10.10.1970
Sameinað þing: 1. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna manna

Aldursforseti (Sigurvin Einarsson):

Í dag, er Alþingi kemur saman að rúmum 5 mánuðum liðnum frá lokum síðasta þings, eru mönnum ofarlega í huga þau sorglegu tíðindi, er spurðust frá Þingvöllum að morgni hins 10. júlí s. l., að Bjarni Benediktsson forsrh. hefði þá um nóttina látið lífið ásamt konu sinni og dóttursyni í bruna ráðherrabústaðarins þar. Á þeirri nóttu var þjóðin svipt forustumanni sínum og við alþm. sáum á bak mikilhæfum þingskörungi, sem vegna stöðu sinnar og hæfileika hefur öðrum fremur mótað störf Alþingis mörg undanfarin ár.

Bjarni Benediktsson var 62 ára, er hann lézt. Hann var fæddur 30. apríl 1908 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Benedikt alþingismaður Sveinsson Víkings gestgjafa á Húsavík við Skjálfanda Magnússonar og kona hans Guðrún Pétursdóttir bónda í Engey Kristinssonar. Hann stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík og lauk stúdentsprófi vorið 1926 og árið 1930 lauk hann lögfræðiprófi við Háskóla Íslands. Á árunum 1930–1932 stundaði hann erlendis framhaldsnám í stjórnlagafræði, aðallega í Berlín. Haustið 1932 varð hann prófessor í lögum við Háskóla Íslands og gegndi því starfi til hausts 1940, er hann varð borgarstjóri í Reykjavík. Hinn 4. febr. 1947 var hann skipaður utanríkis- og dómsmálaráðherra og lét þá af borgarstjórastörfum. Hann átti síðan sæti í ríkisstj. til æviloka að undanskildu tímabilinu frá 24. júlí 1956 til 20. nóv. 1959, en þann tíma var hann ritstjóri Morgunblaðsins. Hann var utanríkis-, dómsmála- og menntamálaráðherra 1949–1950, utanrrh. og dómsmrh. 1950–1953, dómsmrh. og menntmrh. 1953–1956, dómsmrh., kirkjumrh., heilbrmrh. og iðnmrh. 1959–1961 og 1962–1963, forsrh. um skeið á árinu 1961 og frá 14. nóv. 1963 til dauðadags.

Bjarni Benediktsson tók fyrst sæti á Alþingi sumarið 1942 og átti hér sæti síðan og sat á 31 þingi alls. Forseti sameinaðs Alþingis var hann á sumarþinginu 1959. Hann var fulltrúi í Norðurlandaráði á árunum 1956–1959. Hann átti sæti í stjórn Happdrættis Háskóla Íslands 1933–1940, var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1934–1940 og 1946–1949, átti sæti í útvarpsráði 1934–1935, var skipaður 1939 í nefnd til að endurskoða framfærslulögin, formaður nýbyggingarsjóðsnefndar 1941–1944, átti sæti í mþn. í stjórnarskrármálinu 1942–1945 og var formaður nýrrar stjórnarskrárnefndar frá 1947, var í sendinefnd á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1946. Hann var í stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur 1952–1965, í stjórn Eimskipafélags Íslands 1954–1964, í stjórn hlutafélagsins Árvakurs frá 1955 og formaður stjórnar Almenna bókafélagsins frá stofnun þess 1955. Í miðstjórn Sjálfstfl. var hann frá 1936 og formaður flokksins frá 1961. Hann varð félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1935 og doktor í lögum í heiðursskyni við Háskóla Íslands haustið 1961.

