03.02.1970
Efri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

115. mál, iðja og iðnaður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fjölyrða mikið um þetta atriði eða fara að upphefja langt karp við hæstv. ráðh. Það má e.t.v. segja og ég býst við, að það sé rétt hjá honum, að í þeim lögum, sem gilt hafa um iðju og iðnað, hafi verið býsna rúm heimildarákvæði til handa ráðh. um leyfisveitingar og að mínum dómi óeðlilega rúm og það er þá ekki sízt til þess að bæta þar um, sem till. okkar er flutt. En aftur á móti hygg ég, að í því frv., sem þessu fylgir og er hér á dagskrá á eftir, frv. um verzlunaratvinnu, sé beinlínis verið að rýmka þær heimildir, sem ráðh. hefur haft, ef þau lög verða samþ. eins og þau liggja nú fyrir. Allri slíkri rýmkun er ég algerlega andvígur og tel raunar, að það hafi verið helzt til rúmt í þessum efnum, að því er snertir a.m.k. lög um iðju og iðnað og legg á það áherzlu, að Alþ. á ekki að láta slíkt vald, eins og þar getur verið um að ræða, í hendurnar á einstökum ráðherra.