23.03.1970
Efri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Iðnn. Ed. hefur haft til athugunar frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík, 96. mál Nd. N. gat ekki orðið sammála. Meiri hl. skilaði áliti á þskj. 450 og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Viðaukasamningur sá, sem hér um ræðir, við Swiss Aluminium er efnislega tvenns konar: Ákvæði eru um stækkun álbræðslu ÍSALs við Straumsvík um 1/6 hluta, eða um 10–11 þús. tonna afkastaaukningu fram yfir það, sem áður var ráð fyrir gert. Einnig eru ákvæði um að flýta fullnaðarframkvæmdum um 3 ár.

Mál þetta hefur svo mjög verið rætt í blöðum og hér á hæstv. Alþ. sérstaklega, hvað raforkuverðinu viðkemur, að óþarft virðist vera að fara út í einstök efnisatriði. Að dómi meiri hl. iðnn. er alveg auðsætt, að orkusalan til ÍSALs er undirstaða Búrfellsvirkjunar, og því eitt mesta happaspor, sem stigið hefur verið fram á veg til þess að viðhalda og bæta lífskjör þjóðarinnar. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á það með óyggjandi rökum, að Búrfellsvirkjun hefði fjárhagslega verið algjörlega vonlaus án álbræðslunnar, auk þess sem þessar framkvæmdir hafa komið inn á það tímabil, þegar aðalatvinnugrein landsmanna, sjávarútvegurinn, var í algjöru lágmarki. Atvinnuaukningin ein er því mikils virði á þessu tímabili, sem framkvæmdir hafa staðið yfir. Framtíðaratvinna 500 manna við álbræðsluverið er mikið atriði. Í þriðja lagi má benda á, hversu hafnarframkvæmdirnar í Straumsvík eru mikils virði fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, sem er eigandi hafnarinnar og fær hana að fullu greidda með hafnargjöldum álbræðslunnar á 15 árum, en áður var gengið út frá, að ÍSAL greiddi stofnkostnað hafnarinnar á 25 árum.

Eins og segir í athugasemdum með frv., þá er nú gert ráð fyrir, að álbræðslan verði fullgerð í sept. 1972, en áður var ráðgert að það yrði 1975. Í sept. 1972 verður því þetta glæsilega iðnaðarfyrirtæki komið með 70–77 þús. lesta álframleiðslu á ári. Áætla má, að Norðmenn, sem nú hafa líklega 500–600 þús. smál. ársframleiðslu, verði einnig að bæta mjög við sín afköst, svo erfitt verður fyrir okkur Íslendinga að ná þeim miðað við íbúafjölda, nema þegar hugsað verður fyrir enn meiri stækkunum, sem reyndar er alveg nauðsynlegt.

Það er ekki hægt að skilja svo við þetta mál, álbræðslumálið, svo mjög sem það hefur verið mistúlkað, að ekki sé undirstrikað, hversu Íslendingar fá mikla fjármuni fyrir raforkusölu þarna í Straumsvík og vinnutekjur. Bein greiðsla álbræðslunnar, sem tekur yfir tímabil álsamningsins, 25 ár, er skv. grg. frv. til iðnlánasjóðs um 160 millj. kr., til Hafnarfjarðarkaupstaðar um 800 millj. kr. og til atvinnujöfnunarsjóðs nær 3000 millj. kr.

Ég hef ekki farið í grafgötur með það hér á hæstv. Alþ., að mitt álit er það, að bygging álbræðslunnar við Straumsvík og framkvæmdirnar við Búrfell og við höfnina í Straumsvík eru eitt hið mesta happaspor sem íslenzka þjóðin hefur stigið. Það er von mín, að nú verði ekki látið staðar numið. Þegar ættu að vera í gangi athuganir um fleiri álbræðslur og stærri. Það er engin goðgá að hugsa sér að setja því 5–10 ára takmark, að reistar verði álbræðslur bæði á Norðurlandi og Austurlandi, og að sjálfsögðu virkjanir, sem hæfa þessari stóriðju. Mér þætti það líklegt, að hæstv. ríkisstj. hugsaði svipað, og ég vænti þess að heyra um fyrirætlanir hennar áður en þessu Alþingi lýkur.

Það er enginn vafi á því, að álið er framtíðarmálmur, eftirspurn eftir því hefur aukizt meira en menn gat órað fyrir. Það er þó ekki vafi á því, að kjarnorkan kemur til með að keppa við vatnsföll okkar Íslendinga. Við skulum því ekki flýta okkur hægt. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar sýna bezt, að þm. hennar gera sér það ljóst, að frekari framfarir á sviði áliðnaðar geta orðið til að festa núverandi valdhafa enn betur í sessi, og það er líklega þess vegna, sem þeir telja sig vera á móti málinu.