20.10.1969
Sameinað þing: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það verður nú ekki mikið sagt á 15 mínútum, enda gerist þess naumast þörf að ræða mikið ræður hv. stjórnarandstæðinga. Hv. þm. Magnús Kjartansson talaði mikið um þreytta menn, bæði í upphafi og endi sinnar ræðu. Það var bæði epilogus og prologus. Ég veit ekki, hvort starfsemi þeirra Alþb.–manna á að vera til andstæðu við þessa þreyttu menn, en ég held, án þess að ég ætli nú að meta neitt þreytu mína eða minna kollega, að það verði að sýna sig, hvað gert er og ekki gert og þjóðin að meta það og þá held ég, að ég vildi heldur fyrir minn flokk a.m.k. biðja um þá þreytu heldur en þá vaxtarverki, sem eru í Alþb., sem maður veit ekki frá degi til dags, hvað er klofið í marga flokka. Og eitthvað sýnist vera bogið við hugsjónir þeirra manna, sem þannig er ástatt með, því að þeir hafa ekki nokkur tök á að samræma skoðanir sínar um það, hvernig eigi að snúast til baráttu gegn þessum þreyttu mönnum.

Það var dálítið fróðlegt að heyra sama ræðumann tala um það, að þetta frv., sem nú lægi hér fyrir, væri ómengað íhaldsfrv., þegar þess er gætt, að um meira en helmingur allrar hækkunar á þessu frv. er til tryggingamála annars vegar og fræðslumála hins vegar. Það er kannske íhald, en einhvern tímann hefði maður nú haldið, að sú kenning kæmi ekki úr þeirri átt. 90 millj. kr. til viðbótar eru til almennrar uppbyggingar og svo er að lokum það, sem á vantar, til að greiða uppbætur á laun opinberra starfsmanna lögum samkv. Varla ætlazt hann til, að það sé svikizt undan því.

Það var mottó beggja þessara hv. þm., að það hefði gleymzt að hugsa um atvinnulífið í þessu fjárlagafrv. Það er rétt, að engir styrkir eru til atvinnuveganna, en það byggist einfaldlega á því, að tekið hefur verið upp kerfi með efnahagsráðstöfunum ríkisstj., sem gerir ráð fyrir því, að atvinnuvegirnir geti starfað styrkjalaust og þess vegna eru ekki veittir styrkir. Það er hins vegar nauðsynlegt að hafa aðhald um ríkisútgjöld til þess að leggja ekki nýja bagga á atvinnuvegina og með þessu frv. er leitazt við að forðast það.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að framleiðslukerfið er undirstaðan að því, að þetta fjárlagafrv. eða önnur geti staðizt. Það gerum við okkur ljóst og ég gerði grein fyrir því í minni framsöguræðu, með hve margvíslegum hætti unnið væri að því að reyna að efla undirstöður atvinnulífsins. En það hljómaði svo dálítið kollhúfulega, þegar hv. þm. eyddi meginhluta sinnar ræðu í það að fjargviðrast yfir þeim ósköpum, að skyldi hafa verið ráðizt í virkjun Þjórsár við Búrfell með sölu til Álbræðslunnar í huga, þar sem jafnvel hans eigin menn hafa verið að hneykslast yfir að undanförnu, að það væri eiginlega dæmalaust, að þetta veitti þó ekki nema 500 manns atvinnu. En hvað ætli væri um okkar atvinnulíf, ef þessu væri ekki sinnt? Nei, þessir ágætu menn verða að opna sín eigin augu. Það erum ekki við, sem erum úr sambandi við fólkið og þróunina. Það erum ekki við, sem neitum að gera áætlanir um hagþróun. Það hafa aldrei verið gerðar fleiri áætlanir um hagþróun á Íslandi heldur en síðustu árin. En það er hagþróun, sem byggist á raunhæfri uppbyggingu, en ekki einhverjum fjarstæðum spekúlasjónum um uppbyggingu, sem ekki er neinn grundvöllur undir, þó að það sé hægt að setja sér til gamans á blað, að það gefi þetta og þetta marga milljarða kr., sem er algerlega út í hött.

Ég skal nú ekki mikið tala um minnkun togaraflotans, sem hv. þm. Magnús Kjartansson minntist á, en ég held, að það væri fróðlegt, að hann spyrði flokksbróður sinn og ég held formann í einni deild Alþb., hv. þm. Lúðvík Jósefsson, hvernig stóð á því, að hann gleymdi að láta smíða togarana, sem hann ætlaði að láta smíða, þegar hann var sjútvrh.

