11.02.1971
Neðri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru varla aðstæður til þess hér á þessum fundi að ræða það stóra mál, sem hér er til umr., um breytingar á tekju- og eignarskattslögunum, svo sem ástæða væri þó til, og geri ég ráð fyrir því að segja hér aðeins nokkur almenn orð um málið. Enda kom hér skýrt fram í ræðu hæstv. fjmrh., að hann gerir ráð fyrir því, að þetta mál verði athugað gaumgæfilega í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og þar verði reynt að samræma skoðanir, en hér sé fyrst og fremst um að ræða till., sem hafa komið fram hjá sérstakri embættismannanefnd, sem unnið hefur að samningu þessa frv., og ég skildi hann þannig, að hann sem fjmrh. og hans flokkur væntanlega einnig hefðu þar með ekki tekið fasta afstöðu til ýmissa mikilvægra atriða, sem er að finna í þessu frv. Það liggur sem sé allt fyrir áfram til athugunar, hvernig með skuli fara.

En almennt um málið vil ég segja það, að mér finnst, að embættismannanefndin, sem unnið hefur að því að semja þetta frv., hafi farið svona heldur frjálsum tökum með það að vinna eftir þeirri almennu stefnu, sem henni var mörkuð í starfsbréfi frá hæstv. ráðh. Það er greinilegt, að það er skoðun embættismannanefndarinnar, að það sé í rauninni þörf á því að taka okkar skattalög til rækilegrar endurskoðunar og gjörbreyta þar ýmsum grundvallaratriðum — veigamiklum atriðum — frá því, sem verið hefur, og hennar till. miðast að nokkru við þetta sjónarmið. En boðorðin frá hæstv. ráðh. voru hins vegar í aðalatriðum þau, að nú skyldi gera endurskoðun á skattalögunum með það fyrir augum fyrst og fremst að reyna að gera skattheimtuna einfaldari og gera ýmis ákvæði skattalaga einfaldari og auðveldari í meðförum en verið hefur. Ég dreg nú mjög í efa, að þessar till., sem embættismannanefndin tekur upp varðandi mjög þýðingarmikil málefni, séu þess eðlis, að þær geri í rauninni framkvæmd þessara mála auðveldari en áður var, hvað sem um þau má nú segja að öðru leyti.

Þá hafði hæstv. ráðh. einnig lagt það til í sínu bréfi, að það yrði tekið til sérstakrar athugunar að breyta skattalöggjöfinni á þá lund, að atvinnurekstur hér á landi ætti ekki að þurfa að bera öllu þyngri opinbera skatta en hliðstæður atvinnurekstur gerir í öðrum EFTA-löndum. Ég lít þannig á líka, að svo eðlilegt sem það er, að hæstv. ráðh. leggi þetta fyrir starfsnefnd, þá sýnist mér, að till. embættismannanefndarinnar séu harla lítið miðaðar við þetta út af fyrir sig, enda hafi það verið skoðun hennar — og ég hygg líka, að það mundi verða skoðun fleiri, sem athuguðu þessi mál — að það væri ekki undan ýkja miklu að kvarta fyrir atvinnurekstur hér á landi í samanburði við skattlagningu í ýmsum öðrum EFTA-löndum miðað við þá löggjöf, sem við eigum við að búa nú — ekki þegar litið er á málin sem heild, þó að vitanlega séu alltaf til einstök undantekningarákvæði í þessum efnum, sem mundu þá kalla í rauninni á minni háttar breytingu.

Þá hafði hæstv. ráðh. einnig lagt það fyrir n. að koma fram með breytingar á skattalöggjöfinni varðandi skattlagningu einstaklinga. Af málinu eins og það liggur nú fyrir frá embættismannanefndinni, er augljóst, að hún hefur ekki komizt yfir þennan þátt málsins. Sá þáttur er í rauninni að mestu leyti eftir.

