08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í D-deild Alþingistíðinda. (3871)

923. mál, ómæld yfirvinna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Ég hjó eftir því, að hæstv. fjmrh. vitnaði til þess, að það hefði tíðkazt áður fyrr, að fjmrh. hefði ákveðið greiðslur fyrir yfirvinnu, og vitnaði í því sambandi til bréfa eða ákvarðana um það efni frá árinu 1952, ef ég tók rétt eftir. Ég vil aðeins segja það, að það er algerlega út í hött að blanda þessu saman. Það var allt annað kerfi, sem búið var við á þeim tíma, en það, sem nú er búið við.

Eins og allir hv. þm. vita, þá voru sett ný lög um þetta efni 1962, um kjarasamninga ríkisins, og eftir það búum við við allt annað kerfi í þessum efnum en áður. Þar eiga launakjör starfsmanna ríkisins fyrst og fremst að vera ákveðin með kjarasamningum, en ef þeir samningar takast ekki, þá eru þau ákveðin með gerðardómi, svo kölluðum kjaradómi. Það liggur alveg í augum uppi, að jafnframt því, sem þetta skipulag er tekið upp, þá hlýtur einhliða ákvörðunarvald fjmrh. að hafa skerðzt og takmarkazt, og það getur ekki verið neitt í líkingu við það, sem áður var. Enda er það svo, að það er beinlínis tekið fram í kjarasamningalögunum, 6. gr. laganna, að um þau atriði, sem kjarasamningurinn nær ekki til — og eru talin þar upp ýmiss konar fríðindi og þar á meðal yfirvinna — þá skuli fara fram samningar milli samningsaðila, stéttarfélaganna. Þetta eru alveg skýr ákvæði. Ég er ekki með lagasafnið í höndunum, en ef hæstv. ráðh. vill fá það alveg klárt, þá er hægurinn hjá fyrir hann að senda eftir því, og hann getur lesið upp hér úr stólnum 6. gr. í kjarasamningalögunum. Það er auðvitað svo, og liggur í augum uppi, að kjaradómurinn, sem er gerðardómur, getur ekki á nokkurn hátt breytt lögunum, og þess vegna er það að mínu mati algerlega út í hött til réttlætingar þeim aðgerðum, sem hér hafa verið gerðar, að vera að vísa til 14. gr. í dómi kjaradóms. Kjaradómur getur alls ekki, að ég tel, framselt öðrum eða falið öðrum að fara með það vald, sem honum er falið í lögunum. Ef kjaradómur á að taka ákvörðun um eitthvað, þá verður hann að gera það. Það liggur í augum uppi, að hann getur ekki farið að framselja það vald t.d. til fjmrh., sem þar að auki er annar samningsaðilinn í þessu sambandi. Það væri auðvitað fráleitt, það sjá náttúrlega allir. Ef þetta stendur svona í kjaradómi, þá verð ég að segja, að ég er alveg hissa á því, því að það eru góðir lögfræðingar í honum, og ég skil bara ekkert í því, hvernig slíkt má verða, að kjaradómur fari að framselja sitt vald að einhverju leyti í hendur fjmrh., enda trúi ég ekki, að því sé þannig farið. Það hlýtur að vera byggt á einhverjum misskilningi. Ég veit ekki heldur betur en að það sé sett upp í kjarasamningalögunum sérstök stofnun, sem sérstaklega á að hafa með höndum að greiða úr vafaspurningum varðandi t.d. yfirvinnu, og það er svo kölluð kjaranefnd. Hún á að meta það, hvað heyrir til yfirvinnu, og hvað heyrir til venjulegri vinnu. Ég get ekki skilið það, að hlutaðeigandi starfsmenn sjálfir geti fengið sjálfdæmi um það efni. Þetta heyrir samkvæmt lögum undir kjaranefnd. Þetta vildi ég aðeins segja.

Ég vildi svo segja það um þetta mál, að ég er alls ekki að telja eftir laun þessara starfsmanna, sem þarna eiga hlut að máli, því að sannleikurinn er sá, að þeir, sem eru yfirmenn ríkisstofnana, eru í mörgum tilfellum verr launaðir en undirmenn þeirra. Þetta er svo hjákátlegt og furðulegt fyrirbæri, að það er alveg einkennilegt, að hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. skuli ekki vilja horfast í augu við þetta og hafa manndóm til þess að ákveða þann launamismun, sem eðlilegur er, og ákveða þessum æðstu embættismönnum og starfsmönnum þau laun, sem samboðin eru stöðu þeirra, í stað þess að fara þessar krókaleiðir, sem farnar eru. Launin eru lág á pappírnum, en ég býst við, að þegar allt kemur til alls, þá séu kannske rauntekjur þessara manna allsæmilegar, en það verður bara að fara þessar leiðinlegu leiðir til þess, um alls konar bakdyr — útvega þeim bitlinga o.s.frv. Það er það, sem ég deili á og hef fundið að í sambandi við þetta mál, að þetta skuli gerast svona á bak við og án þess að það liggi ljóst fyrir, og að farnar skuli vera þessar krókaleiðir í þessu efni, sem ég álít engum til góðs. En ég segi það enn, að ég álít, að í mörgum tilfellum séu þessir starfsmenn, sem þetta hefur nú lent hjá, forstöðumenn ríkisstofnana, sjálfsagt ekkert ofhaldnir af þessu, miðað við aðra starfsmenn og jafnvel undirmenn þeirra, og það er aðeins þetta, að ég tel, að þessa aðferð eigi ekki að hafa við þetta, og ég bendi á það, að þessir menn búa við skerta vísitölu. Ætli það hefði ekki verið hreinlegra að láta þá fá fulla vísitölu í stað þess að fara þessa leið, sem hér er farin núna?