Varðandi það atriði, að það sé einstæð hæð fjárlaga hér á Íslandi, þá er það mikill misskilningur. Það hefur verið reiknað út og athugað, að Íslendingar taka mun minna til opinberra þarfa af þjóðartekjum heldur en margar aðrar þjóðir, sem eru okkur nálægar, þ.á.m. bæði Svíar og Þjóðverjar, sem taka mun hærri prósentutölu. Óhæfilegar, erlendar skuldir minntist hv. þm. einnig á. Ég hef oft á það bent áður, að hér er ekki um að ræða neinar óhæfilegar, erlendar skuldir. Meginhluti allra þeirra lána, sem tekin hafa verið síðustu árin, hafa verið tekin til þess að undirbyggja nýja framleiðslu í landinu, sem á komandi árum á eftir að stórauka okkar gjaldeyristekjur, þannig að baggi okkar af þessum skuldum mun ekki verða tilfinnanlegur og engin hætta að taka slík lán, sem miða að því að byggja upp nýja framleiðslu í landinu. Hv. þm. Magnús Kjartansson sagði, að tekjuskattur félaga væri sáralítill, en þó ætti þetta, skildist mér, að hlynna að auðmönnum. Það hefur ekki verið breytt tekjuskatti félaga og ástæðan til þess, að tekjuskattur félaga er svona lítill, stafar þá væntanlega af því, að það er ekki meiri arður, sem félögin hafa. Og það er áhyggjuefni út af fyrir sig, að félögin skuli ekki hafa meiri tekjuskatt, því að það sýnir, hve afkoma þeirra er léleg og hve þessir erfiðleikar allir að undanförnu hafa gengið nærri þeim.

Hv. þm. Halldór E. Sigurðsson kom hér fram sem rödd þjóðarinnar, sú rödd að því leyti, að þar átti að vera eitthvað fyrir alla. Það átti að byggja vegi og taka allar tekjur af umferðinni til þess að byggja vegina, – annað var fjarstæða. Það átti að hækka persónufrádrátt, það átti að auka afskriftir fyrirtækja og það átti að auka framlög til alls konar sjóða, það átti að efla verklegar framkvæmdir og ég held, sannast sagna, að fátt af þessu hafi gleymzt að telja upp, sem hljómaði fallega fyrir fólkið. Hins vegar var það fráleitt, sem hafði þó verið reynt að gera, að taka lán til þess að hrinda áleiðis framkvæmdum og allt var þetta á eina bókina lært. Ég satt að segja skil ekki og ég held ekki, að þetta sé rödd þjóðarinnar. Ég held, að þjóðin skilji allt of vel, að það verður að vera samræmi í þessum hlutum. Hv. þm. vill ekki hærri skatta, en hann vill miklu meiri framkvæmdir. Hvernig á að samrýma þetta jafnframt því, sem hann fordæmir skuldasöfnun ríkisins og að við höfum verið með yfirdrátt við Seðlabanka? Ég fæ ekki skilið þetta og ég held, að það séu fáir af þjóðinni, nema kannske í hans eigin þrönga hring í Framsfl., sem skilja svona speki. Ég held, að menn verði að læra það og það er furðulegt, að jafnreyndur maður og hv. þm. skuli ekki gera sér grein fyrir því, að svona boðskap er ekki hægt að flytja, þetta er út í hött. Auðvitað er það ánægjulegt, að við getum byggt meira af vegum, ef við höfum peninga til þess og það mátti ekki einu sinni taka lán til þeirra. Og það er vissulega æskilegt, að við getum stórhækkað meira skattvísitölu. Það er nú rangt að vísu, að hún hafi verið óbreytt í þrjú ár, heldur aðeins tvö ár og það er fyrirhugað nú eftir frv., eins og það liggur fyrir, að hækka skattvísitölu. Og það væri vissulega ágætt að auka afskriftir fyrirtækja, þó að ég viti ekki, hvernig það fellur saman við stefnu samherja hans, hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, þegar hann segir, að það sé allt of lítið, sem atvinnureksturinn greiðir í skatta. En þetta getur bara ekki farið saman. Hv. þm. gerði sér það til dundurs, sem var út af fyrir sig ósköp skemmtilegt, að komast að þeirri niðurstöðu, að fjárl. yrðu komin upp í 1.000 milljarða árið 2000. Mér skildist þá eftir því að dæma, að hann reiknaði með, að það yrði sama stjórn til ársins 2000, því að varla ætla þeir að halda áfram á sömu braut með þessa þróun. Svona hugvekjur geta kannske verið gaman fyrir þá, sem hafa gaman af að setja saman svona púsluspil, en ekki er þetta nú sérlega uppbyggilegt, þegar verið er að tala um jafnalvarlegt mál og efnahagsþróun og fjármál íslenzka ríkisins. Hann minntist á það, að þetta frv. til fjárl. hafi verið samið af mönnum, sem ekkert samband hafa haft við þjóðlífið, en þessir hv. þm., þeir hafi haft þetta mikla samband. Ég læt mönnum eftir að dæma það.