En eigi að síður kemur embættismannanefndin fram með býsna athyglisverðar skoðanir í þeim till., sem hér liggja fyrir í frv.-formi, og ég tel, að sumt af því, sem þar kemur fram, sé réttilega skoðað hjá embættismannanefndinni og jafnvel til bóta. En í ýmsum öðrum greinum fellst ég ekki á þau sjónarmið, sem ríkjandi hafa verið hjá embættismannanefndinni, og tel þar, að hennar till. stefni í mjög vafasama átt.

Svo að aðeins sé drepið í örstuttu máli á þýðingarmestu breytingarnar, sem hér er um að ræða varðandi skattlagningu félaga — því að þær till., sem hér liggja fyrir, eru nálega einvörðungu um skattlagningu félaga, en hitt eru aðeins minni háttar breytingar, sem fylgja þarna með — þá er að finna í frv. mjög miklar breytingar varðandi fyrningarafskriftir hjá fyrirtækjum frá því, sem í gildi hefur verið í okkar skattalögum um langan tíma. Það er sagt, að þessar nýju fyrningarreglur séu byggðar á því í grundvallaratriðum, að ætlað sé, að allur atvinnurekstur í landinu eigi að búa þar við hliðstæð kjör gagnvart skattalögum, þ.e. að njóta svipaðra fyrningarafskrifta. Eins og þetta kemur hér fram í frv., þá tel ég, að þetta feli raunverulega það í sér, að hinar nýju fyrningarreglur, sem gilt hafa gagnvart langsamlega stærsta og þýðingarmesta atvinnuvegi okkar, þ.e. sjávarútveginum eða öllum greinum hans, séu síður en svo til hagsbóta. Í vissum greinum tel ég þær til hins lakara, enda skal það fyllilega játað, að sjávarútvegsfyrirtækin hafa notið samkv. gildandi skattalögum okkar mikilla fríðinda í sambandi við fyrningarafskriftir. Hitt er hins vegar ljóst, að þessar almennu reglur, sem þarna er gert ráð fyrir að taka upp, mundu þýða í velflestum tilvikum aukin skattfríðindi fyrir t.d. verzlunarrekstur og fyrir rekstur iðnfyrirtækja í vissum tilvikum, en engan veginn í öllum að mínum dómi.

Ég álít það, að reynslan hafi þegar sýnt það, að þær fyrningarreglur, sem í gildi hafa verið, hafa verið tiltölulega rúmar gagnvart atvinnurekstri, enda er sannleikur málsins sá, að atvinnurekstur hér á landi hefur ekki, þegar almennt er á það litið, þurft að greiða til hins opinbera ýkja háa skatta, enda kemur það fram, þegar heildartölur eru skoðaðar hér hjá okkur. Hvað hefur okkar atvinnurekstur borið í opinber gjöld á undanförnum árum t.d. í hlutfalli við það, sem einstaklingar hafa borið? Þá kemur strax í ljós, að heildargreiðslur atvinnurekstrarins í opinber gjöld samkv. skattalögum og samkv. skattlagningu sveitarfélaga, þ.e. í hina beinu skattlagningu, eru ekki háar; þær eru lágar.

Ég vil segja það í sambandi við þessar fyrningarreglur án þess að fara frekar út í það að þessu sinni, að ég tel, að það sé aðeins eðlilegt, þegar fyrningarreglur eru ákveðnar í skattalögum — en þær jafngilda í rauninni í framkvæmd ákveðnum skattfríðindum — að tekið sé fyllilega tillit til þess, hvers eðlis eignirnar eru og atvinnureksturinn, hvort það verður að teljast mjög líklegt, að eignirnar hafi takmarkað verðgildi — kannske aðeins bundið við þann atvinnurekstur, sem eignin þjónar frá upphafi — og hvort veruleg hætta er á því, að eignin verði skyndilega verðlaus eða verðlítil, ef um einhverjar almennar breytingar í atvinnurekstrinum verður að ræða. Og á sama hátt tel ég, að líka eigi að taka tillit til þess, ef atvinnureksturinn er þess eðlis, að ýmsar eignir hans og tæki eru þannig, að það er auðvelt að breyta þeim til notkunar og hafa fullt gagn af þeim til annars en þær höfðu upphaflega verið ætlaðar; þær hafa miklu almennara verðgildi.

