03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. hér mikið, enda hefur hv. frsm. minni hl., hv. 11. þm. Reykv., gert skýra og glögga grein fyrir afstöðu okkar í minni hl., og get ég undirstrikað flest eða allt, sem hann sagði um málið. Og ég vil þó alveg sérstaklega byrja á því að ítreka og undirstrika það, sem hann sagði um alla málsmeðferðina, hversu óhæf hún hefur verið á allan hátt sérstaklega gagnvart þessari hv. þd., sem aðeins fékk jafnmarga klukkutíma til þess að íhuga málið í n. og hv. Nd. hafði marga mánuði til þess að fjalla um málið. Þrátt fyrir það er ég ánægður yfir því að hafa notið tveggja stunda kennslu — ásamt öðrum hv. nm. í fjhn. — ríkisskattstjóra og ráðuneytisstjóra í fjmrn., sem vissulega var mikils virði, því að þeir svöruðu greiðlega þeim fsp., sem við vorum þá viðbúnir að leggja fyrir þá.

Hitt hlýt ég að vita, að ekki sé staðið við það að gefa mönnum þær tölulegu upplýsingar, sem um var beðið og lofað hafði verið. Það tel ég vera fyrir neðan virðingu hæstv. ráðh. að sjá ekki svo um, að hans embættismenn gegni þeirri skyldu sinni að gefa alþm. þær upplýsingar, sem þeir biðja um og ekki eru talin nein vandkvæði á að veita. En eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., höfum við aðeins fengið annað það skjal, sem hér var um að ræða. Og þetta skjal, sem ég hef hér fyrir framan mig, er víssulega athyglisvert, eins og hv. 11. þm. Reykv. benti á, og ekki sízt er það athyglisvert í mínum augum, þegar ég minnist þess, hvaða loforð viðreisnarstjórnin gaf, þegar hún tók við völdum í landinu, en þá var því hvorki meira né minna en lofað í þeirri viðfrægu bók „Viðreisn“, sem fáir eiga nú lengur í fórum sínum, að tekjuskattur á einstaklinga skyldi afnuminn. Hún er orðin slíkur forngrípur, að ekki er auðvelt að ná til hennar, og mér hefur ekki tekizt að fá hana annars staðar en hér — lánaða af náð og miskunnsemi úr bókasafni hv. Alþ. Og ég verð að segja það, að mér þætti ákaflega vænt um það, ef ráðh. gæfi upplýsingar um það, hvort ekki er nægilegt upplag til af þessari bók til þess, að þm. geti farið með hana heim til sín núna, þegar þingi lýkur, og flett upp í henni öðru hverju í sambandi við þær umr., sem áreiðanlega verða um stjórnmál, m.a. ástand skattamálanna og annað, þegar þeir fara að gera upp sín mál við kjósendur.

En í þessu plaggi, ef mig misminnir ekki mikið — og ég verð að játa, að það er eins með mig eins og hæstv. ríkisstj., að ég er búinn að týna þessum gullum mínum, sem ég þó reyndi að halda í — þá var því lofað, að tekjuskattur á einstaklinga skyldi afnuminn; það yrði stefnt að því, að tekjuskattur á einstaklinga yrði afnuminn. En ef hæstv. ráðh. hefur eintak af bókinni hér hjá sér og flettir þessu upp og annað kemur í ljós, þá skal ég vera fús til þess að viðurkenna misminni mitt. En ég held, að þetta hafi áreiðanlega staðið þar eða eitthvað mjög í þá átt. En samkv. þessu plaggi, sem ég hef hér fyrir framan mig, þá hefur tekjuskattur og að vísu eignarskattur, sem er mjög óverulegur og kemur ekki ýkja mikið inn í þessa mynd, aukizt úr 49 millj. kr. árið 1960 í 881.6 millj. kr. á árinu 1970. Lauslega áætlað er hér um nær tvítugföldun að ræða. Á sama tímabili, þ.e. frá árinu 1960 til 1970, hefur kaupgjald verkamanna hækkað að meðaltali úr 21.68 kr. í 76.67 kr., þ.e. lítið meira en þrefaldazt, á sama tíma og tekjuskattarnir hafa nærri því tvítugfaldazt. Þannig hefur verið staðið við þetta gullna loforð um að draga úr eða jafnvel afnema tekjuskatta ríkisins af einstaklingum. Þarna er a.m.k. miðað við verðgildi um fimm- eða sexföldun að ræða á þessum sköttum.