Bjarni Benediktsson hlaut í vöggugjöf miklar gáfur, viljastyrk og starfsorku. Námsferill hans var glæsilegur og frami hans að námi loknu eigi síður. Hann varð háskólakennari 24 ára gamall, síðan borgarstjóri, ráðherra, forustumaður fjölmennasta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og að lokum forsrh. Í föðurhúsum gafst honum kostur á að hlýða á rökræður um sjálfstæðismál Íslendinga og stjórnmál. Í háskólanum kenndi hann m. a. stjórnlagafræði og samdi innan þrítugsaldurs mikið rit um deildir Alþingis, störf þeirra og meðferð þingmála. Hann var því vel búinn til starfa, er hann settist á þing, og jafnan kvað mikið að honum við þingstörf. Í skilnaðarmáli Íslands og Danmerkur var hann málsvari þeirra, sem stefndu að stofnun lýðveldis á Íslandi á árinu 1944. Í ráðherradómi kom það oft í hlut hans sem utanrrh. og síðar forsrh. að hafa forustu um aðild Íslands að alþjóðasamtökum og ýmsum samtökum öðrum þjóða í milli. Síðustu árin varð það nokkrum sinnum hlutskipti hans að hafa af hálfu ríkisstj. milligöngu um sættir í torleystum vinnudeilum. Að öllum störfum gekk hann af heilum hug og fékk miklu áorkað.

Þess er ekki að dyljast, að miklar deilur hafa staðið um störf Bjarna Benediktssonar á vettvangi stjórnmála. Slíkt er eðli þeirra mála, og stjórnmálaforingi getur ekki vænzt þess að sitja á friðarstóli. Bjarni Benediktsson var mikill stjórnmálamaður. Að dómi flokksbræðra sinna var hann stjórnsamur flokksforingi og ráðhollur leiðtogi. Hann var víðfróður, langminnugur, mælskur og rökvís, skapmikill og sóknharður andstæðingur. Traustur var hann og hreinskilinn í skiptum við andstæðinga jafnt sem samherja, eljusamur og ósérhlífinn. Hann hafði gott vald á íslenzku máli í ræðu og riti og lögfræðirit hans bera honum vitni sem glöggskyggnum og traustum fræðimanni. Hann lét sér stundum um munn fara í þessum sal, að mannaverk væru ófullkomin. Með stefnufestu, viljaþreki og óvenjulegri starfshæfni vann hann að málum á þann veg, sem hann taldi fyrir beztu. Sagnfræðingar eiga eftir að vega og meta gildi verka hans, en saga Íslendinga um miðbik 20. aldar verður ekki sögð án þess að láta hans víða getið.

Alþingi verður svipminna við fráfall slíks forustumanns og svipleg ævilok hans eru þjóðinni allri harmsefni. Þingheimur og þjóðin öll mun lengi minnast Bjarna Benediktssonar og ástvina hans, sem létu með honum líf sitt 10. júlí s. l.

Sjö fyrrv. alþm. hafa andazt frá því er síðasta Alþingi lauk störfum. Þau eru Katrín Thoroddsen læknir, sem andaðist í sjúkrahúsi hér í borg 11. maí, 73 ára að aldri; Bjarni Bjarnason fyrrv. skólastjóri, sem lézt í sjúkrahúsi hér í borg 2. ágúst, áttræður; Bjarni Snæbjörnsson læknir, sem andaðist á heimili sínu í Hafnarfirði 24. ágúst, 81 árs; Magnús Gíslason fyrrv. skrifstofustjóri, sem lézt í sjúkrahúsi hér í borg 21. sept., 85 ára; Karl Einarsson fyrrv. sýslumaður, sem andaðist í sjúkrahúsi hér í borg 24. sept., 98 ára; Þóroddur Guðmundsson framkvæmdastjóri, sem varð bráðkvaddur í gistihúsi hér í borg 3. okt., 67 ára að aldri, og Gísli Jónsson forstjóri, sem lézt í sjúkrahúsi hér í borg 7. okt., 81 árs að aldri.