Dæmi um þetta, sem ég nú hef verið að nefna, er t.d. eins og stundum hefur verið minnzt á annars vegar — við skulum segja — síldarverksmiðja, sem byggð hefur verið, eða aðrar eignir, þar sem eignin getur tapað verðgildi sínu tiltölulega snögglega og hún verður ekki notuð til margs annars en þess, sem hún upphaflega hafði verið ætluð til. Það var því í rauninni nauðsynlegt að gefa þarna nokkuð ríflegar fyrningarafskriftir vegna áhættu og aðstöðu. En hins vegar má nefna t.d. verzlunarhús, sem hefur nálega fullt gildi, jafnvel þó að verzluninni verði lokað og þeim rekstri þar hætt. Þar er vitanlega aðstaða öll önnur til þess að halda uppi verðgildi eignarinnar. Og ég álít, svo að hugsað sé út af þessum dæmum, sem ég hef hér nefnt, að það verði og eigi að taka mikið tillit til þessa í sambandi við almennar reglur, sem settar eru um fyrningu. Varðandi þetta mikilvæga atriði í þeim till., sem hér liggja fyrir, þá tel ég sem sé, að hinar nýju reglur, sem eru býsna athyglisverðar á margan hátt, um fyrningu, séu þó þannig, að það þurfi að athuga þær miklu betur, áður en þær verða teknar upp og hinum kastað, sem í gildi hafa verið.

Þá er einnig að finna í þessum till. býsna mikilvægt atriði varðandi skattlagningu félaga, t.d. hlutafélaga, sem eru algengustu rekstrarfélögin, þar sem nú er gert ráð fyrir því að leggja niður varasjóð slíkra félaga og varasjóðshlunnindin, en til þessa hafa hlutafélög mátt leggja í varasjóð 25% af hagnaði sínum, án þess að hann væri skattskyldur, en þó með því skilyrði, að varasjóðurinn héldist örugglega í félögunum áfram. Hér hefur auðvitað tvímælalaust verið um mikil skattfríðindi að ræða til þessa félagsrekstrar. Nú er gert ráð fyrir því að leggja varasjóðinn niður, afnema þessi sérstöku hlunnindi og taka annað upp í staðinn, þar sem er hinn svonefndi arðjöfnunarsjóður.

Ég tel, að þær hugmyndir, sem þar koma fram hjá embættismannanefndinni, séu líka á þá lund, að þær séu á margan hátt varhugaverðar. Þar er gert ráð fyrir því, að öll hlutafélög geti lagt í arðjöfnunarsjóð — ekki aðeins 25%, heldur í rauninni allan hagnaðinn, sem verður á viðkomandi ári, ef stjórnendur fyrirtækisins telja sér það hagkvæmt, því að um þetta gilda sérstakar reglur, hve langt er hægt að ganga í þessum efnum, þegar til lengri tíma tekur, og þá gert ráð fyrir því, að greiddur verði að vísu 15% skattur af því, sem lagt er í arðjöfnunarsjóðinn — 15% skattur til ríkisins, en hins vegar ekkert til sveitarfélaga. Og síðan er það gert mögulegt, að fyrirtækin geti ráðstafað fé úr arðjöfnunarsjóði á miklu auðveldari hátt en þau gátu áður gert, og jafnframt er þeim beinlínis gert kleift að deila út hagnaði úr arðjöfnunarsjóði með þeim hætti, að þeir, sem taka við arðinum og eiga hlutabréfin, þurfi ekki að greiða skatt af þessum arði að vissu marki. Þannig er gert ráð fyrir því, að meðalfjölskylda, t.d. hjón með tvö börn, hafi aðstöðu til þess að taka við arði úr hlutafélagi, sem nemur um 90 þús. kr. á ári, án þess að þurfa að borga nokkurn skatt af slíkum arði. Ég tel fyrir mitt leyti, að þær reglur, sem gengið er út frá, að arðjöfnunarsjóðurinn eigi að starfa eftir, séu á ýmsan hátt þannig, að þær séu varhugaverðar og það þurfi að endurskoða þær. Og mér sýnist, að það sé síður en svo með þessu fyrirkomulagi stefnt að því, sem hæstv. fjmrh. hafði beinlínis lagt fyrir embættismannanefndina að vinna að með sínum till., en það var að reyna að tryggja það, að sem mest af arði rekstrarins yrði áfram í félögunum.