Þetta er svo auðvitað ekki nema önnur hliðin á því máli, sem að þessu lýtur, því að að sjálfsögðu ber þarna einnig að athuga útsvörin og yfirleitt alla tekjuöflun ríkissjóðs. Þar er myndin áreiðanlega sízt betri, sérstaklega ef maður tekur tillit til þess, hvernig söluskattskerfinu hefur verið breytt á þessu tímabili — og þar með verður um miklu meiri margföldun að ræða en nokkurn tíma á tekjusköttunum.

Félögin hafa hins vegar aldrei greitt umtalsvert til ríkisþarfa í tekju- og eignarskatt, þó að sérstök ástæða þyki nú til þess að draga verulega úr þeirri upphæð, sem á árinu 1970, þ.e. á s.l. ári, var ekki nema 191 millj. kr. samkv. því plaggi, sem ég hef hér fyrir framan mig. Og eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., þá hefur hluti félaganna, hundraðshluti tekju- og eignarskatta í heild, minnkað úr 40% í 17% á þessu tímabili. En samt sem áður þykir nú við hæfi að taka upp þá nýju pólitísku stefnu, sem hæstv. ráðh. hefur,lýst, þ.e. að draga mjög úr þessari skattheimtu af félögunum. Það er mál fyrir sig, sem auðvitað má lengi deila um, hvernig á að afla þessa fjár, en ég fer ekki ofan af því, sem ég hélt hér fram við 1. umr. málsins, að jafnvel þó að þessi stefna sé tekin upp, að því leyti sem tekjuskattinn áhrærir, þá er ég ekki farinn að sjá það, fyrr en ég hef alla myndina fyrir mér, hversu mikið atvinnurekendur græða á þessari breytingu.

Mér heyrðist t.d., að hv. síðasti ræðumaður, hv. 7. landsk. þm., væri að segja hér áðan, að hann væri ekki ákaflega hrifinn af þeirri stefnu, sem hæstv. fjmrh. boðaði hér, þegar málið var til 1. umr., þ.e. að fasteignaskattar yrðu auknir stórkostlega. Ef ekki er hér um það að ræða að færa stórkostlega mikið meira af gjöldunum yfir á launafólkið í landinu og þá aðallega láglaunafólkið og miðlungslaunafólk, hvað er þá eftir? Eru menn þá að biðja um hærra aðstöðugjald? Er hv. 7. landsk. þm. að biðja um það, að aðstöðugjöldin séu margfölduð eða stóraukin frá því, sem nú er? Þessar spurningar hljóta að vakna vegna þess, að leiðirnar í skattamálunum eru ekki svo ýkja margar. Er kannske verið að boða stórkostlega hækkun á söluskatti hjá almenningi? Eða er verið að boða aukna tolla og þá jafnhliða framleiðslugjald á iðnaðarvörum? Hvort tveggja yrði að fara saman, ef að þeirri leið væri horfið, vegna skuldbindinga okkar í EFTA.