Katrín Thoroddsen var fædd 7. júlí 1896 á Ísafirði. Foreldrar hennar voru Skúli ritstjóri og alþm. Thoroddsen, sonur Jóns sýslumanns og skálds Thoroddsens, og kona hans Theodóra Thoroddsen, dóttir Guðmundar prófasts og alþm. á Kvennabrekku Einarssonar. Hún lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1915 og læknisprófi við Háskóla Íslands 1921. Við framhaldsnám í sjúkrahúsum í Noregi og Þýzkalandi var hún á árunum 1921–1923 og fór síðar margar námsferðir til útlanda, einkum til þess að kynna sér heilsugæzlu og heilsuvernd barna. Árin 1924–1926 var hún héraðslæknir í Flateyjarhéraði, síðan starfandi læknir í Reykjavík, viðurkenndur sérfræðingur í barnasjúkdómum 1927, læknir ungbarnaverndar Líknar, síðan Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur 1927–1940, yfirlæknir þar 1940–1955 og loks yfirlæknir barnadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur 1955–1961.

Katrín Thoroddsen tók sæti varaþm. á Alþingi um skeið haustið 1945, en var síðan landsk. alþm. á árunum 1946–1949. Hún átti sæti á fimm þingum alls. Í undirbúningsnefnd Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur var hún frá 1946 og í undirbúningsnefnd Bæjarspítala Reykjavíkur frá 1949, en lagði niður störf í þeirri nefnd. Hún var í bæjarstjórn Reykjavíkur 1950–1954 og átti sæti í barnaverndarnefnd um skeið.

Katrín Thoroddsen helgaði ævistarf sitt fyrst og fremst lækningum og líknarmálum. Hún hóf læknisstörf sín í erfiðu læknishéraði og reyndist þeim vanda vaxin. Síðan varð hún fyrst kvenna til þess að stunda almenn læknisstörf hér í Reykjavík. Hún var vinsæll læknir, fórnfús og ósérhlífin, umhyggjusöm börnum og öllum smælingjum og ótrauð í baráttu fyrir umbótum í heilbrigðis- og mannúðarmálum. Á Alþingi átti hún sæti í heilbr.- og félmn. og sinnti hér mest þeim málaflokkum, sem þar er fjallað um. Hún hafði fastmótaðar skoðanir um sjálfstæði þjóðar sinnar og samstarf við aðrar þjóðir og lét að sér kveða, ef henni þótti þar vikið af réttri braut. Hún átti það til að vera hrjúf og hvassyrt, er hún varði málstað sinn, var kröfuhörð við sjálfa sig og aðra, heilsteypt og einlæg í baráttu fyrir hugsjónamálum sínum.

Bjarni Bjarnason var fæddur 23. okt. 1889 á Búðarhóli í Austur-Landeyjum. Foreldrar hans voru Bjarni bóndi í Búðarhólshjáleigu Guðmundsson bónda þar Sigurðssonar og kona hans Vigdís Bergsteinsdóttir bónda á Torfastöðum í Fljótshlíð Vigfússonar. Hann stundaði nám í Flensborgarskóla 1907–1909, lauk kennaraprófi í Reykjavík 1912 og íþróttakennaraprófi í Kaupmannahöfn 1914. Hann var kennari við barnaskólann í Hafnarfirði 1912–19l5, skólastjóri þess skóla 1915–1929 og skólastjóri héraðsskólans að Laugarvatni 1929–1959.

Bjarni Bjarnason kenndi leikfimi í Flensborgarskóla þann tíma, sem hann stundaði kennslu í Hafnarfirði, og leiðbeindi um íþróttir ýmsum íþróttafélögum þar. Hann rak bú í Straumi í Garðahreppi 1918–1930, stjórnaði búi héraðsskólans að Laugarvatni 1935–1953, en rak þar eigið bú eftir það. Formaður Sambands ísl. barnakennara var hann frá stofnun þess 1921 til 1927 og í stjórn þess til 1931. Á Alþingi átti hann sæti á árunum 1934–1942, sat á 13 þingum alls. Hann var gæzlustjóri Búnaðarbankans 1938, átti sæti á Búnaðarþingi 1946–1966, var í stjórn Stéttarsambands bænda 1953–1963 og jafnframt í framleiðsluráði landbúnaðarins, og hann átti sæti í tryggingaráði frá 1959–1967. Ýmis trúnaðarstörf, sem hér verða eigi talin, voru honum falin í sveit hans og héraði í skólamálum, búnaðarmálum og félagsskap samvinnumanna.

