02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

213. mál, náttúruvernd

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að flytja hér skrifl. brtt. við 3. gr. frv., svo hljóðandi:

1. mgr. 3. gr. hljóði svo:

Í hverju sýslu- og bæjarfélagi og Reykjavík skal starfa 3–7 manna náttúruverndarnefnd. Sýslunefnd, bæjar- eða borgarstjórn ákveður fjölda nefndarmanna og kýs þá til fjögurra ára í senn og ákveður formann. Varamenn skulu kosnir jafnmargir til sama tíma.“

Í þessari brtt. felast ekki aðrar breytingar en þær, að það er lagt á vald hvers sýslu- og bæjarfélags að ákveða tölu þeirra manna, sem sitja skuli í náttúruverndarnefnd, en við í Reykjavík höfum t. d. sjö manna náttúruverndarnefnd og teljum það nauðsynlegt til þess að fram komi þau sjónarmið, sem æskilegt er, að séu til staðar í nefnd sem þessari. Ég vil aðeins vekja athygli á því varðandi 26. gr. frv., að þar eru tvær prentvillur í 3. mgr. Þar er vitnað til 3. mgr., en á að vera 2. mgr. og sagt er, að „gera“ skuli fulltrúum sveitarfélaga kost á, en á auðvitað að vera „gefa“ skuli. Þetta lít ég á sem prentvillur, sem leiðréttar verða að sjálfsögðu. Í 7. mgr. hafði ég tilhneigingu til þess að bæta við orðinu „hlutfallslega“ í lok mgr., þ. e. a. s. „Ef sveitarfélag hættir þátttöku í undirbúningi að stofnun fólkvangs, er því skylt að greiða áfallinn kostnað hlutfallslega.“ Ég tel þó ekki ástæðu til þess að bera fram brtt. á þessa leið, þar sem mgr. á undan skýrir þetta og ég tel vafalaust, að það sé ekki hægt að skylda sveitarfélög, sem hætta þátttöku í undirbúningi að stofnun fólkvangs, til að greiða áfallinn kostnað umfram það, sem íbúatala sveitarfélagsins segir til um miðað við önnur sveitarfélög, sem þátt taka í fólkvanginum.