27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

11. mál, skipun prestakalla

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. kirkjumrh. hefur gert grein fyrir frv. til l. um skipun prestakalla, prófastsdæma og kristnisjóðs. Ég ætla aðeins að ræða lítils háttar um þetta mál nú við 1. umr., til þess að sú n., sem fær málið, geti tekið til greina að einhverju leyti þær ábendingar, sem ég hef fram að færa við frv. þetta.

Það hefur yfirleitt á undanförnum árum eða áratugum verið sú þróun í landinu, að prestum hefur fækkað úti á landsbyggðinni, en aftur á móti fjölgað í þéttbýlinu. Það er alltaf viðkvæmt mál, þegar prestaköll eru lögð niður, og það má lengi deila um það, hvar prestssetur eigi að vera og hvað prestaköll eigi að heita. Núna er tekin upp ný stefna í þessum málum, þannig að samkvæmt 6., 7., 8. og 9. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir ýmiss konar þjónustu af hálfu prestvígðra manna, og skulu þessir menn, flestir eða allir, launaðir af ríkinu, en mér skilst, að þeir skuli vera í þéttbýlinu og þá einkum í Reykjavík, en það er hægt að grípa til þeirra til þjónustustarfa annars staðar á landinu, ef þess þarf með. Eigi skal ég gera minna úr þessum prestum en öðrum, en grunur minn er sá, að þeim muni á næstu árum fjölga ört, en hinum fækka, sem hafa föst búsetuskilyrði úti á landsbyggðinni. Það er þannig búið að fólki í dreifðum byggðum um þessar mundir, að þar verða fáir fastir í sessi, og má þar nefna læknana, því að læknisþjónustan hefur verið víða óviðunandi, sakir þess að það hafa ekki fengizt læknar til þess að vera þar sem eru lögákveðin læknishéruð. Grunur minn er sá, að þannig muni einnig fara með prestana, að þeir uni ekki úti í dreifðum byggðum landsins og það verði því í ríkari mæli en verið hefur að grípa til annarra ráða eða fá presta úr þéttbýlinu til þess að þjóna úti á landsbyggðinni. Þessi hefur þróun mála verið, og það virðist líka vera gert ráð fyrir henni í stærri stíl samkv. þessu frv. en verið hefur að því er varðar prestastétt landsins.

Ég hef einkum við þetta frv. það að athuga, að þar sem ég þekki til, finnst mér, að einu af virðulegustu og elztu prestssetrum landsins sé gert lágt undir höfði með því að strika það algerlega út sem prestssetur og sem prestakall, en það er Hvammur í Dölum. Það er vitað mál, að ein merkasta landnámskonan, Auður djúpúðga, nam land í Hvammi og bjó þar til æviloka. Hún var kona kristin og stundaði bænahald, sem ekki var títt á þeim árum. Það er líka vitað mál, að kirkja hefur verið í Hvammi í aldaraðir, og það er einnig vitað, að þar hafa búið prestar í aldaraðir. Hvammur er því sá staður í sögu kristninnar og kirkjunnar, að manni verður á að spyrja, þegar litið er á frv. þetta, hvort það sé samið af mönnum, sem nokkurs meta kristna trú, kirkjurækni og helga staði. Í mínum augum er Hvammur í Dölum í fremstu röð innan kirkju og kristni hér á landi. Því vil ég beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að þótt svo fari að Hvammsprestakall verði lagt niður í því formi, sem það nú er, þá geti hið nýja prestakall eftir sem áður heitið Hvammsprestakall með prestssetri í Hvammi.

Sá prestur, sem nú þjónar í Hvammi og situr að Hvoli í Saurbæ, vill frekar sitja þar áfram en flytja að Hvammi, og þá skilst mér, að samkvæmt þessu frv. geti biskup ásamt hæstv. kirkjumrh. komið því þannig fyrir, að presturinn sitji að Hvoli, meðan hann óskar þess, en þegar nýr prestur kemur, flytji hann að Hvammi. Það sætir furðu, að Hvammur skuli ekki vera prestssetur áfram, þegar á það er litið, að staðurinn er í miðju Dalahéraði og sá staður, sem frekast kemur til greina, ef Dalasýsla verður í framtíðinni eitt prestakall, eins og maður getur vel hugsað sér samkvæmt þeirri þróun, sem verið hefur í þessum málefnum á undanförnum áratugum. Þá vil ég minna á það, að Hvammur er mjög skammt frá þeim þremur skólasetrum, sem eru í Dalasýslu. Það er húsmæðraskólinn á Staðarfelli, barna- og unglingaskólinn á Laugum og barna- og unglingaskólinn í Búðardal. Prestur, sem situr í Hvammi, á því vegalengda vegna, og án þess að þurfa yfir fjallveg að fara, að eiga létt með að kenna við þessa skóla og heimsækja þá við ýmis önnur tækifæri og hafa þannig samband við æsku landsins, sem er nauðsynlegt fyrir þá, sem eru boðberar kristinnar trúar. Þá vil ég á það benda, að Hvammur er ágæt bújörð, vel upp byggð, og þar hafa búið ágætu búi margir prestar á undanförnum öldum. En aðalatriðið fyrir mér er ekki það, að prestar sinni búskap, þótt ég telji það vera þeim bæði styrk og stoð í starfi sínu að yrkja jörðina og umgangast búfé. Það geta aðrir stundað búskap á prestssetrum en prestarnir. En það þarf að ganga þannig frá þeim málum, að ábúð sé trygg og prestssetur vel setin. Þetta vil ég biðja hv. n. að athuga m.a.

Þetta frv. fjallar einnig um svokallaðan kristnisjóð, en hlutverk hans er margþætt, eins og fram kemur í 21. gr. frv. En 4. liður þessarar gr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Að veita fátækum söfnuðum starfsskilyrði, einkum á þeim stöðum, þar sem prestaköll hafa verið sameinuð og kirkjuleg þjónusta er sérstökum erfiðleikum háð.“ Því miður eru þeir söfnuðir allt of margir hér á landi, sem eru fátækir að veraldarauði og hafa mjög slæm starfsskilyrði. Það má heita útilokað fyrir þessa fámennu söfnuði að endurreisa kirkjur, nema binda sér og komandi kynslóðum allt of þunga fjárhagsbagga. Þess vegna er nauðsynlegt að hugleiða það í leiðinni, hvort kristnisjóðurinn geti ekki orðið til verulegrar aðstoðar fátækum og fámennum söfnuðum, sem þurfa og vilja byggja kirkjur.

Ég ætla ekki að orðlengja mál mitt frekar nú, en ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, taki til greina þau fáu atriði, sem ég hef hér nefnt, því að þetta er ekki einungis mitt alvörumál, heldur og margra annarra, sem þarna eiga hlut að máli. Og ég vænti þess, að hv. Alþ. eigi eftir að sýna það, að það meti ekki Hvamm í Dölum minna en það hefur metið aðra kirkjunnar staði á landinu, eins og t.d. Skálholt, og ýmsa fleiri mætti nefna.