Bjarni Bjarnason ólst upp við landbúnaðarstörf og sjósókn. Hann hóf ungur þátttöku í íþróttum, varð sigursæll glímumaður, kennari ungra íþróttamanna og hvatamaður um líkamsrækt. Hann valdi sér kennslu að ævistarfi og var um fertugsaldur falin forstaða nýrrar menntastofnunar. Skólastjórn Bjarna á Laugarvatni var í föstum skorðum. Hann lét sér annt um nemendur sína, hvatti þá til dáða og gerði til þeirra kröfur um ástundun og reglusemi. Héraðsskólinn að Laugarvatni var vísir mikils menntaseturs á þeim stað. Þar reis íþróttakennaraskóli, húsmæðraskóli og loks menntaskóli. Bjarni á Laugarvatni átti mikinn þátt í stofnun þessara skóla allra. Stofnun menntaskóla þar átti harðri andspyrnu að mæta og þurfti mikla bjartsýni og harðfylgi til að leiða það mál til lykta.

Bjarni Bjarnason var athafna- og framfaramaður og áhugamál hans voru mörg. Hann var búmaður, stjórnaði lengi stórbúi jafnframt skólastjórn. Hann beitti sér fyrir því, að bændur landsins stofnuðu stéttarsamtök, og bændur völdu hann um langt skeið til margvíslegra trúnaðarstarfa. Hann sat á Alþingi tæpan áratug og beitti sér þar m. a. fyrir umbótum í skólamálum og landbúnaðarmálum. Hann var raunsær hugsjónamaður og laginn málafylgjumaður. Ævistarfs hans sér víða stað, þótt hæst beri farsæla stjórn hans á menntasetrinu á Laugarvatni. Síðustu æviár vann hann ötullega að útgáfu mikils rits til menningar- og framfarasögu Suðurlandsundirlendis.

Bjarni Snæbjörnsson var fæddur 8. marz 1889 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Snæbjörn múrari þar Jakobsson útvegsbónda í Litla-Seli í Reykjavík Steingrímssonar og kona hans Málfríður Júlía Bjarnadóttir útvegsbónda í Bakkakoti á Seltjarnarnesi Kolbeinssonar. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1909 og læknisprófi við Háskóla Íslands 19l4. Hann var settur héraðslæknir á Vatneyri við Patreksfjörð 19l4–19l5, stundaði framhaldsnám í Danmörku 19l5–19l7, en var alla tíð síðan starfandi læknir í Hafnarfirði. Hann var jafnframt yfirlæknir St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 1933–1956 og settur héraðslæknir í Hafnarfirði um skeið á árunum 1941–1942 og 1947.

Bjarni Snæbjörnsson var kjörinn til ýmissa trúnaðarstarfa. Hann átti sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á árunum 1923–1926, 1931–1938 og 1942–1947. Hann var í stjórn Raftækjaverksmiðjunnar h. f. í Hafnarfirði 1936–1969, formaður Rauðakrossdeildar Hafnarfjarðar 1941–1948, formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar 1949–1965, í stjórn Krabbameinsfélags Íslands 1951–1968 og í stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar 1951–1968, formaður hennar var hann 1958–1968. Hann átti sæti á Alþingi 1931–1934 og 1937–1942, sat á 12 þingum alls. Í Landsbankanefnd átti hann sæti árin 1943–1957.

Bjarni Snæbjörnsson helgaði ævistarf sitt fyrst og fremst lækninga- og líknarmálum. Á öndverðum læknisárum hans í Hafnarfirði reyndi mjög á dug hans og drengskap, er hin mannskæða spánska veiki geisaði á þeim slóðum. Er í minnum haft, hve vel hann reyndist þá sjúkum og sorgmæddum. Hann hélt áfram læknisstörfum við miklar vinsældir fram á elliár. Árið 1968 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar einróma að gera hann að heiðursborgara Hafnarfjarðar og votta honum með því virðingu og þakklæti fyrir 50 ára læknisstörf í Hafnarfirði.

