18.11.1970
Efri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft mál þetta til meðferðar, en eins og kunnugt er, höfðu fjhn. beggja deilda unnið sameiginlega að málinu á sínum tíma. Niðurstaða n. er sú, eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, að n. hefur ekki getað náð samstöðu í málinu, þannig að við fjórir, sem stöndum að nál. á þskj. 156, mælum með því, að frv. verði samþ. óbreytt, en aðrir hv. nm. hafa ekki talið sig geta fallizt á frv. nema með allróttækum breytingum og hafa skilað sérálitum.

Það eru einkum tvær spurningar, sem ég tel eðlilegt, að ræddar séu í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir. Í fyrsta lagi sú, hvort verðstöðvun sé skynsamleg ráðstöfun miðað við aðstæður í íslenzku efnahagslífi nú og í öðru lagi, hvort fórnum þeim, ef einhverjar eru, sem nauðsynlegt kynni að vera að færa í bili, ef tilgangur verðstöðvunarinnar eigi að nást, sé réttlátlega skipt. Fyrri spurningunni ætti að því leyti að vera óþarfi að svara í löngu máli, að allir þeir, sem tjáð hafa sig um frv. þetta hér á Alþ., virðast vera um það sammála, að verðstöðvun sé æskileg a. m. k., ef ekki nauðsynleg. Munurinn á þessu frv. og þeim till., sem fram hafa verið bornar af hv. stjórnarandstæðingum bæði í frv.-formi og sem brtt. við þetta frv., er hins vegar sá, að væri fallizt á þeirra till., yrði ekki um neina verðstöðvun að ræða nema þá að einhverjum hluta. Yrði slíkt því að mínum dómi kákið eitt og vafasamt, hvort slíkar ráðstafanir væru betri en aðgerðaleysi. Það er óraunhæft að segja eins og hv. framsóknarmenn: „Við erum að vísu hlynntir verðstöðvun, en við viljum ekki launaskatt, ekki, að bændur taki á sig verðhækkun á fóðurbæti og ekki, að kaupgjaldsvísitalan sé skert,“ og það án þess að benda á aðrar leiðir til þess að framkvæma verðstöðvunina. Það er að vísu satt, að verðstöðvun í þeirri mynd, sem hér er um að ræða, getur ekki verið annað en ráðstöfun til bráðabirgða. Enginn hefur haldið öðru fram. En spurningin er ekki um það, hvort með þessu sé hægt að leysa til frambúðar allan vanda í efnahagsmálum, heldur um hitt, hvort telja megi nægilegar líkur fyrir því, að afkoma íslenzkra atvinnuvega og almennings verði betri að loknu verðstöðvunartímabilinu, ef slíkar aðgerðir verða framkvæmdar en vera mundi án þess að til þeirra yrði gripið. Og ég fæ ekki komið auga á nein frambærileg rök fyrir því, að svo sé ekki.

Þá vík ég að hinni spurningunni eða þeirri, hvort byrðum þeim, sem lagðar séu á með þessum ráðstöfunum, ef einhverjar eru, sé ranglátlega skipt. Mér finnst svo auðsær hagur atvinnurekenda, þar með talinn bænda, ef dæmið er gert upp í heild, en ekki einblint á launaskattinn og hækkun á fóðurbæti, sem bændur taka á sig, að ég geri það ekki að frekara umtalsefni. En ég vil halda mig að þeim ákvæðum frv., sem að launþegum snúa, enda hafa um þau staðið mestar deilur, svo sem kunnugt er. Hverju fórna launþegar og hvað fá þeir í aðra hönd? Þeir fórna því í fyrsta lagi, að ekki skal við útreikning kaupgjaldsvísitölu taka tillit til þeirrar hækkunar, sem verður á vísitölu framfærslukostnaðar vegna hækkunar á verði áfengis og tóbaks og hækkunar iðgjalda til almannatrygginga, sem að vísu kemur ekki til framkvæmda fyrr en eftir áramót. Þetta nemur 1.1% vísitölustigi miðað við maígrunn og það má auðvitað ekki blanda saman vísitölustigum miðað við grunn 1. jan. 1968, eins og nú er gert, og kaupgreiðsluvísitölustigi, sem miðað er við maígrunn, sem auðvitað er hærri en grunnurinn var 1. 1. 1968, svo að prósentuvísitölustigið verður þannig feitara en vísitölustigið. Þetta var fyrsta atriðið.

