16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1970

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Forsetar Alþ. hafa leyft sér að flytja brtt. á þskj. 185 við frv. til fjárl. fyrir árið 1970 um að ríkisstj. verði heimilað í samráði við þingforseta að ráða listamann til þess að gera málverk af lýðveldisstofnuninni á Þingvöllum 17. júní árið 1944 og verja nauðsynlegu fé í því skyni. Það mun sameiginleg skoðun allra hv. alþm., að sá atburður sé einn hinn merkasti í sögu Alþ. og íslenzku þjóðarinnar. En löng barátta lá að baki þeim sigri, sem vannst með lýðveldisstofnuninni. Stefnufestu þjóðarinnar sjálfrar og glæsilega forystu mikilla leiðtoga ber hæst í sögu þessarar löngu baráttu. Okkur, sem nú lifum, ber skylda til þess að hafa þessa sögu í heiðri. Þess vegna fer vel á því, að hinn sögulegi atburður, sem gerðist á Lögbergi 17. júní 1944 sé ekki aðeins skráður í bók og blöð heldur einnig í liti og list. Fagurt málverk af lýðveldisstofnuninni varðveitir minninguna um frelsistökuna með sínum sérstæða hætti fram um aldirnar. Ég treysti íslenzkum listamönnum til þess að vinna þetta verk með sæmd. Málverkið af þjóðfundinum 1851, sem prýtt hefur sali þingsins hátt í 2 áratugi, er merkilegt brautryðjandaverk og listamaðurinn, sem vann það, Gunnlaugur heitinn Blöndal, hefur með því vísað veginn til framtíðarinnar.

Alþ. hefur oft vanrækt sjálft sig að því er varðar starfsaðstöðu og rækt við sögu sína og tákn þeirra miklu minninga, sem tengdar eru við störf þess og baráttu. Nefna má, að það er ekki vansalaust, að þingið skuli ekki eiga eitt einasta málverk frá Þingvöllum, þar sem fundir þess voru þó haldnir í tæp 900 ár. Úr þessu verður að bæta. Málverkið af þjóðfundinum verður að marka þáttaskil í þessum efnum. Næst kemur málverk frá Lögbergi 17. júní 1944. En vel færi einnig á því, að kristnitakan árið 1000 yrði fest í liti og minningunni um speki og framsýni Þorgeirs Ljósvetningagoða þar með sýndur verðugur sómi. Söguleg málverk af Alþ. 1904, þegar heimastjórn var fengin og af sambandslagaþinginu 1918 eru einnig sjálfsögð.

Einhverjir kunna að segja, að í þessu gamla og þrönga þinghúsi sé lítið rúm fyrir listaverk. En því er þar til að svara að bygging nýs þinghúss hlýtur að vera á næsta leiti. Ákvörðun um staðsetningu þess verður ekki slegið á frest öllu lengur.

Kjarni málsins er, að þótt Alþ. hafi verið og sé önnum kafið við efnahagslega og menningarlega uppbyggingu hins íslenzka þjóðfélags getur það ekki lengur látið undan fallast að sýna aukna rækt við elztu og sögufrægustu stofnun þjóðarinnar.

Að svo mæltu leyfi ég mér, fyrir hönd okkar flm. þessarar till., að mælast til þess við hv. þingheim, að hann veiti henni brautargengi.