23.03.1970
Efri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

166. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd., sem lauk afgreiðslu þess nú rétt fyrir helgina. Við umr. í þeirri d. komu fram þær skoðanir, að bætur þyrftu að hækka mun meira heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir, og hygg ég, að allir geti verið sammála um það, þó að menn kannske kynni að greina á um það, hvaðan taka ætti þá fjármuni, sem það mundi kosta. Hins vegar er hér um nokkra lagfæringu að ræða á bótafjárhæðum, sem þar eru nefndar og glögglega er frá skýrt í aths. við frv.

Ég tel, að ekki sé þörf á að hafa um þetta frv. mörg orð. Sannleikurinn er sá, að bætur þyrftu, eins og kom fram í umr. í hv. Nd., að hækka mun meira, ef þær ættu að vera sú hjálp, sem menn vilja að tryggingarnar séu, en vegna ýmissa aðsteðjandi erfiðleika í efnahagslífi okkar á undanförnum árum hefur ekki verið talið fært að gera meira í þeim efnum heldur en gert er ráð fyrir með þessu frv. og álíka frv., sem flutt hafa verið undanfarin ár. Það ber brýna nauðsyn til að afgreiða þetta frv. nú, áður en páskahlé verður gert, vegna þess að þessar umræddu hækkanir á bótunum eiga að koma til framkvæmda frá og með 1. apríl n.k., en sá tími rennur út, áður en þing kemur saman að nýju. Ég vildi því eindregið mælast til þess við þá hv. n., sem fær frv. til meðferðar, að hún hraði störfum sínum svo, að unnt verði að ljúka afgreiðslu þessa máls, áður en þm. fara í páskaleyfi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.