Ennfremur fórna launþegar því, að kaupgreiðsluvísitöluna má skerða allt að 2%-stigum, en þó hefur nú eins og kunnugt er, verið ákveðið, að slíkt komi ekki til framkvæmda fyrstu 3 mánuði tímabils þess, sem um er að ræða. Sé litið yfir allt verðstöðvunartímabilið frá 1. nóv. s. l. til 31. ágúst næsta ár, og auðvitað ber að gera dæmið þannig upp, að miðað sé við tímabilið í heild, en ekki einstaka daga, þá nemur þessi skerðing 1.2%-stigum, og þá skyldi vera gengið út frá því, að skerðingin kæmi að fullu til framkvæmda frá 1. marz. En hvort svo verður, skal ég að öðru leyti ekki segja um. En samtals eru þetta 2.3%-stig. Þetta er það, sem launþegarnir fórna, sé dæmið sett þannig upp. En það, sem á móti þessu vegur, eru eftirtalin fjögur atriði: Í fyrsta lagi, að verðstöðvunin sparar launþegunum það tap, sem þeir hljóta að verða fyrir, þegar verðlag fer hækkandi, vegna þess að launahækkanir koma alltaf eftir á. Ég skal taka dæmi af handahófi til þess að skýra þetta. Segjum, að mánaðarleg verðhækkun sé 2%, eins og vísitölusamningarnir eru nú, þar sem kaupgreiðsluvísitalan miðast við vísitölu næsta mánaðar á undan þeirri, þegar kaupbreyting verður. Þá þýðir þetta, að í upphafi vísitölutímabils mundu launþegarnir vera orðnir 2% á eftir, þegar mánuður er liðinn af tímabilinu 4%, þegar tveir mánuðir eru liðnir 6%, og í lok tímabilsins mundu þeir vera 8% á eftir. Það þýðir, að að meðaltali fyrir allt tímabilið eru þeir 5% á eftir, þannig að tap það, sem þeir verða þannig fyrir, nemur 5% af kaupi. En þetta dæmi er auðvitað tekið af handahófi aðeins til skýringar því, hvað um er að ræða. Sem betur fer er verðbólguþróunin ekki svo ör hér á landi, að verðlagið hækki að jafnaði um 2% á mánuði, þannig að hið raunverulega tap, sem nú er um að ræða, er minna en þetta. Og samkv. athugun Efnahagsstofnunarinnar nemur tafatapið, sem hún kallar svo, 2.75 %-stigum miðað við allt árið frá maílokum þetta ár til maíloka næsta ár, en 2%-stigum fyrir tímabilið desember-febrúar. Nákvæmur útreikningur liggur að vísu ekki fyrir um allt verðstöðvunartímabilið út af fyrir sig, enda verður slíkt ekki reiknað með nákvæmni, þó að ekki sé lengra fram í tímann, en nærri lætur, að þetta eitt vegi nokkurn veginn á móti vísitöluskerðingunni, eftir því sem næst verður komizt.

Annað atriðið, sem hér er um að ræða, þegar rætt er um hagnað launþeganna á framkvæmd verðstöðvunar er, að auðvitað er það óraunhæft að gera ráð fyrir því, að allar atvinnugreinar séu færar um að bera að fullu þær kauphækkanir, sem átt hafa sér stað. Vafalaust er það um sumar atvinnugreinar þannig, og má þar í fyrsta lagi nefna útflutningsframleiðsluna, bæði útgerð og fiskiðnað, að vegna hagstæðrar verðlagsþróunar erlendis má gera ráð fyrir því, að þessar atvinnugreinar geti nokkurn veginn borið þær kauphækkanir, sem um hefur verið samið. En ég hugsa, að launþegum sé það jafnljóst og öðrum, að það er óraunhæft að gera ráð fyrir því, að það eigi við um allar atvinnugreinar. Þar má nefna iðnaðinn sem dæmi, að það eru mjög litlar líkur á, að í þeim iðnaði, sem framleiðir fyrir innlenda markaðinn, sé um svo mikla afkastaaukningu að ræða, að hann geti staðið undir 20% kauphækkunum eða meira. Og annað nærtækt dæmi í þessu efni eru opinber fyrirtæki, sem selja ýmiss konar þjónustu, sem áður má gera ráð fyrir, að hafi verið verðlögð þannig, að tekjur og gjöld stæðu í járnum. Og auðsætt er, að slík þjónustufyrirtæki geta ekki tekið á sig neinar teljandi kauphækkanir, nema þær verði þá reknar með halla og í sjálfu sér fráleitt, að um hallarekstur sé að ræða hjá slíkum fyrirtækjum. Það er t. d. ósanngjarnt, að þeir borgarar þjóðfélagsins, sem ekki hafa síma, séu látnir borga með símanum til annarra þjóðfélagsborgara, sem gera má ráð fyrir, að séu einmitt betur efnum búnir. Rekstur slíkra þjónustufyrirtækja verður að standa undir sér, en ef hann hefur ekki gert betur en standa í járnum, þegar almennar kauphækkanir verða, þá gefur það augaleið, að verð á slíkri þjónustu hlýtur að hækka svo sem orðið hefur, þó að reynt hafi verið eftir föngum að halda því í skefjum. En ef við horfumst í augu við þessa augljósu staðreynd, að það er óhjákvæmilegt, ef ekki á að verða meiri eða minni samdráttur, að kauphækkanirnar veitist að einhverju meira eða minna leyti yfir í verðlagið, þá þýðir það, að verðhækkanirnar rýra auðvitað kaupmátt launanna. Séu þær ekki nægilega miklar til þess að skapa viðkomandi atvinnugreinum rekstursgrundvöll, þá verður þar samdráttur, sem bitnar á launþegunum í mynd atvinnuleysis, eða ef grípið er til þess að veita þessum atvinnugreinum styrki, til þess að þær geti staðið undir kauphækkunum, þá verða þeir fjármunir, sem það kostar, auðvitað ekki sóttir annað en í vasa skattborgaranna, launþega eins og annarra, þannig að til viðbótar því, sem launþegarnir hagnast á því, að víxlhækkanirnar eru stöðvaðar, þá kemur þetta.