En ég læt nú útrætt um þessa hlið málsins og kem þá að því, sem ég vildi eiginlega ræða sérstaklega við hæstv. fjmrh. um. Það er þá í fyrsta lagi um arðjöfnunarsjóðsleiðina, sem farið er inn á með þessu frv. og mér sýnist, að hafi ýmsa ágalla í för með sér. A.m.k. hefði verið hægt að leysa þau vandamál, sem með þessu er verið að reyna að leysa, með öðrum og hagkvæmari hætti bæði fyrir atvinnureksturinn og fyrir þjóðfélagið í heild með þeirri till., sem ríkisskattstjóri, sá ágæti embættismaður, kom fram með í embættismannanefndinni, þ.e. að horfið yrði frekar að því ráði að heimila bæði einstaklingum og félögum að stofna fjárfestingarsjóði með allt að 30% af hreinum tekjum sínum, þ.e. þegar laun hafa verið greidd, en þó ekki með lægri upphæðum en 65 þús. kr., og síðan væru 40% af þessum sjóði „deponeruð“ í bönkum eða með öðrum hætti og væru eins konar bundin innstæða, þangað til hún yrði notuð til fjárfestingar, en yrði síðan skattlögð á 11. ári með 9% vöxtum, ef það hefði þá ekki á því tímabili verið notað til fjárfestingar. Þessi leið hefði haft m.a. þá stórkostlegu kosti fram yfir arðjöfnunarsjóðsleiðina, að me$ því hefði ekki verið mismunað eins herfilega og gert er atvinnurekstrarformunum, þ.e. annars vegar hlutafélagaforminu og hins vegar því formi, þar sem einstaklingur hefur með sinn rekstur að gera og stendur og fellur fjárhagslega með því, hvernig honum gengur.

Það getur vel verið rétt hjá hv. 7. landsk. þm., sem hér talaði síðast, að einstaklingshyggjan sé allt of mikil hjá okkur, og verð ég nú að segja, að ég fagna því, að sú kenning kom einmitt úr þeirri áttinni, því að hún er nú ekki alveg lík því, sem hann og hans flokksbræður hafa yfirleitt haldið fram, þar sem þeir hafa nú sérstaklega talið sig vera málsvara einstaklingsframtaksins. Og þó að ég viðurkenni það, að einstaklingshyggjan geti gengið úr hófi fram, þá held ég þó, að einmitt þetta rekstrarform geti á ýmsum sviðum átt ákaflega vel við, sérstaklega í ýmiss konar smárekstri, og eigi að eiga fyrir sér langa framtíð, ef það er ekki heft með einhverjum hætti eða beinlínis eða óbeinlínis bannað, eins og hér er stefnt að með þeirri löggjöf, sem nú er verið að setja. Ég hef yfirleitt ekki þurft að standa hér uppi í ræðustól á hv. Alþ. til þess að verja einstaklingsframtakið, en mér sýnist full þörf á því, að sú vörn komi einhvers staðar annars staðar að en frá hv. sjálfstæðismönnum. Og ég skammast mín ekki fyrir það að taka upp hanzkann fyrir þá menn, sem vilja leggja allar eignir sínar undanbragðalaust í hættu fyrir heilbrigðan atvinnurekstur, en fela sig ekki á bak við hlutafélagsform, sem gefur þeim færi á því að láta félögin verða gjaldþrota, en standa samt uppi sem efnamenn á eftir. Ég tel það vera svívirðilegt að gera á þennan hátt mun á einstaklingunum annars vegar og hlutafélagaforminu hins vegar.

En mér sýnist líka, að hér sé um annað og meira að ræða í sambandi við þessar tvær hugsanlegu aðgerðir, annars vegar till. ríkisskattstjóra og hins vegar ákvæði frv. um arðjöfnunarsjóð, og það snertir mjög það vandamál, sem við höfum átt einna erfiðast með að glíma við hér á síðustu árum, þ.e. verðbólguna, og hins vegar það, hvernig mönnum er gefið tækifæri með skattalöggjöfinni til þess að sleppa frá réttlátum gjöldum til þarfa hins opinbera, bæði bæja og ríkis, með t.d. sérstökum fyrningarreglum, eins og gert er. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þeir, sem hafa notið sérstakra forréttinda í fyrningarreglum, eins og þær hafa verið á undanförnum árum, hafa auðvitað lagt á það höfuðáherzlu að standa í stöðugri fjárfestingu, þ.e. hafa alltaf nóg af nýjum framkvæmdum til þess að geta afskrifað til þess að geta sloppið við skatta og hafa þá ekki sézt fyrir í því, hvort þær framkvæmdir allar væru af nokkru viti gerðar eða jafnvel hvort það væri líklegt, að þær gæfu af sér nokkurn arð. Þeir hafa heldur viljað sjá ónýta steinsteypu við hliðina á fyrirtækjum sínum en þurfa að greiða að einhverju leyti í skatta upphæðirnar, sem það hefur kostað að byggja úr steinsteypunni. Þetta er staðreynd, sem blasir við og öllum er kunnugt um — líka hæstv. ráðh., sem fyrir þessu frv. stendur.