Þá eru einnig í þessu frv. teknar upp nýjar reglur varðandi skattlagningu á hagnaði, sem fram kemur

við sölu eigna. Ég játa það, að þarna er tekið á býsna þýðingarmiklu efni, því að það er auðvitað enginn vafi á því, að í ýmsum tilvikum þætti manni eðlilegt, að þeir aðilar, sem sannanlega hagnast verulega á eignasölu, jafnvel þó að þeir hafi verið búnir að eiga viðkomandi eign í nokkur ár, yrðu skattlagðir að einhverju leyti ekki síður en þeir, sem skattlagðir eru vegna beinnar tekjuöflunar. Hins vegar tel ég fyrir mitt leyti, að þær reglur, sem settar eru fram í till. embættismannanefndarinnar, séu þannig, að þær séu mjög óaðgengilegar og hljóti í ýmsum tilvikum að þýða það, að hér verður tekin upp í þessu formi skattlagning á verðbólguhagnaði og ýmsum fyrirtækjum og aðilum verður torveldað að geta komið fram eðlilegum breytingum í sambandi við sínar eignir, þ.e, að selja hið gamla og kaupa aftur nýtt. Ef a.m.k. reglurnar um þetta yrðu nákvæmlega eins og þær eru í þessu frv., þá mundu þær tvímælalaust leiða til þess.

Þessi atriði, sem ég hef hér minnzt á, eru aðalbreytingarnar að mínum dómi, sem varða skattlagningu félaga. Það eru fyrningarreglurnar og ákvæðin um arðjöfnunarsjóðinn og varasjóðinn og um skattlagningu á söluhagnaði. Þetta eru langsamlega veigamestu atriðin, og ég tel, að allar þessar till. þurfi því að athuga miklu betur.

En varðandi breytingar á skattalöggjöfinni vil ég taka það fram, að ég tel, að það sé í rauninni ómögulegt að taka á því máli á raunhæfan hátt, án þess að allir þættir málsins séu í rauninni teknir fyrir allir í senn. Þar á ég við það, að breytingar séu gerðar samhliða á skattlagningu félaga, skattlagningu einstaklinga og tekjumálum sveitarfélaganna. Að gera sjálfstætt breytingu aðeins á einum þessara þátta hér á Alþ. tel ég vera mjög hæpið.

Ég held líka, að þó að það væri hægt, sem ég tel vera hægt, að veita meiri skattfríðindi félögum og einstaklingum en nú er gert í sambandi við skattheimtu ríkisins, þá er engan veginn víst, að það sé raunhæft að veita hliðstæða skattaívilnun gagnvart sveitarfélögunum að öllu öðru óbreyttu. Mér er það t.d. ljóst, að verði enn létt skattgreiðslum af félögum með almennum reglum og hafi það einnig áhrif á tekjustofna eða grundvöll tekjustofnalaganna hjá sveitarfélögum þannig, að félögin þurfa þá að greiða minna til sveitarfélaganna en þau hafa gert áður, þá mundi þetta að óbreyttum öðrum ákvæðum laga þýða það í reynd, að sveitarfélögin mundu hækka álögur sínar að sama skapi á einstaklingunum. Slíka breytingu tel ég ekki eðlilega, eins og nú háttar, nema síður sé.