Þetta tvennt, sem ég nú hef nefnt, er það mikilvægasta í þessu sambandi, en auk þess má nefna niðurgreiðslurnar í nóvembermánuði, sem var nokkuð, sem launþegarnir auðvitað áttu ekki kröfu til samkv. kjarasamningum, þannig að það er fé, sem einmitt vegna þeirra ráðstafana, sem nú eru gerðar, rennur í þeirra vasa. Ég hef enga nákvæma tölu um það, hve miklu þetta nemur, en um a. m. k. 30–40 millj. má vera að ræða.

Að síðustu má nefna það sem fjórða atriðið í þessu sambandi, að ef verðstöðvunin tekst, þá verður kaupmáttur þeirra tveggja vísitölustiga, sem geymd eru, meiri en hann mundi vera, ef ekki væri um verðstöðvun að ræða, svo að segja má, að launþegarnir fái þannig vexti af þeim peningum, sem geymdir hafa verið, en höfuðstólinn fá þeir auðvitað ekki endurgreiddan frá þeim tíma, sem skerðingin verður. Auðvitað er þetta atriði, sem ekki getur vegið þungt á metunum, en það má þó í þessu sambandi nefna.

Nú er það svo, að í ræðu þeirri, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti við 1. umr. málsins, þá kom það fram, að hann hafði skilning á því, að launþegar ættu hagsmuna að gæta í sambandi við það, að víxlhækkanirnar yrðu stöðvaðar. En sá skilningur hv. þm. hefur þó við önnur tækifæri verið skarpari en hann virtist vera við 1. umr. málsins, þó að það kæmi að vísu fram, að hann hefði á þessu skilning, en virtist þó vilja sem minnst úr þessu gera. Og ég skal rifja upp tvö málefni, sem áður fyrr hafa verið til umr., þessu til sönnunar.

Það er í fyrsta lagi, þegar vísitöluskerðingin var framkvæmd með löggjöf haustið 1956. Þá var það borið fram sem höfuðröksemd fyrir því, að það borgaði sig fyrir launþegana að færa þessa fórn, bæði af hv. þm. og öðrum, sem þáv. ríkisstj. studdu, að með því að afsala sér þessum 6 vísitölustigum, væri komið í veg fyrir hækkun á verði búvöru, sem þá var yfirvofandi. Að vísu hefði það nú ekki bætt tjónið nema að nokkru leyti, en hafa ber þó hugfast, að búvaran var mikilvægari liður í vísitölugrundvellinum þá heldur en nú er. En þá kom fram á þessu fullur skilningur og var meira að segja nokkuð ýkt, hve hagnaður launþeganna væri mikill, því að eins og ég sagði bættist þessi skerðing ekki nema að nokkru leyti, vegna þess að búvöruhækkunin var minni.

En ég man líka eftir öðru dæmi, sem gerðist hér á Alþ. fyrir u. þ. b. 6 árum, en það var í árslok 1964. Þá hafði hið svokallaða júní-samkomulag verið nýlega gert, þegar vísitölubætur á laun voru innleiddar að nýju. Óformlega mun þá hafa verið samið um það milli verkalýðssamtakanna og þáv. ríkisstj., að verðlaginu yrði haldið óbreyttu til áramóta með niðurgreiðslum og kemur strax fram í því, að launþegasamtökin gerðu slíka kröfu, og þau gerðu sér ljóst, að vísitölubætur út af fyrir sig tryggja ekki kaupmátt launa nema verðhækkunum sé haldið í skefjum. En skömmu fyrir áramótin 1964 eða fyrir árslok 1964 var svo ákveðið að hækka söluskatt frá byrjun næsta árs. Við ákvörðun á þeirri hækkun á söluskatti var gert ráð fyrir því, að hluta af honum yrði varið til þess að greiða hallann á ríkissjóði vegna niðurgreiðslu árið 1964. Þá man ég, að hv. 4. þm. Norðurl. e. hreyfði mótmælum við slíku og hélt því fram, að um það hefði verið samið að borga vísitöluna niður án þess að leggja á nýja skatta. Þetta samkomulag mun að vísu hafa verið óformlegt, svo að einhver ágreiningur varð nú um það, í hverju það hefði verið fólgið, en þáv. forsrh., Bjarni heitinn Benediktsson, tók þó af skarið í þeim efnum og sagðist ekki vilja liggja undir ámæli um það, að rofnir hefðu verið samningar við verkalýðshreyfinguna, svo að þetta gekk til baka. Nú var að vísu gert ráð fyrir því, að hækkun söluskattsins kæmi fram sem vísitöluuppbót síðar. En hv. þm. Norðurl. e. sagði þá og það var auðvitað alveg rétt: „Sú kauphækkun kemur ekki fyrr en eftir þrjá mánuði, þannig að það er ekki fullnægjandi bót.“ Þetta er að mínu áliti ljóst dæmi um það, að bæði hv. þm. og forusta verkalýðshreyfingarinnar þá hefur gert sér fyllilega ljóst, að hér var um hagsmunamál hennar að ræða, og get ég þessa síður en svo þeim til ámælis.

Ég vil vekja athygli á því, að eins og ég setti dæmið upp hér að framan, þá reiknaði ég að fullu þau vísitölustig, sem fórnað er, eða það vísitölustig er kannske réttara að segja, því að þetta er aðeins 1.1 %-stig að vísu, en ég reiknaði að fullu það sem fórnað er vegna hækkunar á verði áfengis og tóbaks og iðgjalda almannatrygginga. Nú má færa fram frambærileg rök fyrir því, að þetta megi fella niður, og þau hafa komið fram við umr. málsins, sbr. þau sjónarmið, sem fram komu í ræðum þeirra hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Sunnl., þegar þeir bentu á það, að vissulega gæti vísitölumælikvarðinn verið gallaður, en það hefði nú einu sinni verið samið á þeim grundvelli, þannig að verkalýðshreyfingin gæti ekki unað einhliða breytingu á vísitölugrundvellinum. Til þessa hef ég nú einmitt tekið tillit með því að reikna þetta að fullu. Ég vil sérstaklega varðandi hækkun iðgjalda til almannatrygginga benda á það, að óeðlilegt er, að það sé í vísitölugrundvellinum, vegna þess að hér er um beina skatta að ræða, og í rauninni og meira að segja um nefskatta að ræða, en meginreglan er sú, að beinir skattar ganga ekki inn í vísitölugrundvöllinn, svo að það er auðvitað óeðlilegt að reikna þetta með. Um áfengið og tóbakið getur verið meira álitamál, en hjá því verður nú ekki komizt að mínu áliti að reikna það með í verðlagsvísitölunni. Annað mundi vera bein fölsun, en kaupgreiðsluvísitalan þarf engan veginn að fylgja verðlagsvísitölu og gerir það ekki, þannig að margt mundi mæla með því, að það, sem almennt er talið óþarfi, eins og þetta, ætti ekki að vera þar með. Hins vegar get ég í sjálfu sér tekið undir það með hv. 6. þm. Sunnl., að hér er um eins konar eyrnamörkun að ræða, og af henni er ég ekki sérstaklega hrifinn, en ástæðan til þess, að þessi eyrnamörkun á sér stað, er nú samt sú, að þetta er talið ganga í fólkið, og þegar till. hafa verið bornar hér fram á undanförnum þingum um það, að leggja 10 aura gjald á coca cola til styrktar vangefnum o. s. frv., þá hafa hv. þm. yfirleitt sungið allir í einum kór og rétt upp höndina með slíkum till. Ef aftur á móti væri um það að ræða að afla fjár með því að hækka hina almennu tekjustofna ríkissjóðs, þá hefðu vafalaust orðið um það stórátök, en það er nú þetta, sem liggur að baki eyrnamerkingunni, að hún er talin vinsæl, og vafalaust eru margir, sem fallast á þau sjónarmið, að áfengi og þess háttar sé óþarfi og það verði að hækka kaup, þegar það verð hækki o. s. frv. Þess vegna hefur þetta nú verið gert, en ég get út af fyrir sig tekið undir það, að mér finnst þetta ekki alls kostar fullnægjandi, og þess vegna hef ég nú einmitt reiknað dæmið á þennan hátt, að reikna þessa hækkun að fullu.

Þá kem ég að spurningu, sem í sjálfu sér er mikilvæg í þessu sambandi, og henni var hreyft af hv. 4. þm. Norðurl. e., en hún er þessi: Skaðast launþegarnir ekki raunverulega á auknum niðurgreiðslum? Er það ekki þannig, að það, sem fer bara í útgjöldin vegna niðurgreiðslnanna, sé að jafnaði miklu minni fjárhæð en sú, sem þeir tapa, vegna þess að kaupgjaldsvísitalan kemur til að lækka? Ég tel, að þessari spurningu megi svara játandi, a. m. k. ef litið er á launþegana í heild, þó að viðhorf í þessum efnum séu að vísu töluvert önnur nú en var fyrir 20 árum, þegar gamli vísitölugrundvöllurinn frá 1939 var í gildi, og það var hv. þm. líka fullkomlega ljóst. Þá var það reiknað út varðandi sumar ódýrustu niðurgreiðslurnar eins og niðurgreiðslur á saltfiski, að þetta borgaði sig fyrir ríkissjóð, eingöngu vegna þess, að kaup opinberra starfsmanna lækkaði um hærri fjárhæðir vegna niðurgreiðslunnar heldur en þurfti til þess að standa straum af henni, og þá er auðsætt, vegna þess að opinberir starfsmenn eru auðvitað ekki nema hluti af launþegunum í heild, hvernig dæmið hefði komið út fyrir þá aðila. Sem heild skaðast launþegarnir auðvitað á þessu. En dæmið kemur þó mismunandi út fyrir menn í mismunandi tekjuflokkum. Ég skal taka hér einfalt dæmi. Ef við hugsuðum okkur annars vegar embættismann, sem hefði 50 þúsund krónur í tekjur, og embættislaunin ein geta nú ekki numið því, jafnvel þótt um sé að ræða hæstu launaflokka, en auðvitað er gert ráð fyrir því, að viðkomandi hafi aukastörf, sem einnig eru greidd samkvæmt vísitölu, þá eru slík dæmi ábyggilega til. Hvernig kemur dæmið út fyrir þennan mann? Ef við reiknum með 4% hækkun á kaupgjaldsvísitölu frá 1. des., þá mundi hann í kaupi tapa 2000 kr. Það, sem mundi vega á móti þessu, er sparnaður hans til heimilisútgjalda. Ég hef lauslega reiknað þetta miðað við mitt heimili, og mér reiknast þannig, að sparnaður mundi vega af þeim niðurgreiðslum, sem þegar eru komnar til skjalanna, milli 700 og 800 kr. á mánuði, svo að það er auðsætt, að þessi maður tapar þá á niðurgreiðslunni 1200–1300 kr. Ef við hins vegar tökum lágt launaðan verkamann, sem ekki hefur nema 15000 kr. í mánaðartekjur, þá kemur dæmið töluvert öðruvísi út. Það, sem hann tapar í kaupi, mundi vera 600 kr., en ef framfærslubyrði hans er álíka og embættismannsins, þá fær hann meira þannig til baka, og auðvitað jafnast þetta í lengdina vegna tekjuskattsins. Enda er mergurinn málsins sá, að miðað við útgjöld vísitölufjölskyldunnar þá ætti þetta allt að standa í járnum, en vísitölugrundvöllurinn er, eins og kunnugt er, byggður á athugunum á neyzluvenjum láglaunafólks, og þess vegna kemur einmitt þessi munur fram, sem fyrir heildina getur numið allmiklu, þannig að tapið í kaupi verður meira en kostnaður við niðurgreiðsluna.

En einmitt þetta dæmi, sem ég hef nú nefnt, sýnir, að það er óraunhæft, hvað sem öllu öðru liður, að blanda saman við þetta mál spurningunni um hugsanlega kjarasamninga við opinbera starfsmenn. Menn geta deilt um það, hvað opinberum starfsmönnum beri í laun, en þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, hvað sem öllu öðru liður, breyta kjörunum frekar þeim láglaunuðu í hag heldur en hið gagnstæða. Tapið, sem þarna verður um að ræða, vegna þess að niðurgreiðslan nemur ekki kaupskerðingunni, bitnar einmitt fyrst og fremst á hálaunamönnunum. Annars skal ég nú ekki gera hér að umtalsefni þá kjarasamninga við opinbera starfsmenn, sem framundan eru, enda liggja þeir ekki fyrir, en má aðeins á það benda, að í gildi eru lög, sem kveða svo á, að launakjör opinberra starfsmanna eigi að ákvarða í samræmi við það, sem er greitt fyrir samsvarandi störf á almennum vinnumarkaði, þannig að getgátum, sem hér hafa komið fram um það, að í uppsiglingu sé samsæri á milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hæstv. ríkisstj. um það, að þessi lög verði brotin, trúi ég ekki, fyrr en það mál liggur fyrir. Hitt er annað mál, að opinberir starfsmenn eru orðnir töluvert á eftir í launagreiðslum, og þar má nefna sem dæmi, að vísitöluskerðingin, sem ákveðin var með launasamningum 1968, hefur stórkostlega breytt launahlutföllunum hjá opinberum starfsmönnum og sérstaklega þeim hærra launuðu í óhag. Á þessu var ekki ráðin bót, þótt þeir fengju 15% kauphækkun á s. l. ári. Þvert á móti mátti segja, að skerðingunni væri þá slegið fastri sem grunnlaunum. Í síðustu samningum, sem gerðir voru, þá var hins vegar sú regla tekin upp að afnema alla vísitöluskerðingu og þá eðlilegt á sínum tíma, að það sé látið ná til opinberra starfsmanna eins og annarra.

Því hefur verið haldið fram, að þetta frv., ef samþ. verður, sé brot á þeim kjarasamningum, sem í gildi eru. Ef litið er á formshliðina eina, þá er ljóst, að fyrir því má færa nokkur rök, en hver er tilgangur vísitöluákvæða í kjarasamningum? Er hann ekki sá að tryggja kaupmátt launa og sá einn? Það er því ekki brot á samningunum efnislega a. m. k., ef gerðar eru aðrar ráðstafanir jafnframt þeirri skerðingu, sem um kann að vera að ræða, sem betur tryggja kaupmátt launa. Manni sýnist, að það sé þvert á móti. Hv. 11. þm. Reykv., sem talaði hér við 1. umr. málsins, upplýsti það, að hann hefði lýst eftir því við Hagstofuna, að hún gerði á því útreikning, hver kaupmáttur launa yrði 1. des. eftir þessar aðgerðir og hver hann mundi verða, ef ekkert hefði verið að gert. Nú vísaði Hagstofan þessu að vísu frá sér til Efnahagsstofnunarinnar, svo að þetta varð að nokkru ganga frá Heródesi til Pílatusar, en Efnahagsstofnunin lét þó fjhn.-mönnum í té yfirlit yfir þær breytingar, sem verða á kaupmætti launanna 1. des. vegna aðgerðanna, og hver hann hefði orðið án aðgerða. Ég hef þetta nú fyrir framan mig, og ef miðað er við 1. des., þá er það rétt, að hv. þm. hefur haft nokkuð upp úr krafsinu, því að samkv. þessum tölum Efnahagsstofnunarinnar hefði kaupmátturinn án aðgerða numið 18.7%, en með aðgerðunum 17%. Nú er það að vísu miðað við, að ekki væru gerðar þær ráðstafanir, sem nú hala verið boðaðar. Þetta eru eldri útreikningar, þannig að ef ekki hefði til þeirra komið, þá hefði hv. þm. hér haft nokkuð upp úr krafsinu, því að þetta er lækkun kaupmáttar um nærri því 2% og það er vissulega umtalsverður hlutur. En það er bara að mínu áliti ekki rétt að gera dæmið upp á þennan hátt að miða við einstaka daga. Ef í staðinn er miðað við 30. nóv., þá hefði þetta dæmi komið allt öðruvísi út. Svo til viðbótar þá hefur Efnahagsstofnunin hér gefið upplýsingar um kaupmáttinn miðað við allan des. Þá er þetta komið niður í 18.3% og fyrir allt tímabilið niður í 17.4%, sem hann hefði orðið án aðgerða. En miðað við fyrri till. í þessu efni, þá átti hann að vera 17% yfir allt tímabilið, des. til febr., svo þarna er um að ræða lækkun um 0.4%. Vegna þessara nýju aðgerða hefur þetta svo hækkað upp í 19% fyrir allt tímabilið, en nú skal ég vera svo heiðarlegur að viðurkenna, að það er dálítið af sömu skekkjunni í þessum 19%, eins og ef miðað er við daginn 1. des., þótt það sé ekki eins gróf skekkja. Það er rétt fyrir þetta tímabil des.—febr. En ef skerðingin kemur svo að fullu til framkvæmda 1. marz, sem ég skal að öðru leyti ekki segja um, þá mundi þetta fara niður í 17% fyrir þau tvö tímabil, sem eftir eru, svo að kaupmáttaraukningin verður ekki úr 17.4 upp í 19, heldur úr 17.4 upp í eitthvað 17.6 eða 17.7, sem telja má, að þýði í rauninni óbreyttan kaupmátt launa, þegar þannig er reiknað, því að við vitum, að þessir útreikningar eru ekki svo nákvæmir undir neinum kringumstæðum, að hér sé reiknað með broti úr prósenti. Þannig að ef tilgangur vísitöluákvæðanna er sá að halda óskertum kaupmætti launa, þá er auðsætt, að þær ráðstafanir, sem hér er um að gera, eru ekki brot á samningunum, heldur þvert á móti, og hv. 11. þm. Reykv. fór einmitt hörðum orðum um það, að nú yrði að gera átak til að tryggja kaupmátt launanna og vitnaði í því sambandi í skýrslu um þróun kaupmáttar launa á tímabilinu frá 1945 til 1960, sem hv. þdm. mun nú kunnug, en í henni kom fram sú dapurlega niðurstaða, að þrátt fyrir allar þær miklu kaupgjaldshækkanir, sem urðu þarna á tímabilinu, þá stóð kaupmáttur launanna í stað. Það er vissulega hægt að taka undir þetta með hv. þm., það er einmitt það, sem hér er verið að gera. Ef tilgangurinn með vísitöluákvæðunum er einhver allt annar en sá að tryggja kaupmátt launanna, ef það eru einhver formsatriði, sem verða þar höfuðatriði, þá skapar það alveg ný viðhorf í þessum efnum, því að það er alveg rétt hjá þeim hv. stjórnarandstæðingum, sem hér hafa talað, að vitanlega væri hægt að fara aðrar leiðir til verðstöðvunar en þá, sem farin hefur verið. Það væri t. d. hægt, og það leiðir einmitt af þessu, að niðurgreiðslan er minni en kaupskerðingin, kostnaður við niðurgreiðsluna er meiri en kaupskerðingin. Þarna er hægt að fara þá leið að hækka söluskattinn t. d. um 2%. Með því, sem þessi hækkun söluskattsins hefði gefið, hefði sennilega verið hægt að greiða vísitöluna niður um 3–4 stig. Það hefði þá enginn getað sagt, að þetta bryti í bág við þá samninga, sem gerðir hefðu verið. Í öðru lagi hefði verið hægt að fara þá leið, að afla fjár til niðurgreiðslnanna að einhverju meira eða minna leyti með hækkun á beinum sköttum, tekjuskatti eða leggja t. d. á nefskatta. Þá hefði enginn getað sagt, að þetta hefði brotið í bág við gerða samninga. En hefði þetta verið launþegunum í hag að gera þannig ráðstafanir til þess að sneiða hjá því, að formi samninganna væri breytt, sem allir vita, að mundi velta skattabyrðunum yfir á þá í ríkara mæli heldur en nú er? Ég trúi ekki öðru en að flestir skynsamir menn svari þessu neitandi, og ef það er skoðun leiðtoga verkalýðsins, að þessar leiðir hefði t. d. átt að fara, þá verður dæminu, eins og flestir líta á það, í rauninni snúið við, þannig að þá mundi það vera ríkisstj., sem færi fyrst og fremst að gæta hagsmuna launþeganna, en ekki þeir, sem til þess hafa verið valdir. Slíkar leiðir, sem ég nefndi, hefði verið hægt að fara, og það dæmi gengur þannig upp, skýrist á tvennan hátt, að með því móti mundum við nota út í æsar þann ágalla á vísitölunni, ef telja á það ágalla, sem við erum um að deila, að beinu skattarnir eru ekki teknir í hana, nema að mjög takmörkuðu leyti, og í öðru lagi væri það þá notað út í æsar, að það kostar minna að borga vöruna niður heldur en kaupskerðingunni nemur, en að slá á slíka strengi, hygg ég, að samrýmist ekki hagsmunum launafólks.