Bjarni Snæbjörnsson var áhugasamur og skoðanafastur í stjórnmálum, félagslyndur og skyldurækinn, góðmenni og drengskaparmaður. Eftir honum var sótzt til trúnaðarstarfa í flokki hans, bæjarfélagi og félagssamtökum, og hann reyndist í hvívetna verðugur þess trausts, sem honum var sýnt.

Magnús Gíslason var fæddur 1. nóv. 1884 í Eydölum í Breiðdal. Foreldrar hans voru Gísli síðast bóndi og póstafgreiðslumaður á Búðum við Fáskrúðsfjörð Högnason bónda á Skriðu í Breiðdal Gunnlaugssonar og kona hans Þorbjörg Magnúsdóttir síðast prests í Eydölum Bergssonar. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1906 og lögfræðiprófi frá háskólanum í Kaupmannahöfn árið 1912. Hann stundaði málaflutningsstörf í Reykjavík 19l3–19l6, var settur sýslumaður í Suður-Múlasýslu 19l7–1918 og í Arnessýslu 19l9. Aðstoðarmaður í fjmrn. varð hann 1918 og fulltrúi þar 1920. Á árunum 1920–1921 var hann fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Reykjavík. Hann var skipaður sýslumaður í Suður-Múlasýslu á árinu 1921 og gegndi því embætti til miðs árs 1939, er hann var skipaður skrifstofustjóri í fjmrn. Því embætti gegndi hann fram á árið 1952, þegar honum var veitt lausn sökum aldurs.

Magnúsi Gíslasyni voru jafnframt aðalstarfi falin ýmis trúnaðarstörf. Hann átti sæti á Alþingi á árunum 1939–1942, sat á sex þingum alls. Í yfirfasteignamatsnefnd var hann frá 1919 til 1921. Hann var skipaður formaður mþn. í launamálum 1943, formaður nefndar samkv. 46. gr. launalaganna 1946, skipaður í n. til að endurskoða launalög 1949 og í n. til að endurskoða lög um tollskrá 1953. Hann var í yfirskattanefnd Reykjavíkur 1940–1962 og í happdrættisráði Háskóla Íslands 1945–1962. Hann var meðal stofnenda togarafélagsins Kára 1918 og í stjórn þess til 1931 og einn af stofnendum Skógræktarfélags Austurlands 1935 og í stjórn þess til 1939.

Magnús Gíslason var farsæll og dugmikill embættismaður. Hann var réttsýnn dómari og friðsamur valdsmaður, leysti fúslega vanda þeirra, sem til hans leituðu, og naut vinsælda í sýslu sinni. Hann gegndi erilsömum störfum skrifstofustjóra fjmrn. á miklum umbrotatímum, árum heimsstyrjaldar og óstöðugleika í fjármálum. Þau störf leysti hann vel af hendi sem önnur, var gætinn og samvizkusamur, starfsfús og ráðhollur. Hann var sanngjarn og nærgætinn við það starfsfólk, sem hann átti yfir að ráða, og því fannst gott að starfa undir stjórn hans. Síðustu árin var hann orðinn sjóndapur og átti við vanheilsu að stríða.

Karl Einarsson var fæddur 18. jan. 1872 í Miðhúsum 3 Eiðaþinghá. Foreldrar hans voru Einar bóndi þar Hinriksson bónda að Hafursá í Eiðaþinghá Hinrikssonar og kona hans Pálína Vigfúsdóttir bónda á Háreksstöðum á Jökuldal Péturssonar. Hann lauk stúdentsprófi úr Lærða skólanum í Reykjavík árið 1895 og lögfræðiprófi við háskólann í Kaupmannahöfn 1903. Árið 1904 var hann um skeið settur sýslumaður í Rangárvallasýslu og 1904–1905 settur sýslumaður í Skaftafellssýslu. Á árinu 1906 hóf hann málflutningsstörf við landsyfirréttinn í Reykjavík. Hann var settur aðstoðarmaður í stjórnarráðinu 1906. Árið 1909 var hann skipaður í n. til að rannsaka hag Landsbankans og var hann formaður þeirrar nefndar. Sama ár var hann skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum og gegndi hann því embætti fram á árið 1924. Fluttist hann þá til Reykjavíkur og starfaði lengi við endurskoðun í fjmrn.

