11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í D-deild Alþingistíðinda. (3803)

919. mál, veiðiréttindi útlendinga

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru margir meinhugir á þessum fsp.-tíma hér í Alþ., nú eins og fyrri daginn. Fsp., sem hér liggur fyrir til umr., fjallar um veiðileyfi í laxám landsins árin 1967, 1968 og 1969 og með hvaða hætti leigan eigi sér aðallega stað. Síðan er spurt um gjaldeyri fyrir hvert ár um sig. Nú hefur mikið af umr. snúist að ám, sem alls ekki hafa verið leigðar á þessum árum, og ef menn vilja vita eitthvað um þær og ræða þær, þá á það auðvitað að koma inn í fsp., sem til umr. eru, því að annars er farið út fyrir efni málsins.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að það stefndi að því, að veiðiár hér á landi væru leigðar útlendingum. Það stefnir nú þannig að því, að ef ég man rétt, þá held ég, að það hafi verið 1963 eða 1964 kannske, sem leyfi var veitt bændum til að leigja Vatnsdalsá útlendingi, — það var í mínu rn. Svo held ég að önnur leiga hafi ekki komið til greina fyrr en Hofsá í Vopnafirði var leigð, eins og hæstv. landbrh. gerði grein fyrir áðan, og það kom fram í hans máli, hvað mikil eftirspurn var eftir þeirri á af hálfu Íslendinga og hver vilji bændanna eða þeirra, sem að henni stóðu, var í þessu máli.

Ég held, að þetta stefni ekki til neinnar stórhættu út af fyrir sig, en auðvitað hefði hér mátt liggja fyrir, ef hefði verið spurt um það, með hvaða leigukjörum Vatnsdalsá var leigð og hvaða aths. menn hafa við þá leigumála, sem þar voru gerðir. Ég er ekki með þau plögg í höndunum, sem fjalla um þetta mál, eins og ég hef gert grein fyrir, en bæði var lögð kvöð á viðkomandi útlending, sem leigði þessa á, að setja klak í ána og rækta þar upp lax, standa fyrir fiskrækt, til þess að Íslendingar, þegar leigutíminn væri útrunninn, gætu veitt laxinn, þegar hann væri farinn að sprikla, eins og var komizt að orði áðan, en ekki öfugt, enn fremur skyldi hann byggja þarna mikið hús, sem eigendur veiðiréttarins áttu svo að fá eftir tilskilinn tíma, eftir leigutímann. Það hús er mikið að verðmæti. Þannig eru mörg atriði í sambandi við þennan samning.

Ég er ekki á móti því, að það verði athugað og rætt, hvort hér hafi verið einhverjar misfellur á leigusamningum og hversu mikil hætta er í þessu fólgin. Það er bara ekki hægt að gera það í þessum fsp.-tíma, þegar spurt er eins og hér er gert. En ég tók eftir þessari fsp. og taldi, að hér væri verið að spyrja um allt annað en leigu á þessari á, sem var leigð, eins og ég segi nú, fyrir 6 árum, held ég að það hafi verið.

Ég held, að það sé alveg öruggt, að hér hafi komið fram í þessum málum margar staðhæfingar og órökstuddar fullyrðingar, og það má náttúrlega segja, að það sé næsta furðulegt, að mál eins og þessi skuli vera rædd af handahófi í fsp.-tíma, þegar við vitum, að undanfarin ár hefur verið unnið að fiskrækt í landinu og endurskoðun á laxveiðilögunum og öðru slíku. Hvers vegna hafa þessi mál þá ekki verið rædd við stjórnvöld, og óskað eftir því, að sérstaklega væri kannað, hvað hér væri á ferðinni, ef hér væru einhverjir annmarkar á? Ég man ekki eftir einni einustu aths., umkvörtun eða erindi í mínu rn. í sambandi við leiguna á Vatnsdalsá. Ég minnist þess ekki. En það getur vel verið, að menn hafi eitthvað nú við hana að athuga. Það er auðvitað komið langt á þann leigutíma, sem þá var um samið, og ég færist ekki undan því, að þetta sé athugað sérstaklega, og ég mun að gefnu tilefni athuga betur þann leigumála, sem þar var gerður, í ljósi þeirra ummæla, sem hér hafa verið látin falla, að útlendingar leigi ár, eins og þessa á, og stunduðu svo hér ólöglega atvinnu, eins og sagt var áðan.

Ég skal ekki fara frekar út í þetta, ég tel það ekki fært, meðan ekki eru gögn tiltæk. En ég vek athygli á því, að það er vissulega galli á fsp., þegar þær eru bornar fram eins og hér er og miðað við þær umr., sem fram hafa farið.