21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Nú fer að komast óvæntur og snögglegur botn í þessa deilu okkar hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. lýsti yfir því hér áðan úr þessum ræðustóli, að kostnaður við Búrfellsvirkjun væri núna 3.760 millj. kr. (Gripið fram í.) Kostnaðurinn, eins og hann er áætlaður núna, er þessi. – Hann sagði, að það munaði 10 millj. á þessari tölu og minni og sagðist ekki vita, hvernig reiknaður væri kostnaður á kwst. Það er ósköp einfalt mál. Þær vélar, sem nú eru í stöðinni, geta framleitt sem hámark 840 millj. kwst. Það er ekki annað fyrir hæstv. ráðh. að gera en að deila með þessari tölu í rekstrarkostnaðinn, sem er 10% af byggingarkostnaði. Og þegar hæstv. ráðh. deilir, koma út úr því 45 aurar á kwst. eða kannske brot úr eyri minna, ef hann vill hengja sig í þessar 10 millj., sem ber á milli. Þetta er ósköp einföld staðreynd, sem allir hv. alþm. hljóta að skilja. En við þennan kostnað eiga eftir að bætast vélarnar, sem koma í virkjunina, til þess að hún nái fullum afköstum og miðlunarmannvirkin og þá fer kostnaðurinn, eins og ég hef sagt hér áður, bæði í gær og fyrr í dag, upp í 4.370 millj. kr. En þá hækka afköstin upp í 1.680 millj. kwst. og kostnaðurinn verður, eins og ég sagði, 26 aurar á kwst., þannig að ég held, að það væri ráð fyrir hæstv. ráðh. að taka aftur þau stóru orð, sem hann notaði í fyrstu ræðu sinni. Hann er sjálfur búinn að viðurkenna úr þessum ræðustóli, að þær tölur, sem ég fór með, hafi verið réttar. Sé um einhvern misskilning að ræða í þessu sambandi, er sá misskilningur hjá hæstv. ráðh., en ekki hjá mér, því að sú tala, sem þarna er um að ræða, 3.760 millj. kr., er kostnaðurinn, eins og hann er áætlaður núna, en síðan eiga eftir að bætast þar við þær framkvæmdir, sem óunnar eru.

Það er tilgangslaust fyrir hæstv. ráðh. að standa hér og vitna til fulltrúa Alþb. í Landsvirkjunarstjórn. Þær staðhæfingar, sem hæstv. ráðh. fór með, voru ekki frá Landsvirkjunarstjórn. Þær voru einvörðungu frá framkvæmdastjóranum. Þetta hefur ekki verið borið undir Landsvirkjunarstjórn. En eins og ég sagði áðan, það er í sjálfu sér tilgangslaust að deila um þessa hluti. Þessar staðreyndir verða að liggja fyrir og þessar staðreyndir verða auðvitað ekki faldar til lengdar. Það verður ekki falið til lengdar, að fyrstu 3–4 árin verða þessi viðskipti svo óhagstæð, að hinn erlendi kaupandi greiðir aðeins helminginn af framleiðslukostnaði raforkunnar. Aðeins helminginn! Hinn helminginn verður að greiða með því að láta innlenda neytendur greiða miklu hærra verð fyrir raforkuna. Það verður að skattleggja Íslendinga, til þess að hægt sé að selja útlendingum raforkuna á þessu lága verði. Þessi met jafnast til muna, þegar stöðin fer að starfa með fullum afköstum. En þá eykst líka stórlega raforkumagnið, sem útlendingar kaupa. Hver eyrir, sem skakkar, þýðir stórfelldar upphæðir á ári. 4 aurar, aðeins 4 aurar undir kostnaðarverði, jafngilda 45 millj. kr. á ári.

Þetta eru staðreyndir, sem menn þurfa að velta mjög gaumgæfilega fyrir sér einmitt núna, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur boðað það sem allsherjarbjargráð að semja við útlendinga um fleiri og fleiri slíkar verksmiðjur á Íslandi. Fram hafa komið hugmyndir um að koma upp 6—7 hliðstæðum verksmiðjum á næsta áratug eða svo. Og ekki linnir áróðri fyrir slíkum framkvæmdum í ræðum forystumanna og málgögnum þeirra. En ef viðskiptin eru ekki hagkvæmari en það, að þessir aðilar nýta ekki aðeins orkulindir okkar, heldur verðum við líka að greiða þeim fé fyrir að nota orkuna, þá er mér spurn: Hvernig á framtíð Íslendinga að geta verið fólgin í slíkum viðskiptum? Jafnvel þó að slík viðskipti stæðust og útlendingar greiddu raforkuna á kostnaðarverði, eins og hæstv. ráðh. vill gera sér vonir um, að muni verða eftir nokkur ár, þá felst í þessu það eitt, að erlendir aðilar nýta orkulindir okkar, taka verðmætisaukann og flytja hann mestmegnis úr landi. Orkulindir okkar nýtast þá ekki handa okkur sjálfum til þess að byggja upp sjálfstætt atvinnulíf á Íslandi. Þetta er sams konar iðja og menn þekkja úr nýlendum og hálfnýlendum, þar sem erlendir gróðaaðilar nýta yfirburði sína að fjármagni og tækniþekkingu til þess að hirða arð af auðlindum smærra eða fátækara ríkis. Það alvarlega í þessu er einmitt þessi meginstefna, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki koma auga á neina framtíð aðra, en þá að fela útlendingum að koma upp fleiri og fleiri fyrirtækjum á Íslandi. Hana skortir allt þrek til þess að byggja upp íslenzka atvinnuvegi. Hún telur, að þjóðin geti lifað á því að virkja vatnsföllin og eftirláta útlendingum að hagnýta þau. Þetta eru, eins og þær tölur sýna, sem ég rakti hér í gær, ákaflega slæm viðskipti, léleg hagfræði. En þetta er miklu meira en það. Í þessu felst uppgjöf og vantrú á getu Íslendinga. Í þessu felst sú hætta, að við verðum ekki menn til þess að starfrækja hér sjálfstæða atvinnuvegi, eins og við verðum að gera.

Ég held, að þessi áróður fyrir erlendri stóriðju á Íslandi sé einhver versti óleikur, sem valdamenn geta gert þjóðinni. Nú ríður á allt öðru en þessu. Og ég held, að það væri nærtækara verkefni fyrir hæstv. ráðh. að hugsa sitt mál alvarlega í einrúmi og íhuga, hvort sú stefna, sem hann hefur tekið þátt í að móta, að undanförnu, er ekki röng, hvort reynslan hefur ekki sannað, að hún stenzt ekki og hann hefur þá vonandi manndóm og djörfung til þess að koma fram og viðurkenna það, að reynslan hafi sannað, að þessi viðskipti séu óhagkvæm og að Íslendingar verði að leita annarra og sjálfstæðari leiða til þess að efla atvinnuvegi sína.