Karl Einarsson var alþm. Vestmanneyinga á árunum 19l4–1923, og sat á 11 þingum alls.

Karl Einarsson var hátt á tíræðisaldri, þegar hann andaðist, hefur náð hæstum aldri þeirra manna, sem setið hafa á Alþ. Nær hálf öld er liðin síðan hann hvarf af þingi. Á þingsetuárum hans var sjálfstæðisbarátta Íslendinga ofarlega á baugi og fullveldi landsins náð, og hann tók þátt í þeirri baráttu og þeim sigri af heilum hug. Á Alþingi var hann fulltrúi þess hluta landsins, þar sem sjósókn og aflabrögð ráða mestu um afkomu manna. Hann barðist fyrir hafnargerð í Vestmannaeyjum af þrautseigju og varð ágengt um síðir. Hann var meðal stofnenda Björgunarfélags Vestmannaeyja og beitti sér fyrir framlagi til þess frá bæjarfélagi og úr ríkissjóði. Hann hreyfði fyrstur manna á Alþingi þeirri hugmynd að nota sama skip til björgunarstarfa og landhelgisgæzlu. Eftir brottför sína frá Vestmannaeyjum lifði Karl Einarsson kyrrlátu lífi, en hélt heilsu og starfsorku fram á tíræðisaldur.

Þóroddur Guðmundsson var fæddur 21. júlí 1903 á Siglufirði. Foreldrar hans voru Guðmundur síðar útvegsbóndi á Þönglabakka Jörundsson útvegsbónda á Syðstabæ í Hrísey Jónssonar og kona hans Sigríður Sigurðardóttir bónda í Skarðsdal í Siglufirði Gunnlaugssonar. Hann var sjómaður nokkurt skeið, en rak síðar síldarsöltun og útgerð á Siglufirði. Bæjarfulltrúi á Siglufirði var hann 1934–1962 og átti sæti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins frá árinu 1943 til dauðadags. Hann sat sem varaþingmaður á Alþingi 1942–1946 í veikindaforföllum aðalmanns. Átti hann sæti á fjórum þingum alls.

Þóroddur Guðmundsson er kunnastur fyrir þátttöku sína í íslenzkri verkalýðshreyfingu. Hann var einn af helztu forustumönnum verkalýðsins á Norðurlandi, var um skeið forseti Verkalýðssambands Norðurlands og stóð tíðum fremstur í flokki í kjarabaráttu verkalýðsins, þegar hún var sem hörðust. Hann var hugdjarfur verkalýðsforingi, einbeittur stjórnmálamaður, óhvikull í baráttu og harðskeyttur ræðumaður. Vettvangur ævistarfs hans var á Siglufirði. Þar átti hann í bæjarstjórn frumkvæði að mörgum framfaramálum eða veitti þeim stuðning sinn. Hann átti um aldarfjórðung sæti í stjórn stærsta atvinnufyrirtækisins í bænum og á fundi þeirrar stjórnar var hann hér syðra, þegar hann féll frá.

