22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. Vestf. að flytja brtt. við 2. gr. frv. þannig, að við hana bætist svo hljóðandi mgr.:

„Þess skal jafnan gætt, að ekki stafi mengunarhætta af rekstri verksmiðjunnar.“

Tilefni þessarar till. er það, að á mengunarráðstefnu, sem haldin var fyrir nokkru á vegum Landverndar og fleiri aðila, skýrði Hörður Þormar efnafræðingur frá því, að Áburðarverksmiðjan dreifði árlega um 500 tonnum af eiturgufum yfir umhverfið, og í framhaldi af þessu upplýsti annar sérfræðingur, Vilhjálmur Lúðvíksson, að þetta væri ofan við þau mörk, sem talin væru leyfileg í Bandaríkjunum. Ég býst við, að allir hv. þm. séu sammála um það, að það beri að útiloka mengunarhættu frá Áburðarverksmiðjunni eins og öðrum fyrirtækjum, og ástæðan til þess, að það hafa ekki verið gerðar sérstakar ráðstafanir í því sambandi enn, er einfaldlega sú, að menn hafa ekki gert sér grein fyrir þeim hættum, sem þar eru á ferðinni. Ég vænti því þess vegna, að þessi till. fái góðar undirtektir og um hana þurfi ekki að verða neinn ágreiningur. Í till. er ekki sett neitt ákvæði um það, hver eigi að hafa eftirlit með höndum í þessum efnum, en það er m.a. gert vegna þess, að Alþ. hefur fyrir nokkru samþykkt að láta undirbúa sérstaka löggjöf um mengunarmál og það má reikna með því, að hæfilegur og eðlilegur hraði verði hafður á því máli og Alþ. muni fjalla um slíka löggjöf á næsta þingi. Þá verða að sjálfsögðu sett ákvæði um það, hvernig eftirliti með Áburðarverksmiðjunni og öðrum aðilum skuli vera háttað í sambandi við mengunarhættuna.

Mér finnst rétt, fyrst ég er kominn hingað á annað borð í ræðustólinn, að lýsa fylgi mínu við þá till., sem hv. 5. þm. Vesturl. hefur flutt og er á þskj. 321. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það má segja, að það fyrirkomulag, sem þar er fjallað um, þ.e. samstarfsnefndir í fyrirtækjum, sé að komast á víða úti um heiminn, menn séu að fikra sig áfram í þeim efnum og þreifa sig áfram í því, hvað muni henta bezt í því sambandi. Ég held, að það sé rétt, að Íslendingar fylgist með þróun í þessum efnum eins og öðrum og þeir geri tilraunir með það, hvernig þetta muni gefast, og þá er ekki óeðlilegt, að ríkið hafi þar forustuna og þetta fyrirkomulag verði einmitt reynt af stærstu fyrirtækjum þess eins og t.d. Áburðarverksmiðjunni. Þess vegna finnst manni, að þessi tilraun, sem lagt er til, að hér verði gerð, sé eðlileg og sjálfsögð, og ég fagna því, að þessi till. skuli hafa hlotið jafngóðar undirtektir hjá stjórn verksmiðjunnar, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, en þrátt fyrir það tel ég það öruggara og vissara að setja um þetta ákvæði, því að það er ekki alveg víst, þó að núverandi stjórn verksmiðjunnar sé þessu fyrirkomulagi hlynnt, að síðari stjórnir kunni að vera það, og þess vegna tel ég, að það sé eðlilegt og heppilegt að setja um þetta ákvæði í lög.