Ef aftur á móti sú leið hefði verið farin, sem ríkisskattstjóri lagði til, að menn gætu geymt fjárfestingarsjóði í allt að 11 ár, þá þykir mér miklu líklegra, að fjárfestingarstefnan hjá einstaklingunum hefði farið inn á heilbrigðari brautir en þegar menn eru óbeint hvattir til þess að standa í árlegri fjárfestingu til þess að flýja undan opinberum gjöldum, og það tel ég höfuðkost þessarar hugmyndar, þ.e. arðjöfnunarsjóðsleiðarinnar. Ég vildi þess vegna gjarnan, vegna þess að það hefur ekki komið fram í þessum umr. hvorki fyrr né síðar — a.m.k. ekki hér í hv. d., fá á því fulla skýringu, hvers vegna þessari — að mínu viti — ágætu hugmynd ríkisskattstjóra var hafnað. Var það gert til þess að mismuna einstaklingunum og hlutafélögunum, eða var það gert af einhverjum öðrum ástæðum? Varla hefur það getað verið gert af skatttæknilegum ástæðum, þar sem að till. stóð áreiðanlega sá maðurinn, sem er hæfastur í þeim efnum og hefur bezta þekkingu á því, hvað skatttæknilega er heppilegt. Í þessum efnum má svo vísa til þess, sem fram kom á fundi hv. fjhn., að fyrirmyndir að slíkum fjárfestingarsjóðum eru auðsóttar til nágrannalandanna eins og t.d. Danmerkur. Þetta er sem sé spurning, sem ég vildi gjarnan fá svar við hjá hæstv. ráðh. sem fyrirsvarsmanni þeirrar breytingar, sem nú er verið að gera á hluta af skattakerfinu.

Ég ætla svo ekki að fara hér út í þá hluti, sem hv. frsm. meiri hl. gerði hér nokkuð að umtalsefni, en ég er honum fullkomlega sammála, þegar hann gagnrýnir mjög ákvæði frv. um skattfrelsi hlutafjárarðs. Ég get aðeins undirstrikað allt, sem hann sagði um það, en get þó ekki stillt mig um frekar en hv. 11. þm. Reykv. að vekja athygli á því, hvers vegna þessi hv. þm. vill ekki standa, eins og honum stóð til boða í hv. n., að breytingum á þessu atriði, þar sem hann er okkur algerlega sammála um það. Þykir mér það nokkuð hart, að menn séu það bundnir á höndum og fótum, að þeim sé fyrirmunað að greiða atkv. og flytja eða fylgja till. í samræmi við samvizku sína. Og ég verð að segja, að mér þykir illa farið með svo góðan dreng sem hv. þm. er, að það skuli verða eitt af hans síðustu verkum hér á hv. Alþ. að hljóta þannig meðhöndlun.