Gísli Jónsson var fæddur 17. ágúst 1889 að Litlabæ á Álftanesi. Foreldrar hans voru Jón bóndi þar, síðar kaupfélagsstjóri og kaupmaður á Bakka í Arnarfirði og víðar, Hallgrímsson bónda að Smiðjuhóli á Mýrum Jónssonar og kona hans Guðný Jónsdóttir bónda í Grashúsum á Álftanesi Pálssonar. Hann stundaði sjómennsku og sveitarstörf fram undir tvítugt, var við járnsmíðanám á Ísafirði 1908–1909, var kyndari 1910–1911 og vélstjóri á togurum 1911–1913. Veturinn 19l3–19l4 var hann í vélfræðideild Stýrimannaskólans í Reykjavík, 19l5–19l6 í Vélstjóraskóla Íslands og brautskráðist fyrstur manna úr þeim skóla vorið 1916. Á árunum 1914–1924 var hann vélstjóri, fyrst á strandferðaskipum, síðan á skipum Eimskipafélags Íslands. 14 árinu 1924 gerðist hann umsjónarmaður skipa og véla og gegndi því starfi síðan fram á árið 1968. Annaðist hann teikningar, verklýsingar og samninga við smíði skipa fyrir einstaklinga og ríkissjóð, m. a. allra togaranna, sem smíðaðir voru á vegum ríkissjóðs á árunum 1945–1950. Hann stofnaði og rak hér í Reykjavík, á Bíldudal og víðar um land mörg fyrirtæki til útgerðar, fiskvinnslu og verzlunar, og var sá atvinnurekstur hans mjög stór í sniðum um skeið.

Gísli Jónsson gegndi ýmsum trúnaðarstörfum öðrum en þeim, sem talin hafa verið hér að framan. Hann var formaður Vélstjórafélags Íslands 1912–1924 og formaður stjórnar Sparisjóðs vélstjóra 1960–1963. Hann átti sæti í sjó- og verzlunardómi Reykjavíkur 1933–1937. Hann var skipaður í skipulagsnefnd skipaviðgerða 1942, í mþn. um skipasmíðastöð í Reykjavík og skipulagningu strandferða, í mþn. um póstmál og í Reykhólanefnd árið 1943 og var formaður hennar. Formaður stjórnar vistheimilisins í Breiðuvík var hann 1946–1953 og sat í mþn. um vernd barna og unglinga á glapstigum 1947–1948. Hann var formaður Þingvallanefndar 1950–1957, átti sæti í mþn. um rannsókn á afkomu útvegsins 1953–1956, í byggðajafnvægisnefnd 1953–1956 og í mþn. í skattamálum 1953. Í kosningalaganefnd var hann kosinn 1954, í mþn. í sjávarútvegsmálum 1956 og í skattalaganefnd 1960. Í stjórn landshafnar í Rifi átti hann sæti frá 1951. Alþingi sat hann á árunum 1942–1956 og 1959–1963, sat á 21 þingi alls. Hann var forseti efri deildar Alþingis 1953–1956. Í Norðurlandaráði átti hann sæti 1952–1956 og 1959–1963 og var á síðara tímabilinu formaður Íslandsdeildar ráðsins.

Gísli Jónsson var mikill athafnamaður, viljasterkur og afkastamikill. Öll þau störf, sem honum var til trúað, vann hann af alúð, var skyldurækinn og ósérhlífinn. Hann lagði á sig mikla vinnu við þingstörfin og sótti þingfundi manna bezt og mest. Kynnti sér hvert þingmál vandlega, var sjálfstæður í skoðunum og tók oft þátt í umr. Hann var formaður fjvn. á árunum 1945–1953. Sýndi hann í því annasama starfi mikla stjórnsemi og mikinn röskleika. Hann lét sér mjög umhugað um opinberar framkvæmdir í kjördæmi sínu og kom þar miklu til leiðar. Heilbrigðis- og félagsmál voru honum hugleikin. Hann var áhugasamur um eflingu almannatrygginga í þágu aldraðs fólks og öryrkja. Sambandi ísl. berklasjúklinga veitti hann mikinn stuðning í viðkunnum framkvæmdum þess og var kjörinn heiðursfélagi þeirra samtaka. Hann fékkst nokkuð við ritstörf, samdi minningabækur og fékkst síðustu árin af mikilli elju við skáldsagnagerð.

Ég vil biðja þingheim að minnast Bjarna Benediktssonar og ástvina hans og hinna sjö fyrrv. alþm., sem látizt hafa á þessu sumri, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum).