01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

283. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Nokkuð snemma á þessu þingi flutti ég ásamt 6. þm. Reykv. frv. til l. um breyt. á l. um eftirlaun fyrir aldraða í stéttarfélögum. Ég gat þess í framsögu fyrir því frv., að það væri ekki hvað sízt flutt til þess að koma hreyfingu á þetta mál, og lagði áherzlu á, að endurskoðunarákvæði laganna væri notað og ríkisstj. hlutaðist til um endurskoðun l. í samráði við samningsaðilana frá því í maí 1969 eins og lögin gerðu ráð fyrir. Það var nú að mínu viti alltaf vafasamt, hvort átt hefði að setja þau lög. Það var ekki nauðsynlegt vegna þess, að samningarnir sögðu í raun og veru fyrir um, með hvaða hætti eftirlaunagreiðslurnar skyldu vera, en lögin voru nú sett, og þá var að sjálfsögðu strax vitað, að lögin þyrfti að endurskoða og þá alveg sérstaklega vegna þess, að framkvæmd þessara laga yrði að miklu leyti samhliða hinum nýju lífeyrissjóðum, en þá var ekki vitað, hvaða reglur yrðu gildandi um lífeyrisréttindi manna í hinum nýju lífeyrissjóðum.

Þessar reglur hafa nú verið settar, og höfuðefni þessa frv. er einmitt að aðlaga þessar eftirlaunagreiðslur þeim reglum, sem gilda í reglugerðum hinna nýju lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna. Það er tekið upp sama kerfi og þar gildir, en það er allmikið frábrugðið því kerfi, sem lögin um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum gerðu ráð fyrir, en þau byggðu á reynslu eldri lífeyrissjóða og þá helzt embættismannasjóðanna. Samkv. þeim breytingum, sem nú er gert ráð fyrir á þessum lögum, verður veruleg bót á eftirlaunagreiðslum til aldraðra í stéttarfélögum. Það, sem kannske mætti helzt að finna, er, að eftirlaunagreiðslur geta enn orðið nokkuð lágar, en hins vegar er tekið tillit til þess, að menn, sem hafa haft mjög litla vinnu — svo litla, að naumast er hægt að segja, að þeir hafi verið við störf á s. l. árum — falla undir lögin, og ef þeir á annað borð falla undir lögin, þá eru ákveðnar lágmarksgreiðslur til þeirra, sem núna, eins og bótaupphæðum er háttað, verðlagi og kaupi, mundu vera um 12 þús. kr. á ári. Það er lægsta upphæð, sem hægt ea að greiða samkv. þessu frv. Hins vegar samkv. lögunum, eins og þau nú eru, hafa þessar greiðslur farið niður í svo sáralitlar upphæðir, að það hefur engan veginn tekið því að vera að afgreiða þær. Þær hafa komizt niður fyrir 200 kr. á mánuði.

Að öðru leyti eru breytingarnar á l. þessum, eins og frsm. n. tók fram, þær, að grundvöllur l. er færður út. Áður náðu þau einvörðungu til félaga innan Alþýðusambandsins; það voru þau ein, sem sömdu um málið fyrir sína félagsmenn. Nú eru þau útvíkkuð þannig, að þau ná til allra, sem greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs, en Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir 3/4 hluta af kostnaði við þessar bætur, og einnig er það skilyrði, að viðkomandi félagasamtök hafi komið á hjá sér lífeyrissjóði með skylduaðild. Ég átti hlut að endurskoðun l. núna og er samþykkur því frv., sem nú liggur fyrir. Það hefur einnig verið samþykkt af miðstjórn Alþýðusambandsins, og hinn samningsaðilinn, Vinnuveitendasambandið, var einnig við þessa endurskoðun. Það er aldrei svo, að það sé ekki ýmislegt, sem maður hefði kosið á annan veg, en sú breyting, sem hér er gerð núna, felur í sér verulegar lagfæringar á lögunum, og ég vonast til þess, að þau fái nú afgreiðslu, en eftir sem áður er augljóst, að þessi lög þarf að endurskoða í samræmi við fengna reynslu. Það má vel vera, að við framkvæmd laganna, eins og þau eru nú hugsuð, komi einnig fram ágallar og vandamál, en ég vona, að þau verði mun minni en áður.

Ein breyting, sem er verulega til bóta, er, að skilyrði, hvað snertir starfsaldur, eru með öðrum hætti núna og gera mögulegt, að menn, sem útilokaðir voru áður, falli undir þessi lög. Það er tvennt, sem þessu veldur, þ. e. að nú gildir 10 ára regla, hvenær sem er á tímabilinu frá 1955, og eins hitt, að nú gera lögin ráð fyrir því, að þeir, sem hafa verið bændur einhvern hluta þessa tímabils, heyri einnig undir lögin og á sama hátt heyri verkamenn, — það er hugsað gagnkvæmt — sem kynnu að gerast bændur, undir Lífeyrissjóð bænda. Ég mæli með því, herra forseti, að frv. verði samþ. óbreytt.