25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram, leggur meiri hl. sjútvn. til, að frv. verði samþ. óbreytt, en það eru stuðningsmenn ríkisstj. í n. Við, sem erum í minni hl. í sjútvn., teljum hins vegar, að það þurfi að gera á þessu frv. talsverðar breyt. Við skilum sameiginlegu áliti, ég og hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, en okkar nál. hefur ekki verið prentað eða því útbýtt, og skal ég því gera hér lauslega grein fyrir okkar afstöðu til málsins og þá einnig grein fyrir þeim till., sem við flytjum við frv., sem verða að flytjast hér sem skriflegar till., þar sem þær eru ekki komnar úr prentun enn þá.

Afstaða okkar er sú, að við teljum, að með þessu frv. sé allt of skammt gengið til þess að takast á við það mikla verkefni að endurnýja togaraflota landsmanna. Hér er aðeins um það að ræða að heimila ríkisstj. að efna til smiði á sex skipum af tiltekinni stærð, sem gerð er grein fyrir í grg. frv., en þessi skip eru rétt rúmlega 1000 rúmlestir að stærð. Það er gert ráð fyrir því í frv., að ríkisstj. geti veitt ríkisábyrgð fyrir lánum vegna þessara skipa, sem nemur 80% af kostnaðarverði skipanna. Auk þess megi leggja fram úr ríkissjóði sem nemur 7.5% af byggingarverði skipanna með þeim hætti, að það framlag verði ekki krafið frá eigendum skipanna, fyrr en aðalstofnlán skipanna hafa verið greidd upp eða fyrr en eftir 18 ára lánstíma, og þá verði þetta framlag innheimt að vísu aftur, en þó án vaxta.

Þetta eru í stórum dráttum þær fyrirgreiðslur, sem veittar eru samkvæmt þessu frv., og eru þær eingöngu bundnar við sex skip af þessari tilteknu stærð. Það er skoðun okkar hv. 2. þm. Reykn., að í þessu frv. eigi að gera ráð fyrir heimildum handa ríkisstj., sem væru allmiklu víðtækari en þessi heimild er. Við teljum, að í fyrsta lagi eigi að veita ríkisstj. heimild til þess að láta smíða 12 skip af stærðinni 1000–1200 rúmlestir, eða sem sagt af svipaðri stærð og fjallað er um í frv. Í öðru lagi leggjum við einnig til, að ríkisstj. verði falið að beita sér fyrir, að smíðaðir verði átta skuttogarar nokkru minni, eða af stærðinni 500–700 rúmlestir, og þeir verði aðnjótandi sömu hlunnindalána og gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. Þá leggjum við einnig til, að tekið verði upp ákvæði í frv. um það, að í þeim tilvikum, þar sem um er að ræða bæjar- eða sveitarfélag eða útgerðarfélag, sem bæjar- eða sveitarfélag er verulegur aðili að, sé heimilt að veita sérstaka fyrirgreiðslu, sem nemi 10% af kostnaðarverði skipanna, og sú upphæð verði ekki innheimt fyrr en aðalstofnlánið hefur verið borgað upp og án vaxta. Í fjórða lagi leggjum við til, að ríkisstj. verði með þessu frv. einnig heimilað að ábyrgjast allt að 90% af kostnaðarverði verksmiðjutogara fyrir Úthaf hf. gegn fullnægjandi tryggingu. En þar reiknum við með, að keypt verði eitt skip af skuttogaragerð, sem sé á stærðarbilinu 2500–3000 rúmlestir.

Við þetta miðast okkar till. Það er sem sagt okkar skoðun, að þegar á að takast á við þetta mikla vandamál, endurnýjun togaraflotans, þá sé rétt að gera hér ráð fyrir því, að keypt verði um tólf skip af um 1000 rúmlesta stærð, átta skip, sem séu nokkru minni, 500–700 rúmlestir, og eitt verksmiðjuskip. Þetta verði sá áfangi, sem miðað verði við nú í þeim heimildum, sem ríkisstj. fær í sambandi við endurnýjun togaraflotans. Við teljum, að það sé allsendis ófullnægjandi að miða framkvæmdir við endurnýjun togaraflotans nú einvörðungu við það að kaupa um 1000 rúmlesta skip og aðeins sex skip. Það er alveg gefið mál, að skip af þeirri stærð mundu vera rekin í öllum aðalatriðum svipað því og stærstu togarar okkar eru reknir nú. Þau skip mundu oftast nær selja afla sinn á erlendum ísfiskmarkaði og varla landa hér fiski til vinnslu innanlands, nema þegar illa stendur á með markað erlendis. En við álítum, að það væri mjög hagkvæmt, eins og komið hefur fram hjá ýmsum aðilum hér í landinu, að það væru byggðir nokkrir skuttogarar af minni stærð, sem þó eru hreint ekki svo lítil skip, skip á milli 500 og 700 rúmlestir að stærð. En það eru skip, sem eru nærri því að vera jafnstór og nýsköpunartogararnir okkar eru. Skip af þeirri stærð mundu henta miklu betur til þess að afla hráefnis fyrir fiskvinnsluna í landi en stóru skipin, og við álitum því, að það þurfi nauðsynlega að gera ráðstafanir til þess að létta undir með aðilum til þess að kaupa slík skip einnig.

Þessar tillögur okkar eru miðaðar við átök til endurnýjunar togaraútgerðarinnar. En okkar till. fjalla ekki á neinn hátt um það að gera sérstakar ráðstafanir til þess að auðvelda, frekar en nú er, kaup á minni skipum eða bátum. Ég viðurkenni þó fyllilega, að það getur verið þörf á því, að það komi til nokkur viðbótaraðstoð við það, sem nú er, en þó eiga þeir kost á því, sem byggja skip eða báta innanlands, að fá lán, sem nema í kringum 90% af kostnaðarverði, en lánsupphæðin er nokkru lægri, þegar skipin eru smíðuð erlendis. Ég álít fyrir mitt leyti, að það sé ekki æskilegt að blanda því máli, sem snertir stuðning við bátaflotann, saman við það mál, sem hér er á ferðinni, en það snertir uppbyggingu togaraútgerðarinnar. Hins vegar vil ég leggja á það áherzlu, að skuttogarar af þeirri stærð, sem okkar till. fjalla um, 500–700 rúmlestir, eru í öllum aðalatriðum togarar, en ekki af þeirri gerð, sem við venjulega flokkum undir okkar báta. Hér er um að ræða skip, sem þarf að smíða sem togara og verða einnig rekin þannig, og það skilur vitanlega talsvert mikið á milli þeirra og bátanna almennt. Því tel ég fyllilega réttmætt, að skuttogarar af þessari stærð njóti sömu fyrirgreiðslu og stærri skipin eiga að njóta.

Ég hef heyrt þær viðbárur, að ekki hafi þótt rétt að taka upp í þetta frv. neinar heimildir til stuðnings við skuttogara af þessari stærð, 500–700 rúmlestir, vegna þess, að verði veitt fyrirgreiðsla til þess að kaupa slík skip, þá sé svo erfitt að átta sig á því, hvar skuli draga línuna á milli togara og báta. En ég álít, að skip af þessari gerð, svipaðri stærð og okkar togarar margir eru nú, eigi tvímælalaust að flokkast undir togarana og það þurfi ekki að sýna neina tregðu við að veita hliðstæða fyrirgreiðslu til kaupa á slíkri stærð á skipum, þó að menn hiki jafnvel eitthvað við að auka við fyrirgreiðslu til kaupa á almennri bátastærð.

Till. okkar, sem við leggjum hér fram, eða okkar nál. verða að flytjast hér skriflega. Ég skal nú lesa þær yfir og ljúka þar með máli mínu. Þær eru þannig:

Í fyrsta lagi: 1. gr. frv., 1. mgr., orðist svo:

Ríkisstj. er heimilt að láta smíða allt að 12 skuttogara, 1000–1200 rúmlesta að stærð, í þeim tilgangi, að þeir verði seldir einstaklingum, félögum eða bæjar- og sveitarfélögum.

Önnur till. okkar er að ný mgr. komi á eftir 1. mgr., svo hljóðandi: Ríkisstj. skal jafnframt beita sér fyrir, að smíðaðir verði allt að 8 skuttogarar 500–700 rúmlestir að stærð og verði þeir seldir einstaklingum, félögum eða bæjar- og sveitarfélögum.

Þá er brtt. okkar við 2. gr.:

Við 2. gr. bætist: Nú óskar bæjar- eða sveitarfélag eða útgerðarfélag, sem það er verulegur aðili að, eftir kaupum á skipi, sem smíðað er samkv. lögum þessum, og skal þá ríkissjóður leggja fram 10% af byggingarkostnaði skips, og fer um endurgreiðslu þess samkv. þessari grein.

3. brtt. okkar er þannig:

Á eftir 3. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast allt að 90% af kostnaðarverði verksmiðjutogara fyrir Úthaf hf. gegn fullnægjandi tryggingum.

Ég tel algerlega ástæðulaust að bíða með það að taka ákvörðun um stuðning við togarakaup skv. þessum till. okkar, vegna þess að það hafi ekki farið fram nægilegar athuganir enn þá á rekstrarmöguleikum skipa af þessari stærð. Það er langt síðan rekstraráætlun um þessa millistærð skipa var lögð fyrir fiskveiðasjóð, bankana og Efnahagsstofnunina, og hv. sjútvrh. tilkynnti hér fyrir nokkrum dögum í þinginu, að nú um miðja þessa viku mundi rn. hans fá umsögn Efnahagsstofnunarinnar um þessa rekstraráætlun. Ég efast því ekki um, að þessi rekstraráætlun liggur nú fyrir endurskoðuð, svo það er hægt að taka afstöðu til þessa máls vegna upplýsinga, sem fyrir liggja, engu síður en varðandi stærri skipin.

Ef till. okkar yrðu samþ., mundi fyrirsögn frv. breytast af eðlilegum ástæðum og þá væntanlega heita frv. til l. um kaup á skuttogurum, en ekki lengur kaup á sex skuttogurum. Það virðist vera afskaplega heilög tala, og kemur fram í nafninu, að það megi ekki víkja frá því, að skipin séu aðeins sex. Um það mundum við þá flytja brtt. við 3. umr., þegar við sjáum, hvernig okkar brtt. reiðir af.