Því hefur verið haldið fram, að hér sé aðeins um það að ræða að skjóta vanda efnahagsmálanna á frest og hann kunni að verða meiri síðar, þannig að þessu hefur verið líkt við stíflu í á, sem gætir um stundar sakir, en þýðir það, að þegar um hana verði losað, verði hætta á, að flóðstraumurinn verði þá meira eða minna óviðráðanlegur. En það má ekki loka augunum fyrir því, að þarna getur verið um hættu að ræða, og vissulega eðlilegt, að spurt sé um það, hvað þá eigi að taka við, og að mínu áliti er þetta þeim mun eðlilegra, sem ég tel, að þrengzt hafi mjög um úrræði til þess að leysa vanda efnahagsmálanna, vegna þess að þau tæki, sem að undanförnu hefur einkum verið beitt í þessu skyni, en þar hef ég í huga fyrst og fremst haftaleiðina og sömuleiðis gengislækkunarleiðina, sem farin hefur verið hvað eftir annað, eru ekki raunhæf lengur. Höftin ekki, hvað sem um það má segja að öðru leyti, vegna aðildar okkar að EFTA og aukinnar þátttöku í alþjóða samstarfi á sviði viðskiptamála. Ég tel einnig enga launung á því, að gengislækkunarleiðin hafi gengið sér til húðar vegna þess, að ef gripið yrði til frekari gengislækkana í næstu framtíð, þá mundi það rýra svo trú manna á verðgildi peninganna, að líklegt væri, að það skapaði algert öngþveiti í efnahagsmálum. En hvað er þá til ráða? Ég hef ekki trú á lögþvingunarleið í kaupgjaldsmálum, skal taka það fram, en vil aðeins í þessu sambandi á það benda, að eitt af stærstu efnahagsvandamálunum hér hjá okkur hefur verið það, að tekjuþróunin hefur ekki verið í samræmi við hina almennu efnahagsþróun. Þetta þarf að samrýmast eftir einhverjum leiðum, og auðvitað væri langæskilegasta leiðin í því efni sú, að samkomulag gæti tekizt við launþegasamtökin um samræmi í þessum efnum. Sú leið kann að vera torveld, sérstaklega að skapa pólitísk skilyrði fyrir slíku. Það hefur ekki tekizt enn, það tókst ekki t. d. þegar vinstri stjórnin var við völd á sínum tíma, eins og öllum er kunnugt, en þetta er sú leiðin, sem að mínu áliti liggur beinast að markinu.