Þá er það enn þá eitt, sem ég vildi örlítið gera að umtalsefni, og það er í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér, þegar málið var til 1. umr. hér í hv. d. Ég held, að ég muni það næstum því orðrétt, þó að ég skrifaði það ekki niður eftir honum, en mig minnir, að honum færust orð á þá leið, að honum mundi ekki hafa dottið í hug að láta þetta frv. ná fram að ganga — ýta því í gegnum þingið, ef atvinnurekendur hefðu ekki að gerðum þeim breytingum, sem á frv. hafa verið gerðar, samþykkt það að öllu leyti og lagt áherzlu á, að það yrði samþykkt hér á hv. Alþ. Nú þykir mér að vísu, sem lesa megi út úr því, sem hv. 7. landsk. þm. sagði hér, að atvinnurekendur séu ekki að öllu leyti eins öruggir um sinn hag í sambandi við þetta frv. og hæstv. ráðh. vildi vera láta.

En þessi fullyrðing hæstv. ráðh. — þessi viljayfirlýsing hans um, að ekki sé hægt að afgreiða lög, sem varða atvinnureksturinn nema með beinum samningum og samþykki atvinnurekenda, leiðir hug minn að annarri spurningu. Á þá ekki nákvæmlega það sama að gilda, þegar launþegar eiga í hlut, þegar aðrir skattgreiðendur í landinu eiga í hlut? Og á þá að viðhafa sömu aðferð, þegar kemur að þeim þætti skattamálanna, sem að einstaklingunum snýr, sem að launafólki í landinu snýr? Á þá að hafa sömu aðferð, þ, e. að láta það vera háð þeirra samþykki, hvort slík löggjöf nær fram að ganga eða ekki? Eða er það svo, að atvinnurekendur hafi hér alger forréttindi, hafi hér algert „privilegium“ í sambandi við skattamálin, það eigi að semja við þá og það sé talinn sjálfsagður hlutur bæði sanngjarn og í samræmi við þjóðarhagsmuni? Hins vegar skipti það engu, hvaða skoðanir launafólkið, hinn almenni skattgreiðandi, sem ber meginþungan af öllum sköttum og skyldum til ríkissjóðs, hafi á málinu. Er þá ekki komið að því, ef hæstv. ráðh. vill vera sjálfum sér samkvæmur, að t.d. eigi að semja við Alþýðusamband Íslands og önnur launþegasamtök í landinu um þann hluta skattkerfisins, sem eftir stendur, eða eiga þau að búa við annan og miklu lakari hlut í þessum efnum en atvinnurekendur samkv. þessari yfirlýsingu? Ég hef reyndar aldrei efazt um það, að hæstv. ríkisstj. telur sig a.m.k. með réttu að einhverju leyti og þó áreiðanlega að nokkru leyti með röngu vera sérstaka fulltrúa íslenzkra atvinnurekenda. Það tel ég hana ekki vera nema að nokkru leyti. Og mér kemur þess vegna þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. ekkert sérstaklega á óvart, en þá er rétt, að hann sé jafnhreinskilinn og svari því, hver á réttur launþeganna, hins almenna skattborgara, að vera í þessum efnum. Eiga þeir að njóta sama réttar og atvinnurekendur virðast hafa notið í sambandi við afgreiðslu þessa frv.?

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð öllu fleiri að sinni a.m.k. Ég sagði það hér við 1. umr., að ég teldi þá pólitísku stefnu, sem upp væri tekin með þessu frv., vera líka þeirri, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt á undanförnum árum dyggilega, og eins og glöggt sést á þeim tölum, sem ég nefndi um tekju- og eignarskatt og aukningu þeirra samanborið við auknar launatekjur, er stefnan sú að færa meira af gjaldheimtunni til ríkissjóðs yfir á bök launafólks í landinu og létta á atvinnurekendum. Ég get undirstrikað það líka, sem ég sagði þá, að hér er eins og víða annars staðar hóf bezt í hverjum hlut. Ég viðurkenni það fullkomlega, að atvinnureksturinn í landinu þarf að eignast eigið fjármagn, en það verður þá jafnframt að nota skattkerfið sem hagstjórnartæki þannig, að þær ívilnanir, sem atvinnurekendur fá, nýtist til þess, að hagvöxturinn geti orðið meiri, þjóðin geti aflað meiri tekna og launþegarnir orðið færari til þess að sjá hag sínum borgið.