Ég hef ekki heyrt af ræðum þessara hv. þm., að neitt af því, sem er í núv. fjárlagafrv., eigi ekki að standa þar, né heldur hef ég heyrt nein rök fyrir því, utan fullyrðingar út í hött, að þar eigi að standa eitthvað, sem þar sé ekki og það er ekki rétt að taka það alvarlega, nema þeir sömu hv. þm. segi, hvað á að fella út eða hvort á að leggja á nýja skatta. En það er forðazt sem heitan eldinn, þannig að ekkert af þessu er í rauninni hægt að taka alvarlega.

Þegar hv. þm. Halldór E. Sigurðsson talar um og breiðir úr sér um sparnað, þá vil ég vekja athygli á því, að þessi hv. þm. hefur verið í sparnaðarnefnd nú í 2 ár og ég veit ekki til, að það hafi gerzt nein stórvirki í sambandi við hans störf. Ég sagði í fjárlagaræðu minni áðan, að ég þakkaði honum og fulltrúa Alþb. þar fyrir það að hafa þar staðið drengilega að þeim athugunum, sem gerðar hafa verið á einstökum atriðum. En það hafa ekki komið nein ný sannindi frá þessum ágætu mönnum og það er ekkert, sem frá þeim hefur komið, sem bendir til neinnar gerbyltingar í rekstrarkerfi ríkisins. Allt, sem hv. þm. taldi upp hér áðan, voru málefni, sem hafa verið í athugun og flest þeirra hafa komið til að frumkvæði ráðuneytisins.

Varðandi það, sem hv. þm. Halldór E. Sigurðsson sagði um Atvinnujöfnunarsjóð. Hann veit það mæta vel, að ástæðan til þess, að sú fjárveiting er felld niður, er sú, að 30 millj. af því, sem fór til sjóðsins nú í ár, var til þess að taka þátt í stuðningi við hraðfrystihúsin, til húsa, sem Fiskveiðasjóður gat ekki leyst samkv. löggjöf um það efni varðandi þessa aðstoð, sem sett var fyrir tveimur árum og þessari aðstoð er nú lokið. Og þess vegna var þessi upphæð felld út, því að þetta var eins skiptis aðstoð. Þá skil ég ekki í hv. þm. að halda því fram, að það væri ekki ætlunin að hjálpa bændum á Suðurlandi, þó að það stæði ekki í fjárlagafrv. Ég tók það skýrt fram áðan, að ástæðan til þess, að það stæði ekki þar, væri beinlínis sú, að það hafi ekki legið fyrir neinar endanlegar niðurstöður um það, hversu mikil þessi aðstoð þyrfti að vera. En ég tók það skýrt fram, að þessi aðstoð mundi verða veitt.

Hann taldi það ákaflega fráleitt að selja Esju. Esja er ónýtt skip og það er kannske framfarastefna Framsfl. að gera út skip, sem eru að því komin að sökkva. En stefna ríkisstj. hefur verið sú að byggja ný skip og setja í staðinn fyrir Esju. Og það er það, sem verið er að gera.

Varðandi fsp. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar um kostnað við Þjórsárvirkjun, þá hef ég ekki tölur um það atriði hér og ég býst varla við, að hann geri ráð fyrir því. Því verður áreiðanlega hægt að svara á öðrum vettvangi, því að ég býst við, að maður lesi þennan kafla ræðu hans í Þjóðviljanum einhvern næstu daga og þá sé hægt að koma við svörum við þeim fullyrðingum. Um Ártúnsbrekkuna er það að segja, að það er mjög gleðilegt og sýnir hversu pósitívt það er að bjóða út verk. Það er rétt, að það var samið við Íslenzka aðalverktaka um hluta af verkinu. Hvort það hefur haft í för með sér tap eða ekki, þori ég ekki að fullyrða um, en eins og sakir stóðu þá var ekki talið, að aðrir aðilar gætu tekið að sér það verk miðað við allar aðstæður, vélakost, sem til þess þurfti og fé, sem þurfti að tryggja sér í því sambandi. Það var mat þeirra manna, sem að því stóðu þá. Hvort það hefur verið hægt að fá það með einhverju móti eða öðrum hætti skal ég ekki fullyrða um. Ég hef ekki kannað það mál til hlítar. En það er hins vegar skoðun mín, að það eigi almennt að bjóða út verk og það hefur sýnt sig nú einmitt síðasta árið aðallega, þegar spennan fer að minnka á vinnumarkaðinum hjá verktökunum, að þá eru tilboðin með allt öðrum hætti og miklu lægri en áður.

