26.03.1971
Neðri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Frv. til l. um virkjun Svartár í Skagafirði hefur nú verið lagt fram á Alþ. Ég harma það, að það skuli ekki hafa verið gert fyrr, þar sem svo virðist, að sé stefnt í nokkra tvísýnu með það, hvort það fæst samþykkt og hvort það verður að lögum á þessu þingi eða ekki. En ég lýsi ánægju minni þó yfir því, að frv. er komið fram, og ég vil undirstrika það, sem áður hefur komið fram hér hjá þm., sem um þetta hafa rætt, að heima í Skagafirði og í Húnavatnssýslum er mikill áhugi fyrir því, að þetta frv, verði að lögum og það sem fyrst. Það var alveg réttilega tekið fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., séra Gunnari Gíslasyni, að þetta mál er búið að vera á dagskrá norðan heiða allt frá því 1920 og það hefur verið vaxandi vilji fyrir því, að Svartá verði virkjuð, og nú hefur frv. að Íögum um þessa virkjun loksins séð dagsins ljós. Ég vil með þessum fáu orðum, sem ég segi um þetta frv., hvetja til þess, að unnið verði svo að málum, að þetta frv. verði að lögum. Okkur hefur verið tjáð, að það eigi að slíta Alþ. fyrir páska, en engu að síður eru það margir dagar til þess lokadags, að vel er hægt að vinna þannig að því, að frv. verði að l., og ég vil skora á hv. þm. úr þessu kjördæmi að snúa nú svo bökum saman, að þetta geti orðið að veruleika.

Í 2. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. heimilast að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs eða ábyrgjast lán, er Rafmagnsveitur ríkisins taka, allt að 86 millj. kr. eða jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt, til greiðslu stofnkostnaðar þeirra mannvirkja, er um getur í 1. gr.

Það má segja, að hér er aðeins um heimild að ræða, og ef einhver vandræði verða með það að útvega þetta lán, þá tefst afgreiðsla þessa máls, en við skulum vona, að svo verði ekki. Ég fagna einnig því, sem segir í 6. gr., en það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Óski sveitarstjórnir á Norðurl. v. að gerast eignaraðilar að Svartárvirkjun og öðrum orkuverum á orkuveitusvæðinu, er ráðh. heimilt að gera samninga þar um fyrir hönd Rafmagnsveitna ríkisins.“

Ég tel feng í þessu ákvæði frv., og það er í sjálfu sér ekki nema lík ákvæði og eru í l. um aðrar virkjanir. Hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði hér að umtalsefni grein, sem birtist í Tímanum í dag um Svartárvirkjun. Ég vil segja það, að ég er eins og hann einnig undrandi yfir þeim skrifum, — sem þar birtast í því annars ágæta blaði. Ég er algerlega ósammála þeim skrifum, sem þar eru birt, enda er það ekki birt undir nafni, og ég tel, að þar sé mjög ýkt sú andstaða, sem sé á móti virkjuninni. Í nefndri grein er m.a. bent á það, að umframorka frá Skeiðsfossvirkjun sé það mikil, að þess vegna væri hægt að leysa rafmagnsvandamál Húnvetninga og Skagfirðinga með því að tengja Gönguskarðsárvirkjun og Skeiðsfossvirkjun. Þetta er hin mesta firra. Siglufjarðarkaupstaður, eigandi Skeiðsfossvirkjunarinnar, hefur þurft að verja tugum þús. og hundruðum þús. í rekstur dísilvéla til að fullnægja rafmagnsþörf á Siglufirði, og er fráleitt, að hann sé fær um að selja rafmagn til fjarlægari byggða. Það má vera að einstaka daga sé þannig ástatt, en það er ekki til frambúðar.

Ég lýk svo þessum orðum mínum með því að lýsa yfir stuðningi við frv. til l. um virkjun Svartár í Skagafirði og vil enn fremur undirstrika það, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, hagi vinnubrögðum sínum á þann veg, að unnt verði að senda þetta frv. fyrstu dagana í næstu viku til Ed., svo að það megi verða að lögum, áður en þingi verður slitið.