26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í D-deild Alþingistíðinda. (3634)

903. mál, raforkumál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að fara langt út í þetta mál á þeim ræðutíma, sem nú kemur í hlut hvers manns, en ég vil mjög taka undir þær hvatningar, sem hér hafa komið fram um það, að menn leitist nú við að taka höndum saman um að gera átak í rafmagnsmálunum. Það er að verða alveg óviðunandi að búa í sveitum upp á það að vita ekki einu sinni, hvort menn fá raforku nokkurn tíma eða aldrei, vita jafnvel raforkuna í næstu sveit eða hinum megin við hálsinn og hafa ekki nokkra hugmynd um, hvort menn eiga von á að fá raforkuna eftir 2 ár eða 20 ár. Svona er ástandið núna. Og ég verð að segja það, án þess að ég vilji neitt sérstaklega fara að deila á hæstv. ráðh., að ekki geta Vestfirðingar verið ákaflega hrifnir af framkvæmdunum í rafmagnsmálunum á undanförnum árum. Ég þarf varla að minna hæstv. ráðh. á sveit, sem heitir Barðaströnd. Ég hef gert það áður, en ég get gert það einu sinni enn. Þarna eru 28 bæir og það eru rúmlega 1.4 km að meðaltali á milli bæja, en af því að það þarf að fara með háspennulínu yfir fjall, þá er sveitin dæmd til þess að vera rafmagnslaus. En í sömu sýslu var lögð rafmagnslína fyrir mörgum árum í Reykhólasveit og Geiradalshrepp, og engum datt þá í hug að fara að reikna vegalengdina yfir Tröllatunguheiði og deila henni á milli bæjanna 9 sveitinni. Af því að það var ekki gert þá, fengu sveitirnar þar rafmagn. En af því að þetta er gert núna þar vestra, fá Barðstrendingar ekki rafmagn. Þetta er óviðunandi með öllu.

Fyrir fáum árum var opnaður myndarlegur flugvöllur á Patreksfirði, í Sandodda, og hæstv. ráðh. bauð okkur þm. vestur að vera við þá hátíð, þegar hann var vígður. Það var gaman að því. Forstjóri Flugfélags Íslands gat þess á þeirri samkomu, að flugvöllurinn væri ekki fullgerður, þangað væri ekkert rafmagn komið, og meðan ekki væri rafmagn á flugvellinum, væri hann eins og fokhelt hús. Mig minnir, að það séu núna tæp tvö ár síðan við nokkrir Vestfjarðaþm. fórum á fund hæstv. ráðh. út af rafmagnsmálum. Mig minnir, áð hv. 9. þm. Reykv. væri í hópnum — (Gripið fram í.) Var það ekki? Eru það ekki tvö ár? Mig minnir, að það væri á gamlársdag, og hann var spurður að því, hæstv. ráðh., hvenær rafmagn kæmi á flugvöllinn. Hann tjáði okkur, að það mundi geta orðið á næsta ári, árinu 1967. Ég held, að hann hafi meint þetta, hæstv. ráðh., en hann gat ekki komið þessu fram, og sennilega er það ekki honum að kenna. En rafmagnslínan er ekki komin þangað enn. Með því að leggja línuna þangað hefði verið stytt verulega leiðin til þess, að Barðastrandarhreppur fengi raforku. Allt er fast, hvernig sem farið er að.

Ég skal nefna þriðja dæmið á Vestfjörðum. Það er Bæjarhreppur í Hrútafirði. Þar er vegalengdin þó nokkuð fyrir neðan 1.5 km að meðaltali milli bæja. Ég ætla, að það hafi verið fyrir tveimur árum, sem samþ. var í raforkuráði, að sú lína skyldi lögð. Hvað er hún komin langt núna? Það er búið að leggja staura yfir part af hreppnum, en enga línu. Og þannig stendur það enn. Hvenær strengurinn kemur á staurana, veit ég ekki, hvort það verður á næsta ári eða ekki. Þetta eru dæmi af Vestfjörðum um, hvernig þetta gengur. Þess vegna segi ég það, að erfitt er að una við þetta svona endalaust.

Að lokum vil ég aðeins nefna það, að ekki virðist úr vegi, að farið verði að athuga stækkun Mjólkárvirkjunar. Það vita allir, að hún er allt of lítil fyrir raforkuþörf Vestfjarða eða þeirra víðlendu byggðarlaga, sem hún á að fullnægja, og verður að nota mjög dísilorku í kauptúnunum, þegar mest er álagið, en það kostar sína peninga. Eru engar ráðagerðir einu sinni um það að fara að stækka Mjólkárvirkjun? Þar mun ekki skorta vatn, og verður ódýrari stækkun en að byggja alfarið að nýju.

Ég enda þessi fáu orð mín með því að hvetja mjög til þess, að menn reyni að sameinast um verulegt átak í rafmagnsmálunum. Svo mikið hefur verið tekið af lánum á undanförnum árum, að þjóðin hlýtur að þola það að verða að taka eitthvert lán til þess að geta lokið þessum — ég vil segja síðasta — áfanga í rafmagnsmálum þjóðarinnar.