Varðandi dylgjur hv. þm. um það, að það væri verið með einhverjum pólitískum hlunnindum að halda uppi þremur fyrirtækjum, Álafossi, Sana og Slippstöðinni á Akureyri, þá er það mesti misskilningur. Ég hef sagt hér í Alþ. frá þeim atriðum varðandi bæði Álafoss og Slippstöðina, sem ég býst við, að hv. þm. hafi hlustað á. Og þar er um það að ræða að bjarga mjög þýðingarmiklum fyrirtækjum, en ekki að þar sé neitt skandalamál á bak við. Um Sana er það að segja, sem rétt er og má segja, að sé eða hafi verið óhæfa, að það hafði verið dregið að innheimta þar tollaskuldir eða framleiðslugjaldsskuldir, sem höfðu safnazt fyrir, en ríkið hefur ekki lagt þar fram eitt né neitt fé, heldur er spurningin um það, sem unnið er að, hvernig sé hægt að tryggja það að ná þessum peningum frá þessu fyrirtæki, en tapa ekki fénu.

Nei. Ég held, að við komumst ekki langt áleiðis með að leysa okkar vandamál, hvorki varðandi setningu fjárl. né lausn annarra vandamála, ef hv. stjórnarandstæðingar læra ekki að umgangast staðreyndir betur heldur en þeir gerðu í þessum ræðum sínum hér og reyna ekki að viðurkenna þau grundvallarlögmál, sem uppbygging atvinnuvega og efling framtaks og framfara hér á þessu landi byggist á. Staðreyndirnar sýna það, eins og ég sagði í minni frumræðu, að við höfum á ótrúlega skömmum tíma tekið að rétta við eftir geysilega erfiðleika í okkar atvinnulífi og það liggja þegar fyrir ljósar staðreyndir þess, sem eru öllum almenningi ljósar og ég hygg miklu ljósari þjóðinni heldur en þeim, sem telja sig hér tala í umboði þjóðarinnar, að þar hefur verið rétt stefnt. Það er þegar farið að skila þeim árangri í alhliða þrótti og nýrri blóðgjöf til atvinnuveganna á öllum sviðum, að það er sannarlega gleðilegt. Ég er ekki að gera meira úr því en ástæða er til. Það eru ábyggilega margir erfiðleikar, sem þarf að yfirstíga, en þeir verða ekki yfirstignir með því fádæma óraunsæi og tali út í loftið, sem að því er ég fæ séð gerir ekki annað en reyna að þóknast einhverjum, sem ekki hugsa allt of djúpt og reyna ekki að kryfja hlutina til mergjar, það leysir ekki þjóðfélagsvandamálin og ef hv. stjórnarandstæðingar ætla að komast til valda fyrir árið 2000, þá held ég, að þeir verði að taka upp aðrar kenningar heldur en þeir beita nú, jafnvel þótt við kunnum að vera þreyttir menn, sem sitjum í ráðherrastólunum nú. Það er engin nauðsyn, að við sitjum þar, það geta aðrir samherjar okkar setzt þar og ég held, að þeir munu gera það og það muni verða haldið áfram á þeirri sömu braut, sem mörkuð hefur verið, því að það eru meira að segja líkur til þess að tryggja þá velmegun, sem ég veit, að við erum allir sammála um, að við viljum tryggja okkar þjóð. Hún verður ekki tryggð með tali út í loftið, heldur með verkum og athöfnum, þar sem byggt er á raunhæfum grundvelli og réttum skilningi á öllum staðreyndum.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, um leið og ég býð góða nótt, að óska þess, að efnahagsmál okkar megi öll þróast í þá átt, að þau geti orðið til þess að undirbyggja það, að íslenzka þjóðin geti búið við sambærileg lífskjör og aðrar þróaðar þjóðir búa við. Það hlýtur að vera stefna og það er skylda allra þeirra, sem um stjórnvöl halda, hvaða flokkum, sem þeir tilheyra, að starfa að slíku. Það vill núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar gera og það er vissulega með þeim vilja, sem hún gengur til starfa.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari 1. umr. um fjárlagafrv. verði frestað og því verði vísað til fjvn.