Hér hefur í sambandi við þessar umr. borið á góma ályktun, sem gerð var af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ég vil aðeins um þetta segja það, að undir öllum kringumstæðum tel ég, að það beri mjög að virða, að slík samtök benda þó á ákveðnar leiðir til lausnar vandanum, en láta ekki sitja við neikvæð mótmæli ein. Það er ekki von, að nein samtök séu tekin alvarlega, þegar um slíkt er að ræða, að vanda ber að höndum, sem allir skyni bornir menn vita, að einhvern veginn þarf að leysa, þá sé aðeins mótmælt þeim leiðum, sem farnar hafa verið, án þess að bent sé á nokkuð annað. Það gefur augaleið, að jafnvel þótt stjórnvöld væru öll af vilja gerð til þess að fara eftir ráðum slíkra aðila, þá gætu þau það ekki, vegna þess að ekki er bent á aðrar leiðir, en stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur hér haft annan hátt á, og það tel ég undir öllum kringumstæðum að beri mjög að virða. Hvað snertir sjálfa till. þá mundu vissulega verða mörg ljón á veginum í sambandi við framkvæmd einstakra atriða, sem þar eru nefnd, svo sem að hafa frjálst gengi, en slíkt mundi, eins og sakir standa, auðvitað eðlilega samrýmast aðild Íslands að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þó að slíkt yrði auðvitað miður í slíkum ráðstöfunum, þar sem allt annað væri bundið vísitölunni, því að annars mundi útflutningurinn stöðvast. Það mun vera rétt hjá hæstv. fjmrh., sem gerði þessa till. stuttlega að umtalsefni á þriðjudaginn, að í heild mundu slíkar aðgerðir ekki hafa verið framkvæmdar í nágrannalöndum okkar a. m. k. En hins vegar er þetta að mínu áliti leið til þess að halda öllu í horfi, ef um allt þrotnar með verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem þar er bent á, t. d. að mestu þeirri meginhættu, sem af verðbólguþróuninni stafar, nefnilega þeirri, að menn missi trú á gildi peninga sinna og grípi til þess óyndisúrræðis að taka út sparifé sitt í stórum stíl og ráðstafa því til kaupa á auvirðilegum verðmætum. Þegar þannig væri komið, yrði stórkostlegt öngþveiti og meira en nokkurn tíma hefur þekkzt, óumflýjanlegt, enda hafa hliðstæðar ráðstafanir þessum verið gerðar í sumum löndum, sem hafa átt við stöðuga verðbólgu og óstöðugt stjórnarfar að etja, svo sem í Frakklandi, og einnig mætti nefna hérna svo sem Finnland og Grikkland, sem dæmi um lönd, sem út á þessa braut hafa farið. Og ef þetta væri gert, þá yrði öllum ljóst, að það græðir enginn lengur á verðbólgunni, þannig að slík ráðstöfun ætti að geta knúið fram pólitíska samstöðu um að stöðva hana, en sú leið, sem ég áðan nefndi, að ná samkomulagi við launþegasamtökin um það að samræma tekjuþróunina öðrum staðreyndum efnahagslífsins, liggur þó auðvitað beinast að því marki að skapa sæmilegt jafnvægi í verðlags- og atvinnumálum. Og þótt ég telji það miklu máli skipta fyrir vandamál líðandi stundar, að framkvæmd verði verðstöðvun, þá má ekki missa sjónar á því, að hér er þó aðeins um bráðabirgðalausn að ræða. Það, sem máli skiptir fyrir framtíðina, er, að fundin verði lausn til að skapa grundvallarskilyrði fyrir hagstæðri þróun efnahagsmála, og er að mínu áliti þeim mun nauðsynlegra, að menn geri sér grein fyrir því vandamáli, sem leiðir þær, sem hingað til hafa verið farnar, eru ekki lengur færar, svo sem ég tel mig hafa leitt rök að. Og ekki má loka augunum fyrir þeirri hættu, að áður en langt um líður kunni að vera óhjákvæmilegt að grípa til róttækari ráðstafana í efnahagsmálum en nú er um að ræða. Við búum í dag við mjög hagstæð viðskiptakjör og það eru þau, sem hafa gert mögulega miklu stórfelldari aukningu kaupmáttar launa en átt hefur sér stað á jafnstuttum tíma nokkru sinni áður. En það er nú einu sinni svo, að hagstæð viðskiptakjör standa sjaldan til lengdar, og má í þessu sambandi benda á þá hættu, sem okkur kann að stafa af hinum stórauknu fiskveiðum þróunarlandanna, án þess að ég fari nú út í að spá nokkru í því efni.

Að lokum vil ég vekja athygli á skilningi meiri hl. fjhn. á orðalagi 2. málsl. 1. málsgr. 5. gr. laganna, þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsuppbót, sem svarar til tveggja stiga hækkunar kaupgreiðsluvísitölu, skal þó eigi koma til framkvæmda fyrr en 1. sept. 1971.“

Það er skilningur meiri hl., að hér sé auðvitað um hámark skerðingar að ræða, svo að það megi ekki leggja í það þann skilning, að alltaf skuli skerða um 2 %-stig. Og hér er heldur ekki um neitt lágmark að ræða í þeim skilningi, að ekki megi skerða, nema að munur á kaupgjaldsvísitölu samkv. kjarasamningum og því, sem frv. gerir ráð fyrir, nemi minna en þessum 2%-stigum. Ég álít rétt, að þessi skilningur meiri hl. komi fram, ef út af þessu kynni að verða einhver ágreiningur milli þeirra aðila, sem málið snertir.

Herra forseti. Samkv. þessu leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. verði samþ. óbreytt til 3. umr.