27.01.1970
Efri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það stóð nú þannig á, að ég var nauðbeygður til að víkja af fundi, þegar um þetta mál var rætt hér, og þykir mér það mjög miður að hafa ekki heyrt umr. En ég þykist sjá af skjótum yfirlestri á þessari till. frá hv. þm., Kristjáni Thorlacius, hvað hér er um að ræða. Hér er um það að ræða að taka upp í sambandi við þetta mál alveg sérstakt vandamál, sem varðar opinbera starfsmenn og verkamenn, sem ekki eru búsettir á neinu félagssvæði verkalýðsfélaga. Og eftir því sem ég fæ bezt skilið, er það þá meiningin, að þeir sjóðir, sem samið hefur verið um milli Alþýðusambandsins og samtaka vinnuveitenda, taki að sér að veita þessu fólki lífeyrisrétt með þeirri fyrirgreiðslu, sem í l . er annars ákveðin til handa hluta af verkamönnum.

Í sambandi við þetta þykir mér rétt að benda á, að engin erindi um þetta hafa borizt frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til þeirra hagsmunasamtaka, sem hafa samið um þessa frjálsu lífeyrissjóði, er eiga að annast þessar lífeyrisgreiðslur, sem hér er um að ræða, og liggur þess vegna ekkert fyrir um það, hvernig þau mundu taka því. Hér er ekki um lögboðinn lífeyrissjóð að ræða, heldur frjálsan lífeyrissjóð, sem tekur þarna að sér það hlutverk að greiða mjög litlum hluta af verkamönnum, sem ættu með eðlilegum hætti að hafa lífeyrisréttindi, lífeyri um nokkurra ára skeið. Mér þykir reyndar heldur ólíklegt, að verkalýðsfélögin og vinnuveitendasamtökin mundu vilja taka að sér að sjá um lífeyrisgreiðslur til þessara manna, meðan svo stendur á, að þau hafa ekki komið nema mjög takmörkuðum hluta af sínum áhugamálum fram í sambandi við lífeyrisréttindi verkamanna. Þó skal ég ekki taka munninn of fullan um það. En ekkert liggur fyrir um þetta.

Á það má enn fremur benda, að hér er um alveg fastákveðinn samning að ræða, sem hagsmunasamtökin hafa gert, og þess vegna er óeðlilegt að blanda inn í hann öðrum og ég vil segja óskyldum málum. Ég tel það ekki mögulegt, a.m.k. ekki með þeim litla undirbúningi, sem það mál hefur fengið. Á hinn bóginn er auðsætt, að með tilkomu lífeyrissjóða, sem nú eru að taka til starfa, og lífeyrisgreiðslna til nokkurs hluta af verkamönnum skapast nokkurt misrétti innan raða verkafólksins, því þar er ekki um að ræða, að aðrir fái lífeyrisréttindi heldur en þeir, sem unnu til ársloka 1967, þannig að mikill meiri hl. af verkamönnum verður útundan, þrátt fyrir þetta samkomulag. Það skapast líka misræmi gagnvart öðrum, eins og starfsmönnum ríkisins og starfsmönnum bæjarfélaganna, sem svipað stendur á um.

Ég held, að þess vegna sé réttast að taka þetta mál upp sem sérstakt mál, en ekki í beinum tengslum við þessa samninga, sem hér er verið að staðfesta, að því leyti sem þörf er löggjafarstaðfestingar í sambandi við þá. Ég kynni þó að hafa haft aðra afstöðu til málsins, ef þessi málaleitan Bandalagsins hefði komið fyrr fram og hægt hefði verið að ræða hana í Alþýðusambandinu. En svo er ekki. Af þessum ástæðum öllum, sem ég hef rakið, sé ég mér ekki annað fært en segja nei við till. Hins vegar væri ég tilbúinn að styðja þetta, ef það væri tekið upp með öðrum hætti og sem sjálfstætt mál.