en þessi frávísun er byggð á reynslutölum og líkindareikningi. Hámarkslengd á innanbæjarlínum eru líka takmörk sett kostnaðarins vegna, og þar koma líka til tæknileg sjónarmið. Í stórum þéttbýliskjörnum verður því að reisa fleiri en eina stöð, sbr. Reykjavík. Hinir tveir síðastnefndu þættirnir, skiptibúnaður fyrir miðlun símtala milli símstöðva og landssímalínurnar í því sambandi, eru tiltölulega dýr búnaður. Hins vegar eru þau línusambönd ekki mörg, sem eru miðuð við afnot fyrir fjölda notenda. Verður því að teljast eðlilegt frá sjónarmiði hins almenna notanda, að fyrir not slíkra sambanda sé greitt aukalega sem næst kostnaðarverði, eins og nú á sér stað. Væri afnotagjaldið á þess háttar leiðum milli stöðva reiknað sem innanbæjargjald, er fyrirsjáanlegt, að auka verður eða margfalda þann dýra búnað, sem að framan greinir, og það leiðir til stærra húsrýmis og aukins mannafla til viðgerða og eftirlits. Í þessu sambandi má benda á hliðstæðu, sem að vissu leyti er á milli afnota rafmagns og síma. Í báðum þessum tilvikum er um að ræða afnot af vélum og leiðslukerfum, en stærð og dýrleiki þeirra fer eftir því, hversu mikið og hversu lengi notandinn færir sér þessa þjónustu í nyt. Rafmagn er mælt og selt samkv. kw-stundafjölda og það finnst öllum sanngjarnt. Á sama hátt kæmi til greina að mæla notendastundafjölda símanotenda og borgaði þá hver og einn samkv. raunverulegri notkun. Af því, sem ég hef nú sagt, er ljóst, að till. hv. 6. landsk, þm. er ekki raunhæf til lausnar þeim almenna vanda, sem hér er fyrir hendi. Ég vil því leggja til, að gjaldskrá Landssímans fyrir sjálfvirku langlínuafgreiðslurnar verði tekin til endurskoðunar, þar sem athuguð verði m.a. eftirfarandi atriði:

1. Gjaldskipting á stuttu fjarlægðunum og þá með fjölgun á gjaldskrefum í huga. 2. Lengd innanbæjarsamtala. 3. Hvort ekki mætti koma á næturtaxta, er gæti þá sennilega verið hálfur dagtaxti eða lægri.

Ef um kvöld- og næturtaxta væri að ræða, mundi það fyrirkomulag beina einkasamtölum á þann tíma sólarhringsins, þegar lítið er að gera á línunum. Að því er mér hefur verið tjáð, hefur hliðstætt fyrirkomulag gefið góða raun bæði í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Skandinavíu svo og í fleiri löndum Evrópu. Þær breytingar, sem ég hef hér bent á, mundu án efa, og áreiðanlega fyrst í stað, rýra tekjur Landssímans. Síðar mundi það geta leitað jafnvægis, en sá kostur er á því fyrirkomulagi, sem ég hef hér bent á, að kostnaðarverð þeirrar þjónustu, sem veitt er, er þekkt. Vissulega mætti ræða um fleiri leiðir, t.d. þá hugmynd, sem einu sinni kom fram, að gera landið að einu gjaldsvæði, án tillits til afnota. Sú hugmynd, ef hún kæmi til framkvæmda, yrði til þess að margfalda föstu afnotagjöldin og koma mjög ranglátlega niður. Hvað sem líður þeirri þáltill., sem hér er til umr., tel ég endurskoðun á gjaldtöxtum Landssímans mjög knýjandi, en við hér á hinu háa Alþ. megum ekki benda á eða samþykkja till., sem leiða til stóraukins kostnaðar, sem engir aðrir en símnotendur verða að greiða, og ekki stuðla að því, að kostnaði verði ranglega skipt á milli notendanna. Þess vegna legg ég ríka áherzlu á, að þær athuganir, sem ég hef hér bent á, verði látnar fara fram hið allra fyrsta. Ég áskil mér síðan rétt til þess að flytja brtt. við þessa þáltill. á þskj. 473, ef ég sé ástæðu til þess síðar.