Ég held, að það sé enginn vafi á því, að hver sá, sem kynnir sér þessi mál vandlega, kemst að raun um það, að flestar tegundir af atvinnurekstri hjá okkur nú borga tiltölulega lítið í beina skatta, bæði til sveitarfélaganna og til ríkisins, svo að það væri síður en svo til bóta að létta þessa skatta, sem eru tiltölulega lágir, og láta það leiða til þess að hækka í reyndinni um leið útsvörin á almennu launafólki í sveitarfélögunum. Ég tel, að það sé enginn vafi á því, að það þurfi að lagfæra mörg ákvæði í gildandi skattalögum nú og einnig í tekjustofnalögunum. Þar eru ýmis ákvæði, sem eru vægast sagt vafasöm og önnur alveg beinlínis ranglát, og það þarf að reyna að koma þar fram æskilegum breytingum. Enn aðrir þættir þessara skattamála liggja í rauninni fyrir utan bæði tekjustofnalögin sem slík og eins skattalög ríkisins, og má þar nefna t.d. nefskattana, sem hæstv. ráðh. minntist hér á, og ýmis önnur gjöld. Þessi atriði þarf í rauninni öll að taka til endurskoðunar af sömu aðilum og samtímis.

En ég sagði hér í upphafi míns máls, að það væri ekki aðstaða til þess að tala hér langt mál um þessar skattalagabreytingar að þessu sinni, og skal því stytta mál mitt nú. Aðalatriðin í því, sem ég vildi segja hér við þessa umr., eru þessi, að ég tel, að ýmsar þær till., sem fram koma í þessu frv. og snerta skattlagningu félaga, séu þess eðlis, að það þurfi að taka þær til frekari athugunar og ýmis ákvæði þeirra stefni ekki í æskilega átt. Ég tel, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að jafnhliða till. varðandi skattlagningu félaga komi hér einnig fram till. um skattlagningu einstaklinga og einnig komi hér fram samhliða till. varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Þetta tel ég skipta langsamlega mestu máli.

Svo kemur auðvitað að því stóra máli, sem ég tel eitt það stærsta varðandi breytingar á skattalögum. Það er að bæta lögin þannig, að sérstaklega verði dregið úr möguleikum þeirra, sem fást við atvinnurekstur og eru í ýmsum óeiginlegum störfum eða sjálfs sín húsbændur, á því að skjóta undan tekjum, þannig að þær komi ekki eðlilega til skattlagningar. Það er það, sem valdið hefur mestri óánægju hjá einstaklingunum, að reka sig á það, að hinn almenni launamaður, sem ræður ekki framtali sínu nema að litlu leyti sjálfur, þar sem það eru aðrir, sem svo að segja telja fram fyrir hann, verður að borga skatta nokkurn veginn nákvæmlega af þeim tekjum, sem hann hefur haft. Hins vegar liggur það í augum uppi, að ýmsir aðrir aðilar, sem hafa með höndum stærri eða minni atvinnurekstur eða eru sjálfs sín húsbændur, geta svo að segja skrifað tekjur sínar á blaðið án þess að athuga nokkur gögn, af því að eftirlitið með því, hvaða tekjur þeir hafa raunverulega haft, er afar litilfjörlegt. Þeir komast því upp með að skjóta undan verulegum hluta af tekjum sínum, og ýmis atvinnurekstrarfyrirtæki hafa þennan möguleika líka í reynd. Ég álít, að það þurfi líka að vinna að því að draga úr þeim ágöllum skattalaganna, sem í rauninni heimila óeðlilega framkvæmd í þessum efnum, þannig að hægt er a.m.k. að færa þetta undir einhvern lagabókstaf. Það þarf að vinna að því að breyta slíku og einnig að reyna að koma betur í veg fyrir það, að menn beinlínis skjóti undan sínum tekjum.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um málið að sinni. Málið fer í þá n., þar sem ég á sæti, og þar gefst því tími til þess að taka þessi mál öll til frekari athugunar og umræðu síðar.