01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. iðnn. með fyrirvara. Sá fyrirvari var um 6. gr. aðallega, fyrri mgr. 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að sveitarstjórnir á Norðurl. v. geti orðið eignaraðilar að þessari virkjun. Ég er þeirrar skoðunar, að hér eigi Rafmagnsveitur ríkisins einar að vera aðili og það sé ekkert til bóta, að hér sé farið að blanda saman hlutum, eins og gert er ráð fyrir í 6. gr. Ég álít, að raforkuframkvæmdir eigi að vera á vegum ríkisins, og það mun að ýmsu leyti líka auðvelda mál í framkvæmd; ég mun ekki fara frekar út í það.

Eftir að við höfðum afgr. málið í iðnn., eins og hv. frsm. n. tók fram, bárust Alþingi erindi frá heimamönnum, sem hæstv. forsrh. hefur nú einnig gert að umræðuefni. Ég vil aðeins við afgreiðslu málsins leggja áherzlu á, eins og þegar hefur verið gert, varðandi öll þau deilumál, sem þarna kynnu að vera fyrir hendi, sem okkur var ekki kunnugt um, þegar n. ræddi málið, að nefndin hafði engan tíma til þess að afla sér þeirrar vitneskju, því að mjög var beðið um, að málið yrði afgreitt nú á þessu þ., og það leiddi af sjálfu sér, að ekki var neinn tími til að leita umsagna um málið, en þeir, sem kunnugastir voru, sögðu, að ekki gætu verið fyrir hendi neinar svipaðar ástæður og við höfum orðið vör við varðandi Laxárvirkjun. Ég vil sem sé leggja áherzlu á, eins og frsm. n. gerði, að ekki verði ráðizt í neinar framkvæmdir, fyrr en öll þessi deilumál eru leyst og samningar hafa verið gerðir þar um.