08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í D-deild Alþingistíðinda. (3875)

923. mál, ómæld yfirvinna

Steingrímur Pálsson:

Herra forseti. Í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, langar mig til að koma með nokkrar aths. Talað hefur verið um launauppbætur og þóknun og jafnvel bitlinga. Þeir yfirmenn Pósts og síma, sem ekki fá að taka aukavinnu samkv. gildandi aukavinnutöxtum, en verða samt að vinna aukavinnu, hafa fengið þessa svo kölluðu föstu aukavinnu. Það var talað hér um 48 stöðvarstjóra Pósts og síma víðs vegar um landið. Ég vil taka það fram, að þessi fasta aukavinna getur verið frá 10 klst. á mánuði upp í 25 klst., en hún er greidd með dagvinnutaxta, ekki með gildandi næturvinnutaxta. Þessari föstu aukavinnu fylgir bæði sú skylda og kvöð, að þeir stöðvarstjórar, sem taka þessa aukavinnu, verða alltaf að vera til taks, t.d. ef um línubilanir er að ræða, bilun á tækjum í sambandi við öryggisþjónustu og svona má lengi telja. Ef við tókum eitt lítið dæmi, þá vitum við, að það er sendur póstur vestur og norður í land með sérleyfisbifreiðum, og þessar bifreiðar eru komnar norður eftir reglulegan vinnutíma. Ef við tökum staði eins og Blönduós, Sauðárkrók, Búðardal og Hólmavík sem dæmi, þá eru stöðvarstjórarnir þar skyldaðir til að taka upp póstinn, lesa hann í sundur, raða honum og afhenda hann landpósti, sem hefur sínar ferðir í sambandi við þessar sérleyfisferðir. Ég veit af eigin reynslu, að þeir vinna ekki minna en 3 klst., við skulum segja þrisvar í viku. Þá eru þeir komnir þarna upp í 24 klst. á mánuði, sem þeir vinna í aukavinnu, en fá e.t.v. greiddar 10 klst. í dagvinnu. Og þetta er ranglætið.

Það er alveg rétt, sem kom hér fram, að mat á þessari föstu aukavinnu er því miður handahófskennt. En hvernig stendur á því, að þessum starfsmönnum er ekki greitt eftir aukavinnutaxta fyrir sína vinnu? Ástæðan er sú, að það er ekkí talið eðlilegt, að yfirmenn skrifi sjálfir sína eigin aukavinnu. Þeim er sem sagt vantreyst á þessu sviði, en þeir vinna miklu meira og fá ekki sina vinnu fullgreidda, og ég vil því undirstrika hér, að hér er ekki um launauppbót að ræða, hér er ekki um þóknun að ræða, heldur er þetta vinna, sem er því miður vanborguð í dag.