03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um virkjun Svartár í Skagafirði hefur verið til athugunar í iðnn. Mælir n. með samþykkt frv. á þskj. 789. Við 1. umr. málsins hér í þessari þd. lét iðnrh. þess getið í tilefni af bréfi frá félagi landeigenda við Svartá, sem hv. alþm. hafa fengið, að tillit yrði tekið til ábendinga, sem þar koma fram. Þá hefur mér borizt í hendur símskeyti svo hljóðandi:

Stjórn Stangveiðifélags Sauðárkróks lýsir ánægju sinni yfir fram komnu frv. um virkjun Svartár. Jafnframt fögnum við því að sjá fram á, að gamalt áhugamál um laxveiði ofan Reykjafoss rætist. Teljum ýmsar leiðir vel færar í umdeildu sambúðarvandamáli.

Brynjar Pálsson.

Árni Blöndal.

Stefán Guðmundsson.

En þetta er sá félagsskapur, sem áður hefur haft á leigu neðra veiðisvæði Svartár. Þetta símskeyti staðfestir, að það er mikill einhugur og áhugi í héraði á þessu virkjunarmáli. Athuganir á virkjunarmöguleikum fyrir Norðvesturland hafa verið á dagskrá nokkurn tíma. Niðurstaðan hefur verið sú, eins og fram kemur í grg. frv., að taka Svartá til virkjunar, en þar fást 3500 KW, sem ekki er svo lítil virkjun fyrir þetta landsvæði. Virkjuð vatnsorka á Norðvesturlandi er fyrir löngu fullnýtt, en í þeim landshluta, sem virkjun við Svartá er ætlað að ná til, er aðeins um að ræða Gönguskarðsárvirkjun með 1000 KW afl og Laxárvatnsvirkjun með tæp 500 KW eða samtals aðeins 1500 KW. Dísilstöðvar eru því notaðar til að sjá fyrir rafmagnsþörf þessa svæðis að stórum hluta eða samtals 3500 KW. Nægir því Svartárvirkjun aðeins til þess, að hægt sé að leggja niður hina dýru rafmagnsframleiðslu með ollu. Nokkur athugun hefur farið fram á hagkvæmni þess, að í stað virkjunar heima fyrir verði lögð lína frá öðrum landshlutum, t.d. frá Akureyri. Eins og málum er háttað nú, taldi stjórn Laxárvirkjunar hins vegar ekki fært að gera samninga um sölu rafmagns út af orkusvæðinu. Enda þótt nú sé hægt að nefna virkjun Svartár litla orkuveitu t.d. miðað við Búrfellsvirkjun, sem hefur að hluta allt annan tilgang og er auk þess byggð fyrir þéttbýlishluta landsins, þá er ekki svo ýkja langt síðan hægt var að kalla 3500 KW virkjun stórframkvæmd á íslenzkan mælikvarða. Fyrsta stórvirkjun landsins var við Elliðaárnar, byggð 1921 og hafði 1100 KW orkuafköst. Ljósafoss í Sogi var virkjaður 1936 með 9000 KW virkjun, og Laxárvirkjun var byggð 1937 og var aðeins 1500 KW í byrjun.

Eins og ég tók fram, er brýn þjóðhagsleg nauðsyn á, að virkjunarframkvæmdir fyrir Norðvesturland geti hafizt sem fyrst. Nágrannavirkjunin, Skeiðsfossvirkjun í Fljótum, eign Siglufjarðar, er um 3000 KW og er einnig meira en fullnýtt. Þar eru nú einnig framleidd 1000 KW með olíu og eðlilega mun kominn hugur í Siglfirðinga að stækka sína Skeiðsfossvirkjun, sem ekki er enn þá samtengd öðrum virkjunum á svæðinu. Það fer vel á því, að þessi landshluti fái aukna raforku til sinna þarfa, og ætti það að geta stuðlað að uppbyggingu iðnaðar og annars atvinnurekstrar á Sauðárkróki, Hofsósi, Blönduósi, Skagaströnd og Hvammstanga, en á þessum stöðum hefur atvinnuástand oft verið hvað erfiðast við að eiga. Iðnn. mælir því eindregið með, að samþykkt þessa frv. verði gerð nú.